Beint í efni

Ísland pólerað

Ísland pólerað
Höfundur
Ewa Marcinek
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Snædís Björnsdóttir

Sjálfsævisöguleg saga um pólsk-íslenskan veruleika

Ísland pólerað er safn örsagna og ljóða eftir pólska rithöfundinn Ewu Marcinek sem búsett er í Reykjavík. Efni bókarinnar er sjálfsævisögulegt að hluta og lýsir veruleika ungrar pólskrar konu í Reykjavík og upplifun hennar af íslensku samfélagi og tungumáli. Bókin, sem upphaflega var skrifuð á ensku, hefur verið í smíðum um nokkurn tíma og áður hafa birst úr henni ýmis brot, svo sem í tímariti Ós pressunnar og í Tímariti Máls og menningar. Auk þess hefur alþjóðlegi leikhópurinn Reykjavík Ensamble sett hluta verksins á svið í leiksýningunni Ísland Pólerað eða Polishing Iceland sem margir lesendur kannast eflaust við. Bókin á sér því margslungna viðtökusögu og kemur hér út í heild sinni í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur. Tilurð bókarinnar endurspeglar að mörgu leyti þann samfund tungumála og menningarheima sem á sér stað í frásögninni; bókin er, líkt og höfundur hefur sjálfur bent á, innflytjendasaga eftir pólskan rithöfund, skrifuð á ensku og gefin út hjá íslensku forlagi.

Að pólera Ísland

Líkt og áður segir er bókin safn örsagna og ljóða, sem mynda þó saman heildstæða frásögn. Ljóðmælandi er ung og nýfráskilin kona sem við upphaf bókarinnar er stödd í heimalandi sínu Póllandi þar sem hún býr og starfar. Snemma í sögunni verður hún fyrir miklu áfalli. Við fylgjum henni síðan eftir þegar hún leggur land undir fót og flytur til Íslands til að hefja þar nýtt líf, þrátt fyrir varnarorð sálfræðingsins síns um að „Ísland er bara frystir. Það á ekki eftir að hjálpa þér að jafna þig.“ Þegar til Íslands er komið tekur ljóðmælandi síðan við starfi sem þjónn á veitingastað í Reykjavík. Veitingastaðurinn er eitt helsta sögusvið bókarinnar og verður í frásögninni að eins konar suðupunkti ólíkra menningarheima eða hálfgerðum míkrókosmós hins alþjóðavædda heims: „Mark er að ná í tíu lítra af kjötsúpu. Íslenskri kjötsúpu. Eldaðri af ekta Spánverja með hjálp frá sönnum Indverja, seldri af klassískum Pólverja, afhentri af alvöru Ameríkana. Brauðið er bakað af ósviknum Rússa. Einn lítri kostar tvö þúsund og fimm hundruð krónur.“ Á veitingastaðnum eru sömuleiðis settar á svið ýmsar skondnar senur og atvik sem greina frá þeim tungumálahindrunum og menningarlegu árekstrum sem verða á vegi ljóðmælanda í framandi umhverfi. Frásögnin af samskiptum Íslendinga og framkomu þeirra við ljóðmælanda, ungan pólskan innflytjenda, er afhjúpandi um leið og hún er fyndin og kaldhæðin. Hún bregður þannig ljósi á fordóma og viðhorf gagnvart pólskum innflytjendum í íslensku samfélagi. En þrátt fyrir að bókin takist þannig á við erfið málefni á borð við fordóma, áföll og sorg er hún síður en svo þungbær. Öllu heldur er ákveðin léttleiki yfir frásögninni sem greinir á fyndin og kaldhæðin máta frá vandræðaleika og misskilningi og hinu skoplega og skrýtna í tilverunni. Ísland pólerað er þannig kannski fyrst og fremst saga um hið sammannlega, jafnt hið fyndna og hið sársaukafulla, sem við eigum öll sameiginlegt þvert á þjóðerni okkar og tungu.

Við elskum störfin sem þið hatið.
Við elskum störfin sem þið hatið.
Við elskum störfin sem þið hatið.
Það er ekki satt.
Við hötum þau líka.
Við elskum bara að búa hér.
Langt frá vandamálum okkar.

Lyklar og hnífar

Lyklar setja svip sinn á frásögnina og mynda einskonar leiðarstef bókarinnar. Oftar en ekki eru þeir táknrænir fyrir hugarástand ljóðmælanda, stundum eru lyklarnir skakkir, þeir beyglaðir eða snúnir, oft eru þeir hárbeittir og virka sjaldnast þegar þeim er stungið í skrána. Stundum eru lyklarnir jafnvel hnífar: „Lykill. / Hnífur. / Lykill. / Hnífur. / Lykill er hnífur / stundum.“ Lyklar og hnífar fylgjast þannig yfirleitt að í frásögninni og standa bæði fyrir aðgengi og aðild, útilokun og höfnun, von og ótta: „Ég vef vonum mínum utan um lyklana, silfurblöð þeirra milli / fingra mér.“ Fyrsta ljóð bókarinnar segir jafnframt frá týndum lykli og er táknrænt fyrir stöðu þess sem er utanaðkomandi í tilteknu samfélagi. Ljóðið er sett upp líkt og brandari og hefst á línunum: „Pólverji gekk fram og til baka fyrir framan útidyrnar sínar.“ Gamanið snýst þó fljótt upp í alvöru og þegar lykillinn kemur ekki í leitirnar eru útidyrnar brotnar upp með hníf. Til þess að forðast það að fá á sig slæmt orð lýgur Pólverjinn þó að nágrönnum sínum og segist hafa fundið lykilinn: „Ég vildi ekki að þau héldu að ég stæli svo ég laug.“ Hér, líkt og annars staðar í bókinni, er snúið upp á kunnulega orðræðu í garð innflytjenda og hún framsett á húmorískan og kaldhæðin máta.

Kringlanie, Smaralindzie, Skeifanie

Ísland pólerað er fjöltyngd saga að því leyti að hún er skrifuð á íslensku, pólsku og ensku allt í senn. Tungumálaveruleiki Pólverja á Íslandi, sem markaður er af þessum þremur tungumálum og samblöndu þeirra, er þannig endurspeglaður á margvíslegan máta í textanum. Í eftirminnilegu ljóði undir lok bókarinnar er þessi veruleiki undirstrikaður. Ljóðið er skrifað á pólsku og kann því að virðast lesendum sem ekki kunna tungumálið illskiljanlegt við fyrstu sýn. Þegar að er gáð eru mörg orðin í ljóðinu hins vegar fengin úr íslenskum aðstæðum og vísa í séríslenska staðhætti. Þau ættu því að vera auðskiljanleg þeim sem þekkja til, jafnt íslenskumælandi og pólskumælandi lesendum. Þannig bregður fyrir í ljóðinu orðum á borð við „kenitale“, „fristundzie“ og „lopopejsę“ og ferðalag ljóðmælanda frá „Kringlanie, Smaralindzie, Skeifanie, Bonusie, Hagkojpie,“ til „Kronanie,“ ætti einnig að koma lesendum kunnulega fyrir sjónir. Ljóðið sýnir þannig fram á þann veruleika sem Íslendingar og Pólverjar á Íslandi eiga sameiginlegan, þrátt fyrir að eiga sér ólík móðurmál. Það er einmitt á mótum þessara tveggja tungumála og veruleika, á póleruðu Íslandi, sem sagan á sér stað. Hún segir okkur því ekki síður margt um íslenskan veruleika heldur en pólskan.

Sagt er að við, pólerandi fólkið, séum að flýja lág laun og félags-
leg vandamál heima fyrir. En séum við á flótta á er það frekar
undan brostnum hjörtum, brostnum draumum, brostnu stolti. Það
er skárra að vera skrímsli en að vera brotin manneskja, held ég.

Sjónarhorn Íslands pólerað er athugult og greinandi og bókin hefur fram að færa einstaka sýn á íslenskt samfélag og pólsk-íslenskan veruleika. Með húmor og kaldhæðni að vopni greinir höfundur frá fyndnum og sársaukafullum atvikum sem bregða ljósi á stöðu innflytjenda á Íslandi. Tónninn í bókinni er blátt áfram, húmorískur og einlægur og ljóðmælandi leiðir lesandann um kunnuglegar og framandi slóðir ástarsorgar, ofbeldis, aðlögunar og að lokum nýrra tækifæra og vonar. Pólverjar mynda stærstan hluta innflytjenda á Íslandi og sjónarhorn pólskra rithöfunda því mikilvægt framlag til íslenskra bókmennta. Ísland pólerað er einstakt rit af sínum toga og kærkomin viðbót í íslenskt bókmenntalandslag.

 

Snædís Björnsdóttir, mars 2022