Fjöldi íslenskra listamanna hefur komið fram á norrænu menningarhátíðinni Nordic Cool, sem nú stendur yfir í Kennedy Center í Washington D.C. Í þessari heildarkynningu á menningu Norðurlandanna er hlutur íslenskra bókmennta talsverður, en mikil aukning hefur orðið á útgáfu íslenskra samtímabókmennta á ensku að undanförnu og hafa nýjar bækur í enskum þýðingum verið kynntar á hátíðinni. Rithöfundarnir Gerður Kristný, Kristín Ómarsdóttir og Hallgrímur Helgason tóku í vikunni þátt í bókmenntadagskrá hátíðarinnar, eins og greint hefur verið frá á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem stóð að dagskránni í samstarfi við NordLit, norrænu bókmenntakynningarstofunnar. Kristín Ómarsdóttir tók þátt í dagskrá helgaðri norrænu töfraraunsæi, Gerður Kristný ræddi um áhrif goðafræðinnar á samtímaljóðlist norðurlanda og Hallgrímur Helgason tók þátt í umræðum um mikilvægi fjölskyldunnar í norrænum bókmenntum. Frekari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Sannkölluð sprenging hefur orðið í útgáfu íslenskra skáldverka á ensku. Á árunum 2009, 2010 og 2011 komu samanlagt sjö íslenskir titlar út í enskum þýðingum, samkvæmt samantekt sem Reykjavik Grapevine birti undir lok síðasta árs. Til samanburðar telst okkur til að á árinu 2012 hafi að minnsta kosti 17 íslensk skáldverk komið út á ensku.
(Stækka mynd)Þessi mikli vöxtur er til marks um aukinn áhuga á íslenskum samtímabókmenntum á heimsvísu í kjölfar heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt 2011 og útnefningu Reykjavíkur sem UNESCO bókmenntaborgar.Íslenskar bókmenntir á Nordic Cool
