Beint í efni

Íslenskur skáldskapur prýðir Leifsstöð

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, í samstarfi við Höfuðborgarstofu og ISAVIA, hefur komið fyrir brotum úr íslenskum skáldskap í enskum þýðingum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verkefnið miðar að því að kynna íslenska orðlist fyrir ferðamönnum sem eiga leið um flugstöðina og um leið að vekja athygli á því að Reykjavík er ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Á veggjum, gólfum, speglum og gluggum flugstöðvarinnar geta ferðalangar nú lyft andanum með því að lesa stutt brot úr ljóðum og sögum íslenskra höfunda, en alls eru tilvitnanirnar tuttugu talsins. Skáldin eru Nóbelsskáldið Halldór Laxness, Vilborg Dagbjartsdóttir, Matthías Johannessen, Linda Vilhjálmsdóttir, Nína Björk Árnadóttir, Gerður Kristný, Sjón, Steinunn Sigurðardóttir, Vigdís Grímsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigurður Pálsson, Einar Már Guðmundsson, Auður Ava Ólafsdóttir, Pétur Gunnarsson, Jónas Þorbjarnarson, Anna S. Björnsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir. Þá eiga tón- og myndlistarkonurnar Björk og Nína Tryggvadóttir tvö ljóðanna og einnig er vitnað í Hávamál. Reykjavík varð ein af Bókmenntaborgum UNESCO í ágúst 2011, fyrst borga utan ensks málsvæðis. Aðrar Bókmenntaborgir eru Edinborg í Skotlandi, Dublin á Írlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Melbourne í Ástralíu og Norwich á Englandi. Titillinn er varanlegur. Í könnun sem alþjóðasamtök flugvalla, Airports Council International, gerðu fyrr á þessu ári þótti Keflavíkurflugvöllur veita besta þjónustu evrópskra flugvalla með undir 2 milljón farþega. Flugvöllurinn skarar fram úr hvað varðar heildaránægju farþega, en meðal annars þykir andrúmsloft þar einkar þægilegt. Það er von þeirra sem standa að Bókmenntaborginni Reykjavík að  skáldskapurinn stuðli enn frekar að því að fólk sem sækir Ísland heim eða kemur hér við á leið annað eigi ánægjulega viðdvöl í flugstöðinni og að landið bæði kveðji og taki á móti þessum gestum á jákvæðan og upplífgandi hátt. [gallery link="file" order="DESC" columns="4" orderby="title"]