Sextíu og þrír grunnskólanemar í Reykjavík tóku á degi íslenskrar tungu við Íslenskuverðlaunum unga fólksins í Bókmenntaborginni Reykjavík. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal Hörpu, að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og verndara verðlaunanna. Markmið Íslenskuverðlaunanna er að hvetja nemendur til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs og vekja þau til vitundar um auðinn í íslenskri tungu. Grunnskólanemarnir sem tóku við verðlaunum að þessu sinni hafa skarað fram úr á ýmsa vegu í íslenskunámi, frumlegum skrifum og tjáningu. Nokkrir þeirra eru tvítyngdir og verðugir fulltrúar nemenda af erlendum uppruna sem hafa náð góðum tökum á nýju tungumáli í nýju landi. Meðal verðlaunahafa eru ljóðskáld, leikritaskáld, ræðuskörungar og lestrarhestar á aldrinum 8-15 ára. Allir verðlaunahafar fengu til eignar veglegan verðlaunagrip sem hannaður er af Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur. Verðlaunaathöfnin var afar hátíðleg. Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, setti athöfnina, en að því loknu ávarpaði Vigdís Finnbogadóttir ungu verðlaunahafana. Þá lék kvartett úr Skólahljómsveit Austurbæjar fyrir gesti og nemendur úr Dalskóla lásu og sungu.
Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík
