Beint í efni

Játningar mjólkurfernuskálds

Játningar mjólkurfernuskálds
Höfundur
Arndís Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Unglingabækur eru sívinsælt bókmenntaform, yfirleitt koma nokkrar slíkar út á hverju ári og verður að segjast eins og er að þær eru æði misjafnar. Það vill loða við þessa tegund bóka að bæði persónusköpun og söguþráður séu klisjukennd og boðskapnum ausið yfir lesandann eins og enginn sé morgundagurinn. Sem betur fer eru ekki allar unglingabækur þannig og auðvitað leynast margar mjög góðar bækur í flórunni því unglingabókmenntir bjóða upp á fjölbreytt umfjöllunarefni og geta hæglega speglað allt litróf lífsins, frá því neikvæða til þess jákvæða, ástir, dramatík, spennu og gamansemi og ef bók af þessu tagi á að ganga upp er ekki verra að hún hafi sitt lítið af hverju. Mikilvægast af öllu er kannski að í henni sé jafnvægi milli þessara þátta og að ljós sé að finna við enda ganganna. Játningar mjólkurfernuskálds eftir Arndísi Þórarinsdóttur er unglingabók sem fellur í síðarnefndan flokkinn. Þetta er fyrsta skáldsaga Arndísar og það er sko enginn byrjendabragur á henni.

Aðalpersóna Játninga mjólkurfernuskálds er Halla, 13 ára mjólkurfernuskáld, fyrirmyndarnemandi og glæpakvendi. Halla er stelpa sem er á beinu brautinni í lífinu. Allt sem hún gerir gerir hún vel, hún er vinsæl, hamingjusöm og almennt bara nokkuð sátt við lífið. Líf hennar fer þó á annan endan þegar hún er tekin á lóð Hagaskóla með tösku fulla af dópi. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir feðra hennar, félagsráðgjafa og vina gefur hún ekkert upp um það hvað vakti fyrir henni þegar hún fór með töskuna í skólann, vitandi hvað var í henni. Hún er rekin úr skólanum og fjölskyldan tekur þá ákvörðun að flytja í annað hverfi. Ástæðurnar eru nokkrar, þar sem annar pabbi hennar er atvinnulaus og hinn að byrja í nýju starfi þurfa þau að leigja út húsið sitt í vesturbænum og búa í ódýrara húsnæði í úthverfi á meðan en þau flytja líka til þess að Halla geti hafið nýtt líf í nýjum skóla.

Í byrjun bókar stendur Halla eiginlega alein frammi fyrir heiminum. Hún er ekki lengur saklausa stelpan sem var að byrja í Hagaskóla bara fyrir nokkrum mánuðum, hún veit eiginlega varla sjálf hver hún er eða hver hún vill vera. Líf Höllu í nýja skólanum er langt frá því að vera auðvelt. Hún er stimpluð glæpamaður og dópsali bæði af nemendum og kennurum því allir vita hvað hún gerði í Hagaskóla. Tilraun hennar til að vera gamla Halla úr Hagaskóla mistekst hrapalega og hún ákveður að reyna þá frekar að falla inn í hópinn sem allir halda hvort eð er að hún tilheyri. Hún ákveður að gerast villingur. Hún setur á svið leikrit og reynir að breyta sér til að falla inn í hópinn þótt það sé ekki sá hópur sem hún hefði helst af öllu kosið. Fljótlega verður henni þó ljóst að lífið er ekki alveg svona svart og hvítt. Fólk er ekki alltaf það sem það virðist vera á yfirborðinu, bæði upp á gott og vont. Halla fær að reyna það að vera ekki vinsæl og ekki fyrirmyndarnemandi og kemst smám saman að því hvað hópþrýstingur getur verið hættulegur. Hún kynnist líka fólki sem hún hefði sennilega aldrei kynnst ef aðstæður hefðu verið aðrar og verður að sjálfsögðu skotin í sætasta stráknum í skólanum. Mikilvægast af öllu er þó sennilega að hún finnur á endanum sinn stað í skólanum og lífinu og þar með tilganginn með þessu öllu saman.

Leit Höllu að sjálfri sér og hver hún vill vera er nokkuð sannfærandi. Persónan tekur framförum í sögunni, þroskast og lærir af mistökunum þótt augljóst sé að margt eigi hún eftir ólært, enda er hún svo sem bara 13. Halla er skemmtileg persóna, gáfuð á bókina og full af fróðleik en ekki alltaf jafn góð í að lesa í aðstæður og hegðun annarra. Hún talar oft að eigin sögn eins og gamalmenni en hefur húmor fyrir sjálfri sér upp að vissu marki. Þótt umfjöllunarefnið sé grafalvarlegt og bæði lesandinn og Halla átti sig á því, verður frásögnin aldrei þung og neikvæð. Vonarglætan er alltaf til staðar þótt stundum virðist langt í að rofi til í lífi Höllu.

Arndís Þórarinsdóttir á hrós skilið fyrir Játningar mjólkurfernuskálds. Efnið sem hún fjallar um er vandmeðfarið og eflaust auðvelt að setja sig í stellingar gagnvart lesendahópnum og reyna að koma að einhverjum góðum ráðum eða gáfulegum skilaboðum. Þetta er hins vegar einnig hægt að gera án þess að tala niður til lesandans eða drekkja honum í skilaboðum. Arndísi tekst vel upp með þetta. Halla er venjulegur unglingur í krísu, hún á erfitt með að finna sig en er samt í rauninni innst inni hvorki afbrotaunglingur eða villingur heldur bara venjuleg stelpa sem veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga, gerir mistök og reynir að klóra sig fram úr aðstæðum sem hún ræður ekki við ein. Í sögunni er allt sem þarf til að gera góða unglingasögu, ást, svik, lygar og svo framvegis en gamansamur stíllinn og skemmtilegt líkingamál gerir söguna að því sem hún er, frásögn af stelpu í leit að sjálfri sér, góðri skemmtun og umhugsunarverðri gagnrýni á aðstæður barna og unglinga bæði hér á Íslandi og úti í hinum stóra heimi.

María Bjarkadóttir, desember 2011.