Með þessu ljóði Stefáns Harðar Grímssonar óskar starfsfólk Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur lesendum gleðilegra bókajóla og farsældar á árinu 2013. Við þökkum samstarf og samfylgd á þessu viðburðaríka fyrsta heila starfsári Bókmenntaborgarinnar. Hvít jól Frá turnspírum allra kirkna berst klukknanna hringing er kallar á himneskan frið yfir krjúpandi þjóðir, sem krossinum bænir flytja að kristinna helgisið. Nú stígur úr fyrnskunnar bláma vor fagra arfsögn fram á hugarins svið. Á þök vor, í jólasnjó kafin, stjarnbliki stilltu stafar hátíðarnótt. Barnanna smáu hendur klappa kærkomnum gjöfum við kertaljósið rótt. Nú fyllast brjóst vor af blessun og guðlegri elsku og borðin veizlugnótt. Vér njótum krása og ljóss — En í frostinu frýsar, með freðin hófaskegg, langsoltinn húðarklár, leitandi að öskutunnu og lepur snæ og hregg. Og systir vor, portkonan, niður í Neðstastræti nötrar við kráarvegg. En þrátt fyrir allt, sem hírðist í húss vors skugga, hungrað, grét og kól, og myrkur slíks glæps, þá heimssálin hugljúft birtir, um hver ein gleðileg jól, bjarmandi von eftir kyndli komandi dýrðar og kærleiksríkri sól. Stefán Hörður Grímsson (1940) - Úr bókinni Í jólaskapi eftir Árna Björnsson með myndum eftir Hring Jóhannesson