Beint í efni

Jólaljóð

Jólaljóð
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Jólin eru klassískt viðfangsefni ævintýra, allt frá Lúkasarguðspjalli til Litlu stelpunnar með eldspíturnar og nútíma jólakvikmynda á borð við Þegar Trölli stal jólunum. Auðvitað birtast jólin víðar og í allskonar formi í allskonar skáldskap, en þó er eins og ævintýrið hæfi þeim best - án þess þó að ég vilji endilega meina að jólin séu ávalt eitthvert óslitið ævintýri. Þetta kemur vel fram í Jólaljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, en þar færir hún jólin í ljóð, sem jafnframt verða að einskonar ævintýraljóðum. Reyndar eru ljóð Kristínar líka oft einskonar ævintýr og því má segja að hér gangi allt upp.

Eins og alltaf í bókum Kristínar eru ljóðin misgrípandi, sum bara gufa einhvernveginn upp, en það kemur ekki að sök í þessari hvínandi fínu bók sem hægt er bæði að skauta yfir og lesa hægt eins og myrkrið, en í ljóðinu “Vetrarmorgun” “er nóttin þykk af myrkri en ekki færðu að vakna fyrr en þú hefur lesið þúsund blaðsíður af myrkrinu.” Hér má strax sjá dæmi um þann hæfileika höfundar að skapa nýjar myndir úr kunnuglegum aðstæðum. Við kynnumst manni sem er ósáttur við að vera ekki lengur engill, en fær þau góðu ráð að taka heimili sitt í gegn og þrífa og þá muni hátíð ljóssins færast nær. Og svo er fjallað um jólakjóla, vetrarsnjó, álfa og engla, kanelstangir og vanilluhringi, já og svo auðvitað Maríu og jólabarnið, jólakötturinn kemur við og hreindýrin klikka heldur ekki. Jólakjólarnir eru ýmist bláir eða rauðir og jólakötturinn eltir þær stelpur sem eru bara á sokkabuxum og ekki komnar í kjólana. Ekki má heldur gleyma að gera allt hreint fyrir álfana: “iljar frá öðrum heimi munu stíga þann dans / í ofnum gullsokkum / tylla sér á stólana og lesa bækurnar okkar”, einsog segir í “Álfarnir koma í heimsókn.” Og englarnir, þeir svífa “undir fallhlífum sem ofnar eru / úr sama efni og kóngulóarvefur”, í ljóðinu “Englaher flykkist til jarðar.” Er þetta jafnvel “árás”?

Síðustu tveir hlutar bókarinnar eru svo einskonar prósar, annarsvegar er kaflinn “Myndir” en þar er upptalning á ýmsum ævintýra- og draumamyndum sem sumar eru kunnuglegar úr ævintýrum en aðrar markaðar sérstæðri sýn skáldkonunnar. Þriðji hlutinn heitir hins vegar “Barnaleikrit” og þar er á ferðinni alveg dásamlega skemmtileg - og sorgleg - útgáfa af ævintýrinu um Hans og Grétu.

Það er erfitt að slíta sig frá því að fletta fram og til baka í þessari litlu jólabók og tapa sér gersamlega í þeim furðulega jólaheimi sem höfundur teiknar upp, en ég ætla að láta þetta nægja - að sinni, því ég veit að jólaljóð Kristínar eiga eftir fylgja mér inní jólin og gera þau svo miklu miklu skemmtilegri.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2006