Jón Árnason (1819 – 1888) þjóðsagnasafnari var frumkvöðull í söfnun þjóðsagna á Íslandi. Hann segir frá því í endurminningum sínum að hann hafi snemma haft áhuga á að heyra sögur og enginn á æskuheimili hans slapp við að segja honum þær, jafnvel þótt drengurinn yrði svo hræddur að hann yrði að biðja móður sína að halda utan um sig í rúminu. Þjóðsagnasöfnunina hóf Jón árið 1845 ásamt Magnúsi Grímssyni og kom safn þeirra Íslenzk ævintýri út 1852. Magnús lést 1860 en Jón hélt söfnuninni áfram og kom safnið sem kennt er við hann, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, fyrst út í tveimur bindum 1862 og 1864. Jón var fyrsti landsbókavörður Íslands og hvatamaður að stofnun forngripasafns ásamt Sigurði Guðmundssyni málara. Saman höfðu þeir svo umsjón með safninu, sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands.
Bókmenntamerking um Jón Árnason er við Laufásveg 5 en Jón og kona hans Katrín Þorvaldsdóttir Sívertsen (1829 – 1895) reistu húsið að Laufásvegi 5 árið 1880 og bjó Jón hér til dauðadags. Húsið er úr höggnu grágrýti sem sett er saman með kalki úr Esjunni. Það hefur stundum verið kallað Jónshús.