Beint í efni

Júlían er hafmeyja

Júlían er hafmeyja
Höfundur
Jessica Love
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Nýlega flutti ég pistil um inngildandi barnabækur í útvarp allra landsmanna. Inngildandi barnabækur eða barnabækur án aðgreiningar eru bækur sem fjalla um alla sem eru hluti af samfélaginu eða öllu heldur um þá og þau sem hafa ekki verið sérstaklega sýnileg í bókmenntum og bókmenntaumræðu nútildags. Til dæmis transfólk, fólk með fötlun, fólk með dökkan húðlit og býr eða kemur frá löndum sem ekki eru í Evrópu, fólk úr allskonar fjölskyldum.

Bækur spegla bæði menningu og tungumál, og skáldskapur og list skilgreina menningarlega sjálfsmynd. Barnabækur sýna börnum hvernig heimurinn er, jafnvel hvernig hann á að vera, hvað er leyfilegt og hvað er mögulegt. Þær eru því mikilvægur vettvangur til að koma þeim skilaboðum á framfæri að það eru ekki allir eins og það búa ekki allir við sömu aðstæður. Sumir þurfa að nota hjólastól til að komast leiðar sinnar, sumir tala annað tungumál heima hjá sér en í skólanum, sumir eiga engan pabba, sumir eiga tvær mömmur, og svo allar þessar stöðluðu hugmyndir og ímyndir um kynin – skilgreiningar á hvað er að vera strákur og stelpa sem ekki er lengur hægt að takmarka sig við.

Það gefur því auga leið hversu mikilvægt það er að öll börn geti speglað sig í bókunum sem þau lesa og að börn lesi ekki alltaf bækur sem sýna svipaða karaktera í svipuðum aðstæðum. Og hér má velta fyrir sér hvernig auka megi fjölbreytni á meðal barnabóka og stuðla að því að inngildandi barnabækur séu skrifaðar og þær gefnar út. Í útvarpspistlinum skýrði ég frá því hvernig lengi hefði verið vilji til þess að auka veg inngilandi barnabóka en eitthvað hefði staðið á útgáfu þeirra. Nú væri hægt að lesa nokkrar íslenskar bækur á þessari línu en þær væru flestar fyrir eldri börn – hvað með myndabækur fyrir allra yngstu lesendurnar? Og svei mér þá ef ég hef ekki verið bænheyrð með útgáfu Júlían er hafmeyja eftir Jessicu Love, sem þýdd er af Ragnhildi Guðmundsdóttur og gefin út af Angústúru, en hún er einmitt myndabók, með litlum texta, og því tilvalin til að lesa fyrir yngri börn – en einnig þau eldri.

Júlían er brúnn strákur sem býr með ömmu sinni á óskilgreindum stað en í samfélagi þar sem flestir eru hörundsdökkir. Hann er með ömmu sinni í strætó eða neðanjarðarlest þegar hann kemur auga á nokkrar hafmeyjar sem hann heillast svo af að hann svífur að því er virðist inn í draumaheim sjávar og hafgróðurs um stund. Þegar heim er komið, ákveður hann að klæða sig sem hafmeyju og notar það sem hendi er næst, blóm og gardínur. Í fyrstu virðist amma hans ekki sátt með þennan leik en færir honum svo hálsfesti og segir honum að koma með sér því að hún ætli að sýna honum dálítið. Þau fara saman í skrúðgöngu þar sem fólk er klætt sem verur hafsins – hafmeyjar, fiskar og álíka.

Sagan er abstrakt að því leyti að myndmálið ræður för og tekur yfir þann litla texta sem annars er að finna á síðunum. Við fyrsta lestur saknaði ég þess að hafa ekki betri skýringar í textanum en áttaði mig svo á því þegar ég skoðaði bókina með sex ára dóttur minni að það ýtir undir virkan lestur og að lesendur fá rými til þess að lesa söguna á skapandi hátt, túlka og velta fyrir sér merkingu ákveðinna atriða.

Ég bað dóttur mína að lesa söguna með mér og vera sérlegur ráðgjafi. Hvað fannst henni? Hún er ekki læs ennþá en vel læs á myndir og gat leitt móður sína í gegnum söguna með því að benda á myndirnar og segja hvað væri að gerast. Hún túlkaði ákveðin atriði á sinn hátt, giskaði og fyllti í eyður. Hún er þessa dagana að velta fyrir sér húðlit enda nýbyrjuð í skóla þar sem börnin hafa ólíkan húðlit og tala alls konar tungumál. Er maður brúnn ef maður kemur frá Japan? Talar maður ensku ef maður á heima á Englandi? Slíkar spurningar fáum við á hverjum degi. Hún var því fljót að koma auga á það að Júlían var brúnn. Býr hann þá í heitu landi? Ekkert endilega – en miðað við hvernig fólkið klæðir sig í sögunni hlýtur að vera frekar heitt þar sem hann býr eða kannski er bara sumar? Hún tók líka eftir því að Júlían var alltaf með ömmu sinni. Hvar er mamma hans? Á hann ekki pabba?

Og þá að aðalviðfangsefni bókarinnar - strákur sem vill vera hafmeyja -  hvað fannst Sóleyju sex ára, sérlegum ráðgjafa mínum, um það? Hún kippti sér lítið upp við það, er sjálf mjög hrifin af hafmeyjum og búin að biðja móður sína nokkrum sinnum að gefa sér hafmeyju-búning. Hins vegar sagðist hún ekki þekkja neina stráka sem vildu vera í kjól eða vera hafmeyjar. Af hverju heldur þú að það sé? Hún var ekki viss. En benti á að margir strákar á leikskólanum hennar gamla hefðu verið hrifnir af glimmeri.

Eins og segir á heimasíðu Angústúru er sagan fyrsta bók höfundar sem einnig er leikkona á Broadway. Og það er eitthvað „leikhúslegt“ við söguna. Júlían heillast af karakterum sem hafa klætt sig í búninga og býr sér sjálfur til búning. Við frekari eftirgrennslan komst ég að því að skrúðgangan, sem amma Júlíans fylgir honum á, er í raun Hafmeyjargangan á Coney Island í New York, árlegur viðburður þar sem fólk fagnar fjölbreytileikanum og klæðir sig sem hafmeyjar eða aðrar verur hafsins. Þá komst ég einnig að því að hafmeyjan er eitt af þeim táknum sem transfólk tengir sig við; hafmeyjan býr í tveimur heimum, annars vegar í hafinu og hins vegar á landi, og hefur ekki kynfæri. Þá hefur sagan hlotið bókaverðlaunin sem kennd eru við uppreisn samkynhneigðra í New York árið 1969, tengda við Stonewall-barinn sem er í Greenwich Village og lifir enn góðu lífi.

Ég hef sagt það áður og skrifa það aftur; bækur eru haldreipi í barnauppeldi. Þá á ég ekki við uppeldisrit (þó að Draumalandið eftir Örnu Skúladóttur hafi oft bjargað geðheilsunni...) heldur barnabækur sem kynna börnum flóknar hugmyndir á einfaldan, fallegan og skemmtilegan hátt, með hnitmiðuðum texta og skýrum myndum. Reyndar sýnir sagan um Júlían hvernig myndir í barnabókum þurfa ekkert endilega að vera skýrar og nákvæmar, hik og vafaatriði geta nefnilega virkað skapandi og sent unga lesendur og mæður þeirra á ófyrirséðar brautir, skapað nýjar sögur í sögunni.

Saga eins og Júlían er hafmeyja veitir ekki aðeins tækifæri til að eiga góða stund saman, styrkja tengslin, afskjávæðast, gleyma sér, og svo framvegis – heldur opnar hún á umræðu og spjall um samfélagið, heiminn og fjölbreytileikann í kringum okkur. Sagan opnar þannig gátt út í heiminn og stuðlar að því að dóttir mín verði meðvituð um þann fjölbreytileika sem einkennir samfélagið sem hún lifir og hrærist í. Hún hjálpar henni einnig að kunna að meta þennan fjölbreytileika og að fagna honum, því hann gerir henni kleift að lifa sínu lífi eins og hún kýs, án þess að þurfa sífellt að réttlæta tilvist sína. Umræða um það ofbeldi og aðkast sem transunglingar verða fyrir á Íslandi hefur verið áberandi undanfarið og er aðeins brot af þeim hræðilegu hatursglæpum sem transfólk verður fyrir á hverjum degi víðs vegar um heiminn. Bækur eins og Júlían er hafmeyja bjarga kannski ekki heiminum en þær sá fræjum, opna umræðuna og upplýsa börn og foreldra þeirra.
 

Vera Knútsdóttir, júní 2022