Karlar sem hata konur er fyrsta bókin í svokallaðri Millennium þrílógíu eftir sænska blaðamanninn og rithöfundinn Stieg Larsson. Larsson lést langt um aldur fram, rétt áður en fyrsta bókin kom út í Svíþjóð árið 2005. Ég las fyrstu bókina stuttu eftir að hún kom út á dönsku sama ár og það er ánægjulegt að geta rifjað þau kynni upp nú. Reyndar sætir furðu að það hafi tekið tæp fjögur ár að fá bækur Larssons útgefnar á íslensku því að þær vöktu strax mikla athygli og hafa verið þýddar á mörg tungumál. Höfundurinn fékk Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Karla sem hata konur árið 2006 og í haust vermdi enska þýðingin, The Girl with the Dragon Tattoo, metsölulista New York Times. Lokasagan, Luftslottet som sprängdes sem út kom árið 2007, fékk svo Glerlykilinn á þessu ári.
Karlar sem hata konur hefst á því að blaðamaðurinn Mikael Blomkvist er dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir róg sem hann hefur skrifað um viðskiptajöfurinn Hans-Erik Wennerström. Mikael er annar aðaleigandi tímaritsins Millennium, en það á hann ásamt vinkonu sinni og ástkonu. Áður en Mikael situr af sér dóminn fær hann boð frá öldnum iðnrekenda, Henrik Vanger, um að dvelja hjá honum í eitt ár og skrifa ættarsögu fjölskyldu hans. Í staðinn lofar sá gamli honum veglegri greiðslu og aðstoð við að koma Wennerström á kné. Skrif ættarsögunnar eru hins vegar yfirskin, það sem hann á raunverulega að gera er að rannsaka hvarf 16 ára frænku Vangers, Harriet, en hún hvarf fyrir meira en 35 árum. Loforðið um Wennerström gerir útslagið um það að Mikael tekur verkið að sér. Jafnframt því að lesendur kynnast honum er sögð saga Lisbeth Salander, en hún er rúmlega tvítugur tölvuharkari sem vinnur við persónurannsóknir. Hún hefur komist upp á kant við kerfið sem barn og unglingur og verið svipt sjálfræði. Lisbeth er snillingur á sínu sviði en hæfni í mannlegum samskiptum er ekki hennar sterkasta hlið. Leiðir þessara ólíku einstaklinga liggja saman eftir að Lisbeth hefur sett saman skýrslu um Mikael fyrir Vanger.
Sagan gerist á einu ári og í henni segir frá nokkrum sakamálum sem höfundur tvinnar haganlega saman. Hún hefst á spillingarmáli viðskiptajöfursins Wennerströms, sem verður til þess að Mikael tekur að sér að rannsaka hvað kom fyrir Harriet Vanger, eins og áður sagði. Á sama tíma á Lisbeth Salander í höggi við kynferðisglæpamann sem brýtur á henni, en kynferðisglæpir gegn konum ganga eins og rauður þráður í gegnum alla bókina. Meginefnið verður síðan sameiginleg rannsókn Mikaels og Lisbeth á hvarfi og hugsanlegu morði Harriet en sögunni lýkur eins og hún hófst, á máli Mikaels og kollega hans á Millennium gegn viðskiptamógúlnum Wennerström.
Sjónarhornið flakkar á milli aðalpersónanna tveggja. Mikael Blomkvist er svipaður mörgum kollegum sínum í stéttinni, blaðamenn eru vinsælar söguhetjur sakamálasagna og Mikael fellur vel að staðalmyndinni. Miðaldra, fráskilinn og kvensamur, faðir unglingsdóttur sem hann sinnir lítið sem ekkert. En hann er einnig fyrrverandi hermaður og ekkert sérstaklega drykkfelldur. Lisbeth Salander er óvenjulegri og jafnframt mun áhugaverðari persóna. Hún er utangarðs í samfélaginu, snillingur á einu sviði en óörugg og tilfinningalega vanþroska. Hún á leyndardómsfulla fortíð að baki og Mikael telur að hún sé með Aspergenheilkenni. Lisbeth er lýst sem lítilli og horaðri með húðflúr og göt í andlitinu og oftar en einu sinni kemur það fram að menn halda að hún sé ekki nema 15 ára. Samskipti aðalpersónanna eru að flestu leyti vel gerð og Larsson kunni vel að skrifa samtöl og búa til áhugaverða fléttu. Það er helst að Mikael missi trúverðugleikann þegar kemur að kynferðissambandi milli hans Lisbeth, það samband er aldrei sannferðugt og virkar allt að því perralegt. Að mínu mati er þetta stærsti galli sögunnar sem annars hefur til að bera allt það sem einkennir góðar sakamálasögur. Söguþráðurinn er spennandi og trúverðugur. Höfundur tekur á samfélagslegum málefnum eins og kynferðisglæpum og kynþáttafordómum og lýsingin á fyrirtækjum Wennerströms, sem eiga hvert í öðru svo að enginn skilur neitt, hljómar afskaplega kunnuglega í eyrum þeirra sem fylgst hafa með fréttum á Íslandi haustið 2008. Persónurnar eru áhugaverðar, bæði þær sem eru í auka- og aðalhlutverkum og höfundinum tekst að teikna upp skýra mynd af umhverfinu svo að lesandinn á auðvelt með að sjá atburðina fyrir sér.
Vonandi fáum við fljótlega framhaldið í hendur, engin ástæða til að bíða með það til næstu jóla. Að lokum ber að geta ágætrar þýðingar Höllu Kjartansdóttur, sem tekst vel að koma stíl frásagnarinnar til skila.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2008