Í nýrri skáldsögu Steinars Braga segir frá hjúkrunarkonunni Kötu. Hún starfar á krabbameinsdeild Landspítalans og býr á Seltjarnarnesi ásamt eiginmanni sínum, Tómasi. Þegar sagan hefst er tæpt ár liðið frá því að dóttir þeirra hjóna, Vala, hvarf sporlaust af menntaskólaballi. Kata heldur í vonina um að Vala komi í leitirnar, eða skili sér heim, en samband þeirra Tómasar einkennist af þögn og örvæntingu. Þegar Vala finnst látin í gjótu á Mýrum í Borgarfirði brestur sú veika von og Kata tapar sönsum, hægt og bítandi.
Meðfram þessu rifjar Kata upp æsku og unglingsár Völu, en samband þeirra var oft og tíðum erfitt og Kata mun hafa öfundað Tómas af því að ná betur til dóttur þeirra. Í atburðarásinni í kringum sjálft hvarfið skynjar hún vanmátt eða áhugaleysi lögreglunnar gagnvart enn einni stelpunni sem lætur sig hverfa. Tengsl hennar við kirkjuna sem hún tilheyrir fjara út. Kata drekkur sífellt meira. Allt bendir til þess að Vala hafi látist af of völdum smjörsýru og Kata verður forvitin um áhrifin, og reynir lyfið á sjálfri sér.
Hún hverfur inn í áfengis- og lyfjaþoku, og „vaknar“ nokkrum sinnum inni í dúkkuhúsi dóttur sinnar. Þar hittir hún rithöfundinn Kalman og annan ónefndan mann sem líkist uppréttum nashyrningi, en þeir halda stúlku fanginni í kjallaranum – að þeirra sögn til þess að vernda hana fyrir utanaðkomandi hættu, eða „vondum mönnum“. Draumaraunveran í dúkkuhúsinu rennur saman við veruleikann, sem er þegar ringlaður af drykkju og áfallastreitu, og á harðahlaupum endar fyrri hluti bókarinnar í brjáluðu uppgjöri við grunsamlegan einstakling – sem stendur á þeim tímapunkti fyrir öll þau kerfi (eða alla þá menn) sem hafa brugðist.
Kötu er ekki skipt í tvo eiginlega hluta en það verða skörp skil við uppgjörið við Tómas og í kjölfarið er Kata í vissum skilningi endurfædd. Í fyrri hluta bókarinnar er eins og Kata sé að rekja sig eftir einhverjum þræði, að leita vísbendinga sem kerfið hunsar og fletta ofan af leyndarmáli sem muni á einhvern hátt útskýra hvarf og dauða dóttur hennar. Þetta styður hefðin: í sögu af þessu tagi býst maður hálfpartinn við því að rannsakandi standi andspænis leyndardóm sem hann rekur sig í gegnum. Vímaðar heimsóknir Kötu í dúkkuhúsið passa inn í þetta skema sem skilaboð úr undirmeðvitund hennar eða jafnvel hliðarveröld sem veitir henni aðgang að vísbendingum, gleymdum minningum eða þvíumlíku.
Í öðrum hluta bókarinnar er þessu nánast – þó ekki alveg – ýtt til hliðar. Staðreyndin er sú að þeir sem unnu Völu tjón og „komu að dauða hennar“, eins og lögreglan orðar það, koma í ljós vegna þess að þeir gefa sig hálfpartinn fram. Þetta gera þeir að því er virðist vegna þess að þeir vorkenna sjálfum sér og vilja friða samvisku sína. Það sem meira er þá virðist dagljóst að hefðu þeir ekki gert það, hefði aldrei komist upp um þá – sama hvaða rannsóknaraðferðir og æðri máttarvöld hefðu komið við sögu. Í kjölfarið raðar lögreglan saman atburðarás hvarfsins og þykist nokkuð viss í sinni sök, en sönnunargögnin vantar og þar við situr: enginn er sóttur til saka. Hnúturinn sem Kata stendur frammi fyrir hefur því ekkert að gera með óupplýst leyndarmál heldur þá staðreynd að jafnvel þótt upplýst sé um málið (eins vel og vera má) muni kynferðisafbrotamennirnir samt ganga lausir.
Þetta er í sjálfu sér rútínuklemma fyrir hverskonar hefndarkrimma, sem Kata er öðrum þræði. En í kjölfar vitundarvakningarinnar sem Kata verður fyrir í seinni hluta bókarinnar – og sem hún tengir beint við lestur bókarinnar Á mannamáli (2009) eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann – verður ofbeldið gagnvart dóttur hennar hluti af meinsemd sem gegnsýrir menninguna alla. Þar er það regla fremur en undantekning að kynferðisafbrotamenn gangi lausir: Lítill hluti glæpa er tilkynntur, þar af er sjaldnast kært og í fæstum tilfellum er nokkur dæmdur. Og jafnvel þegar málin ná svo langt er sjaldnast hægt að tala um refsingu sem samsvarar þeirri eyðileggingu sem glæpirnir valda. Á sama tíma hyllir samfélagið ofbeldismenn og annað hyski sem koma fram við konur eins og hluti og skammast sín ekki fyrir að tala þannig um þær. Besta dæmið um þetta í bókinni er Björn Axelsson, einn þeirra sem nauðga og drepa Völu. Hann er handrukkari og einkaþjálfari, ofbeldismaður með bros á vör sem hefur á einhvern hátt náð að telja þjóðinni trú á því að hann sé fyndinn og skemmtilegur. Kata les í gegnum feril hans í fjölmiðlum,
og sá það allt renna saman í eina ósamstæða, samaklastraða hrúgu af hugsýki þjóðarinnar: sjálfsdýrkunina, minnimáttarkenndina, græðgina og fyndnina sem var ekki nema lítt dulbúin árásarhneigð; hvernig [Björn] þreifst á aðgreiningu – okkur og þeim – af hvaða tagi sem var en aðallega því sem varðaði kyn og útlit. Þótt konur væru ómissandi voru þær samt bara „ílát“, en bara í spaugi; og sumar þeirra hefðu eflaust gott af því að vera nauðgað en bara í spaugi, og nei, hann skammaðist sín ekki fyrir að viðurkenna það: hann vildi stelpurnar sínar eins ungar og „hægt var“ þótt slíkt væri feimnismál í samfélaginu – hann sagðist vita það – en meðan hann héldi sig réttum megin við lögin gat enginn láð honum slíkt og í hjarta sínu væru „allir karlmenn sammála“ honum, það væri náttúrulögmál og hann bara, sem fyrr, að segja það sem allir vissu en enginn þorði að segja – nema hann. (325-6)
Skilaboðin eru þau að hér á Íslandi núna í dag hafi réttarkerfið ekki áhuga á að refsa kynferðisafbrotamönnum og samfélagið hlæi við þeim. Allt er þetta óþægilega kunnuglegt enda er seinni hluti Kötu til helminga hefndarför og reiðilestur yfir þessu ömurlega ástandi. Í honum miðjum eru persónur á borð við Jakob Bjarnar og Jón Baldvin Hannibalsson slegnar utanundir, og einstakir dómarar nafngreindir. Reiðilesturinn er hafinn af heilum hug en þrátt fyrir að Kötu sé málið skylt og hún sæki í reynsluheim fórnarlamba með öðrum hætti er eins og þetta stóra Málefni ýti mæðgunum Kötu og Völu út af sviðinu. Kata verður fulltrúi hefndarinnar sem ekki fæst í alvörunni en hægt er að ímynda sér í skáldskap, og nokkrum síðum er eytt í rökræður um réttmæti þessarar hefndar. Réttlæting Kötu fyrir því sem hún gerir er sannfærandi en á þeim tíma sem tekur að „flytja málið“ á síðum bókarinnar færist morðið á Völu lengra aftur. Hér mætti setja réttlætinguna innan sviga og spyrja frekar: skil ég hefndina betur – er ég með í för, hér að lesa þessa skáldsögu – vegna þess hvað Vala og Kata þurfa að þola, eða vegna þess að kerfið er ónýtt? Hér getur hver dæmt fyrir sig, í mínum huga er svarið augljóslega það fyrra, en þegar kemur að niðurlagi sögunnar er persónulega hliðin ekki í forgrunni lengur, að mínu mati. „Hvort tveggja“ væri betra svar og mögulega það sem Kata reynir að byggja undir, en þrátt fyrir allt verður ákveðið bil þarna á milli.
Þetta er lengri leiðin til að segja (án þess að skemma söguna fyrir þeim sem ekki hafa lesið) að þegar stund hefndarinnar rennur upp virðist hún fremur lítil og einföld, og varla meira en varnarsigur – sem Kata hefur áður sagt vera bölvun á lífi „venjulegs“ fólks en nægir varla þeirri dýrslegu líkömnun hefndarinnar sem skáldsagan gefur í skyn.
Þetta dempar síðustu höggin frá Kötu sem slær annars hressilega frá sér allt í gegn. Þrátt fyrir „málflutninginn“ er bókin spennandi frá upphafi til enda, oft og tíðum ókennileg og beinlínis óþægileg, hvort sem er í martröðum dúkkuhússins, stilltu ofbeldi veruleikans eða í þrúgandi nærveru ofbeldismannanna, sem bókin fangar svo fullkomlega. Fjölskyldudýnamíkin á heimili Kötu, Völu og Tómasar, og síðar bara Kötu og Tómasar, er sérlega sannfærandi. Eins og hann hefur sýnt í fyrri bókum hefur Steinar einstaklega gott lag á að staðsetja persónur í kunnuglegum veruleika, sem hann gerir samt að sínum. Lýsingarnar á svefnhverfum borgarinnar, hylnum við Hrunakirkju, Sóleyjargötu/Fjólugötu og Hljómskálagarðinum, svo eitthvað sé nefnt, eru allar kennilegar, þær „passa“, en eiga samt hvergi annarstaðar heima en á þessum síðum.
Að öllu þessu sögðu eru það litlu atriðin sem skipta mestu máli (nema hvað), klausurnar sem koma hvergi frá og enda þar líka: minningar, hugrenningar og draumórar sem eiga hvorki heima í vakandi veruleika Kötu né draumveru smjörsýrunnar heldur einfaldlega í lífi sögunnar. Það er svo til gagnslaust að taka dæmi vegna þess að heildaráhrifin verða ekki dregin saman, en gerum það samt:
Eftir svolitla stund komu til hennar vetrarmyndir úr skógi, og af litlum kofa innan í kúpli sem var hristur til að kalla fram snjó. Allt í kringum hana var hvítt og bak við kofann var botnfrosin tjörn: síli, ormar, pöddur og allt sem lifði hafði grafið sig ofaní botnleðjuna sem var ennþá volg eftir sumarið, hægði á hreyfingum og efnaskiptum, hægði á öndun og hjartslætti og hugsun þar til einungis eitt stóð eftir, bláþráður hugsunar: að lifa. (330)
Það er líf í Kötu, þessari skáldsögu sem hverfist um dauða. Það veltir henni á alla kanta og gefur vísbendingar um glufur, ranghala og læstar hirslur; leiðir til þráða sem ég hef ekki gefið mér rúm til að fjalla um hér. Með því skapast vídd sem gerir lesturinn margfalt þess virði, jafnvel þó manni finnist heildin aldrei ná því marki sem hún hefði getað gert.
Björn Unnar Valsson, október 2014