Gestir er nýjasta hrollvekjunóvella Hildar Knútsdóttur en undanfarin ár hefur hún sent frá sér fjórar stuttar og hrollvekjandi spennusögur með konum og köttum í aðalhlutverkum. Sú fyrsta Myrkrið milli stjarnanna kom út árið 2021, önnur bókin Urðarhvarf árið 2023, þriðja bókin Mandla árið 2024 og fjórða bókin Gestir árið 2025. Bækurnar gerast í sama söguheimi og eiga margt sameiginlegt þrátt fyrir að vera ekki eiginleg sería. Það er til dæmis auðvelt að ímynda sér aðalsöguhetjurnar að versla í Bónus á sama tíma án þessa að vita af hvor annarri. Eins gæti það vel verið að Eik úr Urðarhvarfi sé konan með kattaskannan sem kemur nokkrum sinnum fyrir í bókunum. Eitt af því sem nóvellurnar eiga sameiginlegt er að konur eru aðalpersónur í þeim öllum og sögurnar eru sagðar frá þeirra sjónarhorni. Annar sterkur þráður sem tengir bækurnar saman eru kettirnir sem eru yfir og allt um kring og eru oftar en ekki miklir örlagavaldar í sögunum. Hvort tveggja á sannarlega við um Gesti en hún segir frá því hvernig líf tveggja kvenna, Unnar og Ástu, fléttast saman eftir að köttur Ástu, Edit, fer að venja komur sínar heim til Unnar.
Unnur er viðskiptafræðingur á framabraut og virðist á yfirborðinu vera með allt á hreinu, alltaf vel til höfð og þolir enga óreiðu í lífi sínu. Í fyrstu kærir Unnur sig hvorki um köttinn né eigandann en þegar Edit ákveður að gjóta kettlingi uppi í rúmi hjá henni vandast málið. Ásta þverneitar að færa kettina á þessum viðkvæma tíma og reynir að sannfæra Unni um að það verði ekkert rask í kringum þá ef hún leyfir þeim að vera í nokkrar vikur. Unnur er ekki alveg sannfærð: „Ég virði fyrir mér blóðblettina í sængurverinu. Þetta er silkidamask úr egypskri bómull, sex hundruð þráða“ (27). Hún lætur þó til leiðast og þar með neyðist hún einnig til að kynnast Ástu betur. Í gegnum samtöl Unnar og Ástu kemst lesandinn að því að það er ekki allt eins fullkomið í lífi Unnar og kann að virðast við fyrstu sýn. Fljótlega tekst með þeim vinátta og þær tengjast sterkum böndum. Nánast frá þeirra fyrstu kynnum hefur Unni grunað að ekki sé allt með felldu í heimilislífi Ástu og eftir því sem dagarnir líða verður Unnur áhyggjufyllri og fer að óttast um öryggi hennar.
Blóðblettirnir á sængurverinu reynast bara vera byrjunin því Gestir er blóði drifnasta nóvellan til þessa og höfundur heldur hvergi aftur af sér í lýsingum á blóðbaðinu. Hrollvekjuformið leikur í höndunum á henni og hún er jafnvíg á yfirnáttúrulegan óhugnað sem og hrylling af holdi og blóði. Hún hefur nýtt báðar tegundir hrollvekju í nóvellunum til þessa og oft blandað saman draugalegu andrúmslofti og blóðugu ofbeldi. Eitt klassískt hrollvekjustílbragð sem höfundi ferst mjög vel úr hendi er að skapa vafa um hvort atburðir bókanna spretti úr handanheimum eða hugarvíli sögupersónanna. Nóvellurnar vekja gjarnan upp þennan vafa og lesandanum er látið eftir að túlka það sem látið er ósagt í textanum. Spennan og hryllingurinn í Gestum er þó alfarið jarðbundinn og að því leyti er hún ólík fyrri bókunum. Kötturinn Edit gæti þó laumað inn örlitlum vafa hjá lesendum sem þekkja fyrri nóvellurnar með því að birtast í íbúð sem Unnur taldi lokaða og læsta. „Það er ekki fyrr en ég ligg uppi í rúmi í myrkrinu og reyni að sofna sem ég velti fyrir mér hvernig kötturinn hafi eiginlega komist inn“ (8).
Það er viðeigandi að daðrið við fantasíuna birtist í formi kattar en þeir eru dularfullar og duttlungafullar skepnur sem gegnum tíðina hafa oft verið tengdar við hið yfirnáttúrulega. Kettir hafa líka umtalsverða tengingu við hið óhugnanlega, birtast oft í bókmenntum sem fylgjur norna eða illir fyrirboðar, og eru í þjóðtrú margra landa taldir hafa sérstakt samband við dauðann eða veröld hinna framliðnu. Það er talið að þeir sjái drauga eða geti á annan hátt gægst yfir þröskuldinn til þess sem er fyrir handan. Höfundur nýtir sér þessa táknrænu vídd kattarins í nóvellunum þar sem þeir eru oft brúin milli hversdagsleikans og fantasíunnar.
Annað sem er sameiginlegt með öllum nóvellunum er að sögumaður og aðalpersóna bókarinnar er mjög orðheppin og hnittin í frásögnum sínum. Þessi húmor í frásagnastílnum virkar vel sem mótvægi við drungaleg, hrollvekjandi eða blóðug umfjöllunarefni bókanna. Höfundur teflir oft saman taugatrekkjandi spennu og fyndni og lætur lesandann sveiflast milli þessara tveggja tilfinninga af mikilli fimi. Öðrum þræði fjalla allar bækurnar einnig um stöðu kvenna í samfélaginu sem er söguhetjunum hugleikið málefni og það er oft í vangaveltum þeirra því tengdu sem húmorinn fær mest að skína. Þær sjá í gegnum kjaftæðið þó þær þurfi stundum að láta það yfir sig ganga. Sem dæmi er Unnur með handritið á hreinu þegar hún fær stöðuhækkun:
„Mig?“ segi ég og þykist hissa. Alveg ógurlega, ógurlega hissa. Eins og á dauða mínum hafi ég átt von en ekki því að þeir myndu velja mig, færustu og best menntuðu manneskjuna í teyminu, til að taka við af Tuma. Það skiptir nefnilega svo miklu máli að vera hógvær – að minnsta kosti þegar maður er kona. (95)
Söguhetjurnar þurfa ekki bara að tækla ójafna stöðu kvenna á vinnumarkaðinum heldur takast bækurnar einnig á við hættulegri vandamál af þessum toga. Úrræðaleysi gagnvart kynbundnu ofbeldi er sem dæmi örlagaríkt bæði í Möndlu og Gestum. Unnur hringir um miðbik sögunnar á lögregluna sem getur lítið gert til að hjálpa Ástu:
Lögreglukonan andvarpar.
„Þetta eru erfið mál. Hún verður að vilja fara“
Ég stari á hana. Augu hennar eru full samúðar og ég get ekki annað en velt fyrir mér hversu oft hún hafi lent í svipuðum aðstæðum. (82-83)
Þrátt fyrir að takast oft á við erfið málefni dregur það ekki úr skemmtanagildi bókanna og þar er Gestir engin undantekning. Höfundur heldur áfram að nýta margt af því sem virkaði vel í fyrri bókum eins og hnittna sögukonu og kött sem fer sínar eigin leiðir. Allar skarta nóvellurnar sterkri persónusköpun, vel útfærðum hryllingi og spennu sem gerir lesandanum erfitt að leggja bækurnar frá sér og það á einnig við um Gesti. Gestir er virkilega góð hrollvekja, blóðug og spennandi, og grípur lesandann strax frá fyrstu blaðsíðu.
Svanhvít Sif Th Sigurðardóttir, mars 2025