Fyrr á þessu ári komu út tvær ljóðabækur sem eiga það sameiginlegt að vinna markvisst með samspil orða og mynda. Þó efni þeirra og andrúmsloft sé ólíkt leika báðar af barnslegri gleði með þann undragjörning sem lestur er um leið og þær krefja lesandann um að taka þátt í merkingarsköpun textans.
Að vera en vera ekki
Bókin Klón: Eftirmyndasaga kom út undir merkjum Máls og menningar í mars síðastliðnum og hefur hlotið umtalsverða athygli. Verkið, myndskreyttur ljóðabálkur, er samstarfsverkefni rithöfundarins Ingólfs Eiríkssonar og Elínar Eddu sem hér er í hlutverki hönnuðar og myndskreytis þó hún sé einnig þekkt fyrir ljóðaskrif.
Undir titli bókarinnar, Klón: Eftirmyndasaga, er mynd af aðalsöguhetju bókarinnar, hundinum Samson, best þekktum sem gæluverkefni fyrrum forsetahjóna Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaieff. Svo syrgðu hjónin hund sinn Sám þegar hann féll frá að þau létu klóna hann. Úr varð Samson. Kápumyndin er í gráum og silfruðum tónum sem vekja hugrenningartengsl við eitthvað málmkennt og ólífrænt, eitthvað tilbúið, og kallast þannig vel á við titilinn og efnið. Á myndinni horfir Samson tómum, þunglyndislegur augun út úr rammanum, framhjá augnaráði lesandans, eins og hann annað hvort (eða bæði) geri ekki ráð fyrir að neinn vilji mæta augnaráði hans eða sé of djúpt sokkinn í eigin depurð til að geta sýnt heiminum áhuga.
Myndin í samspili við titilinn beinir þannig athyglinni strax að því sem er undirliggjandi í öllum textanum; þeirri kaldranalegu staðreynd að Samson er fyrst og fremst fyrirbærið klón fremur en vera sem hefur gildi í sjálfri sér. Hann er eftirmynd, mynd af einhverjum öðrum en honum sjálfum. Sem vekur upp spurningar um hver hann raunverulega sé? Er hann yfir höfuð einhver? Af svip hans að dæma, eins og hann blasir við lesandanum á kápu bókarinnar, veldur þetta honum hugarangri. Hér fer hundur í sjálfsmyndarkreppu því með tilvist sinni dregur Samson fyrst og fremst athyglina að því hver hann er ekki – fremur en því hver hann er.
Að missa, gráta og klóna
Með þessa tilfinningu þyngsla og depurðar innanbrjósts fer lesandinn inn í bókina en er skjótt sendur í margræðari áttir. Ljóð Ingólfs eru nefnilega hræðilega fyndin. Með orðinu hræðilega er átt við að það er aldrei gaman að standa sig að því að hlæja að óhamingju annarra.
Samson er eins og Sámur en ekki sá sami.
Samson er ekki Sámur.
Samson ≠ Sámur.
Samson = Eins og Sámur.
Samson var Eins og Sámur.
Hér upplifði Samson sig annarlegan.
Eitthvað gerði að verkum að hann var ekki Sámur.
Húmorinn þjónar hér því markmiði að draga fram alvarleika umfjöllunarefnisins. Þemu bókarinnar hverfast um miskunnarlaust vald og leik mannskepnunnar að lífinu. Hvatinn að þeim leik sprettur hér af þörfinni fyrir að sigra dauðann sem er vitaskuld klassískt bókmenntaminni. Að sætta okkur við missi mun seint teljast styrkleiki okkar sem tegundar, við kjósum að halda í hið kunnuglega og sækjast í sífellu eftir meira af því sama. Þetta vita markaðsvélar samtímans og nýta sér til hins ýtrasta eins og hnykkt er á í þriðja kafla bókarinnar, "Tilurð Samsonar":
Áður en Samson varð til
var Sámur það sem Samson átti að verða síðar,
en ekki strax.
Það var ekki eftirspurn eftir Samsoni þá.
Samson varð til vegna eftirspurnarinnar
og vegna framboðsins.
Markaðurinn læddist í grasinu.
Markaðurinn smeygði sér upp að syrgjendum.
Hlykkjaðist. Vafði sig utan um þau.
Grátið ekki! Sámur mun aftur upp rísa!
Nýr Sámur!
Hraustari Sámur!
Tilurð Samsonar má því rekja til þess að tóm skapast á markaði, ef svo má að orði komast. Syrgjendur Sáms geta ekki sætt sig við skarðið sem hann skilur eftir sig og vilja fylla það skarð með hinu kunnuglega fremur en einhverju nýju og óþekktu. En hann verður ekki síður til einfaldlega vegna þess að möguleikinn er fyrir hendi. Hér er sjónum beint að samspili markaðshyggju og þeim hæfileika mannskepnunnar sem skilur hana frá öðrum dýrum, sjálfum sköpunarmættinum og því ægivaldi sem honum fylgir. Höfundur lengir í þessum þræði með því að flétta inn í frásögnina þjáningarsystur Samsonar, klónkindina Dollý og skapara hennar, vísindamanninn Sir Ian Wilmut. Hér, sem og víðar í bókinni, eru trúarlegar tilvísanir áberandi og ekki síst deilt á karllægt vald innan bæði trúarbragða og vísinda og brölt karlmanna með líkama kvenna:
Sir Ian Wilmut hefði aldrei getað skapað hrút.
Honum hefði þótt það guðlast.
Guð skapaði manninn, maðurinn skapaði konuna,
sagði hann við sjálfan sig
og þótti tilhugsunin eilítið erótísk.
Eftirmynd endurfæðist
Önnur áhugaverð hliðarsaga er af listamanninum Salvador Dalí. Dalí var ekki klón af sama tagi og Samson og Dollý en burðaðist engu að síður með þungan farangur eftirmyndarinnar í gegnum lífið. Hann var barnið sem fæddist á eftir barninu sem dó, bróður sínum Salvador en sá dó á barnsaldri. Og þar sem foreldrum hans gekk engu betur en forsetahjónunum að sætta sig við missinn vildu þau að nýja barnið yrði eins og það fyrra. Spennitreyja eftirmyndarinnar verður í þessu tilviki að skapandi umbreytingarafli því úr henni brýst súrrealistinn Dalí:
Salvador vildi vera barn
en foreldar hans neyddu hann til að vera Salvador.
Þannig varð súrrealisminn til.
Vissulega er umfjöllunarefni bókarinnar eitthvað sem kalla mætti súrrealískt en Ingólfur nýtir súrrealismann ekki síður í myndmáli ljóðanna og víkkar með því hugmynda- og táknheim textans. Þetta á ekki síst við í lokakafla bókarinnar, "Draumar", þar sem textinn tekur að leysast upp. Hér má segja að samsláttur mynda og orða nái hámarki en unnið er með þekkt stef úr myndum Dalí og þá aðferð súrrealismans að tengja saman tvo óskilda hluti:
Ekki rýtingur
heldur yfirvaraskegg.
Smókingklæddur.
Augnlokin
gullin vasaúr.
Klón: Eftirmyndasaga er bók um grafalvarleg málefni og stórar heimspekilegar og siðferðislegar spurningar þó tónninn sé húmorískur. Stíll og uppsetning textans bætir svo enn öðru lagi við upplifun lesandans. Ljóðunum er stillt upp efst á síðunum svo stærsti hluti blaðsíðunnar er ýmist auður eða myndskreyttur og setningar eru stuttar og einfaldar. Allt undirstrikar þetta íroníuna í textanum og framkallar þá kennd hjá lesandanum að verið sé að lesa barnabók um efni sem er engan veginn viðeigandi fyrir börn. Myndskreytingarnar fá lesandann til að staldra við og púsla saman samspili orða og mynda. Margar þeirra standa sem einhvers konar hluti fyrir heild, líkt og magi frú Dalí sem stingur sér inn af jaðri blaðsíðunnar án þess að aðrir líkamshlutar fylgi með. Myndir Elínar Eddu í þeim köflum bókarinnar sem snerta á Dalí eru reyndar allar sérstaklega skemmtilegur leikur með þekkt mótíf úr hans verkum. Bókin er því gripur þar sem hönnun og efniviður vinna saman að því að skapa andrúmsloft og upplifun sem er bæði gáskafull og tragísk.
Er leikur að lesa?
Ásta Fanney Sigurðardóttir hefur ekki verið við eina fjölina felld á listasviðinu og vinnur jafnt með ljóðaskrif, gjörninga og myndlist. Hennar nýjasta bókverk, Sería forma, kom nýlega út hjá forlaginu Þremur höndum í hundrað og sextíu tölusettum eintökum og leikur sér á mærum texta, myndlistar og hljóðverks.
Lestur er ótrúlegur gjörningur. Augað nemur bókstaf, tákn í formi myndar, sem heilinn umskrifar í hljóð, endurtekur leikinn með næsta staf, tengir saman við þann fyrri og þann næsta og svo koll af kolli þar til hann leggur allt heila klabbið saman í nýtt tákn, nýja mynd sem táknar orð. Og þetta getur hann endurtekið út í óendalega - lagt saman öll táknin, öll hljóðin og að lokum öll orðin og myndað merkingarbærar setningar. Að við getum yfir höfuð framkvæmt þetta og það á sekúndu broti er lyginni líkast. Hvers vegna stöldrum við ekki oftar við og undrumst að þetta sé hægt?
Það er erfitt að lesa Seríu forma án þess að gefa sér að það hafi verið einlægur ásetningur höfundar að senda lesanda sinn lóðbeint í þá átt að hann sé á fyrstu stigum þess að læra að lesa. Stafirnir liggja á blaðsíðunni með óreglulegu bilum, líkt og teygt hafi verið á orðunum, stundum aðeins einn stafur í línu, stundum liggja orð lóðrétt niður síðuna, stundum í handahófskenndu mynstri. Í ofanálag er orðum sem innihalda marga af sömu stöfum oft raðað nálægt hvert öðru svo augað ruglast, þarf að byrja aftur, leita að orðunum, hvar er fyrsti stafurinn í þessu orði? Og hvernig tengdist orðið því sem á undan fór? Hvað er ég að lesa? Líður lesblindum svona?
Hljóð og mynd fara saman
Það er því ekki beint af áreynslulausri nautn sem lesandinn fer í gengum textann. Reynslan er hins vegar forvitnileg. Að vera neyddur til að lesa hvert einasta orð löturhægt, gera endalaus mistök og þurfa að byrja frá byrjun kallar í fyrstu fram undrun, svo pirring, svo þrjósku (Ég veit að ég er vel læs, ég hef lesið margar þykkar bækur, ég skal koma mér í gegnum þennan texta!) og að lokum ánægju sem líklega er keimlík þeirri sem barn upplifir þegar það nær að stauta sig og hljóða í gegnum fyrstu síðuna í Óli og Sísí sáu sól (eða hvað þessar bækur nú hétu). Hér er því lykilatriði að sýna þrautseigju. Og láta ekki síðustu línuna á fyrstu síðu stuða sig of mikið – ég finn lykt af óþolinmæði (7).
Bókin er því að vissu leyti hljóðverk, þar sem tregðan sem skapast í lestrinum krefur lesandann um að einbeita sér að hverjum einasta staf og hljóða sig áfram í gegnum hvert einasta orð. En hún er ekki síst myndverk. Stafirnir og bilin á milli þeirra mynda mynstur á síðunum, mynd sem þó er ekki mynd af neinu sérstöku. Mynstur verða lesandanum einnig hugleikið því hann áttar sig á að hve miklu leyti heilinn reiðir sig á mynstur við að lesa og þekkja orð – að vera hraðlæs er í raun geta til þekkja orð hratt á mynstri þeirra. Í Seríu forma er hins vegar búið að eiga svo við mynstrið að ómögulegt er að hraðlesa. Í sjálfu sér rímar þetta vel við ljóðalestur, ljóðaformið er samþjöppun á tungumálinu og krefst hægs og endurtekins lesturs. En þetta er ekki síður afbragðs mótsvar við hraða internetsins og hinum landlæga áunna athyglisbresti sem margir telja ástæðuna fyrir minnkandi lestri og læsi almennt.
Form minninganna
Eins og titilinn gefur til kynna eru form sömuleiðis leiðarstef en bókin er kaflaskipt og er hver kafli merktur mynd af tilteknu formi sem með einum eða öðrum hætti er þar til umfjöllunar. Bernskuminningar eru stefið sem hér er leikið með, minningar sem með einum eða öðrum hætti tengjast formum og lögun hluta. Ljóðmælandi rifjar upp pönnukökur sem tóku á sig óvænta mynd, ílangt bakkelsi nefnt efir óþekktum manni og ferningslaga hulstur um lítið rafgæludýr sem hékk um hálsinn. Sökum þess hve mikil orka fer í lesturinn sjálfan nær umfjöllunarefnið ekki alveg í gegn við fyrstu tilraun en við hvern lestur dýpkar skilningur manns á ljóðunum og tengingin milli framsetningar og efnis skýrist. Textinn er oft bráðfyndinn og verður enn fyndnari fyrir þær sakir hversu hægt þarf að lesa hann. Þetta setur lesandann aftur í barnslega stöðu, hann þarf tíma til að skilja grínið því framsetning textans tefur fyrir skilningi.
Bókin sver sig mjög í ætt við það sem áður hefur sést til Ástu Fanneyjar, ekki aðeins sökum þess að erfitt er að binda það á bás einnar listgreinar heldur ekki síður vegna húmorsins og leiksins. Í verkum hennar og upplestrum er gjarnan stutt í grín og grallaraskap og við lestur Seríu forma líður lesandanum á köflum eins og hann hafi lent í klónum á skemmtilegum stríðnispúka. Hönnun bókarinnar er afar einföld sem talar vel við efnið – grófar pappírsarkirnar eru heftaðar saman eins og eitthvað búið til af einlægni í skólanum eða við lítið skrifborð. Sería forma er bók sem erfitt er að lýsa í orðum sökum þess að hún beygir sig ekki undir eitt form heldur mörg, eins og tæpt hefur verið á hér ofar. Einnig er ekki hlaupið að því að setja fram brot úr textanum sem dæmi, með því væri verið að eiga við myndverkið. Lesendur eru því hvattir til að kynna sér Sería forma sjálfir til að öðlast af henni heildræna mynd og ekki síður til að gleðjast yfir því að kunna að lesa.
Hrafnhildur Þórhallsdóttir, nóvember, 2021