Í upphafsljóði bókarinnar Kóngulær í sýningargluggum er ljóðmælandi „með ljóðin krosssaumuð í tunguna“. Fyrir miðri bók er „kveðja“, þar sem „broddur orðblárrar tungu snertir kartöfluna laust“ og málstola veggur spyr „hvað vildirðu sagt hafa ungfrú raddlaus?“ Á undan „kveðju“ er ljóðabálkurinn „úr dagbók“ en þar kemur fram að „tungumálið styrkir sig á kolum sem tilfinningarnar halda heitum / ástríðuleysi fælir orðin burt“. Ljóðið „vers“ fjallar líka um orð:
í lófanum liggur dáið orð mjúkt einsog andvarinn og rósin úti í porti
og jafnheitt nýkulnuðum eldi og nýorpnu eggi
orðið færði mér eitt lamb og grænan tvinna
rödd þín færir mér vissu um að ég búi á öðrum stað
þegar varir þínar snerta eyrað ferðast ég örugg
Næsta ljóð, „minnisflís“, hefst á því að „moldin geymir orð sem ólíkt mér þekkja vitjunartímann“ og síðan kemur í ljós að „þau stinga sér upp úr jörðinni í þessari bók“.
Þannig spinnur Kristín Ómarsdóttir kóngulóarvef orða sem mynda ljóð og liti, myndir og muni – minningar og tilfinningar. Orðin vella fram því tungumálið hefur innbyrt kol sem halda á því hita eins og nýorpnu eggi. Og hvað sem líður málstoli og raddleysi komast þau til skila, þó ekki væri nema við snertingu orðblárrar krosssaumaðrar tungu, vara og eyrna. Orð Kristínar Ómarsdóttur spretta upp úr moldinni, velta út úr kóngulóarvefjum, vefja sig utanum hluti og umbreyta þeim á andartaki.
Kóngulær í sýningargluggum er fyrsta ljóðabók hennar í næstum áratug, en í millitíðinni hefur hún sent frá sér skáldsögur, smásögur og örsögur. Síðustu árin hefur hún einnig birt viðtöl við skáldkonur í Tímariti Máls og menningar. Textanum fylgja teikningar Kristínar en vinna með samspil orða og mynda er mikilvægur þáttur í höfundarverki hennar. Það á við hvort sem um er að ræða samstarfsverkefni við listakonur, samspil eigin teikninga við texta eða myndauðgi í textum hennar, sérstaklega í ljóðum og örsögum en einnig í lengri prósaverkum. Segja má að þetta hafi náð ákveðnu hámarki í smásagnasafninu Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo (2011 ), en myndir úr þeirri bók voru sýndar á Borgarbókasafninu í Grófinni sama ár.
Nálgun Kristínar á tungumál og orð einkennist af sérstæðri og á stundum súrrealískri sýn sem afhjúpar áður óþekkta möguleika til skynjunar, skilnings og samskipta og á sama hátt er myndvefnaður hennar afar fjölskrúðugur og litfagur. Enda kemur fram í ljóðinu „dans“ að „litir snyrta hugarfarið“:
skipsflautur flauta til leiks: léttklæddir æða menn út á iðagrænan völl
undir súpermannsbláum himni
en blekið er glært, eins og neglurnar
blekið er þokuglært, eins og neglurnar
Þess ber að geta að fyrsta ljóðabók Kristínar heitir einmitt Í húsinu mínu er þoka (1987) og því vitum við að þokan er fulltrúi ljóða og þar með bleks, auk þess að vera glær eins og neglur. Kóngulóarblár litur einkennir „undirbúning“, en þar eru „kóngulóarblá rúmföt einsog þráin kóngulóarbláa“ og „neyðarlitt snæri“. Bleiki liturinn er víða, útvörpin eru bleik í „úr dagbók“, í „gluggakistum“ er smiðsbakið bleikt og í „minjagripur“ handsamar spegillinn „mynd mína þegar ég handgreiði morgunbleikt hárið“. Tólgin er himinbleik í „flótta“ og sófarnir munnrjóðir í „boðflenna“. Bleiki liturinn tengist meðal annars dauðanum eins og kemur fram í „bekkur“, en þar er hann sessunautur ljóðmælanda dauðinn sjálfur og „bregður fyrir á bekknum“ á meðan „morgunbleikir tónar hvítta sóttbjart eldhúsið“.
Leikurinn með liti tekur því stundum á sig óhugnanlegan blæ eins og í „litirnir í dúkkuhúsinu mínu“:
gólfið er ljósgrænt
veggirnir úr álpappír
sófinn bleikur
tunga mín er græn
augu mín holur
ókunnug mannvera leiðir mig úr herberginu
Óhugnaðurinn er reglubundið stef í verkum Kristínar, allt frá hnífaleikjunum í smásagnasafninu Í ferðalagi hjá þér (1989). Ferðafélagi hans er „sakleysið“, en „unggrænt fæðist sakleysið hvert vor / svo breytist liturinn, eins og merkingin, og logar í haust“. Á sama hátt skipta ljóð Kristínar litum og merkingu, spanna andstæður og sundra samstæðum: „myrkrið styður og styrkir blinduna“. Þannig gerist það að „málverk lýsa veginn“ („úr dagbók“) og „það er enginn vegur“ segir í „hérna hjá okkur / samt tilheyrir enginn / ekkert okkur“. Kristín hafnar öllum þægilegum lausnum og grefur stöðugt undan tilraunum til túlkana, jafnframt því að bjóða upp á ofgnótt lykla og tákna.
Kynjapólitík hefur alltaf verið sterkur þáttur í verkum Kristínar, í formi leiks með kyn og kyngervi. Eins og oft áður er mikið um kvenleg tákn, en þar er glerbrjóstið – eða glerbrjóstin – fyrirferðarmest. Glerbrjóst birtist sem reglulegt stef í gegnum alla bókina, til dæmis í formi tilkynninga og auglýsinga, en það er ekki gott að segja fyrir hvað það stendur. Annar hluti bókarinnar nefnist „úr dagbók“ og þar koma glerbrjóstin við sögu á fyrstu síðu:
morgnarnir vaxa á trjánum
ég vakna með klukku á bakinu~
auglýsing :
glerbrjóst~
auglýsing:
tangir~
andspænis mér situr yfirsetukona : við deilum eggjum
með morgunskímunni og salti – vísarnir snúast, vísarnir snúast
yfirsetukonan rís á fætur og hverfur inn í klukkuna á veggnum~
Þetta er eitt af þessum dásamlega dularfullu ljóðum Kristínar, þar sem súrrealisminn svífur yfir vötnum. Fyrsta línan er í sjálfu sér lýsandi fyrir sólarupprás, þar sem birtan sést í gegnum greinar trjáa, líkt og morguninn vaxi þar og einnig kannast sjálfsagt margir við þá tilfinningu að finna fyrir byrði klukkunnar þegar þeir vakna á morgnana. En svo koma auglýsingarnar: „glerbrjóst“ og „tangir“. Yfirsetukonan gefur til kynna að þetta hafi eitthvað með fæðingu að gera, og tangirnar og eggin ýta undir þá tilfinningu. Tíminn líður – og konan hverfur inn í klukkuna. Vongóður lesandi sem flettir á næstu síðu fær þar „snú-snú / förum eitthvert“ og svo kemur í ljós að „það rignir / í lestrarbókinni“. Loks birtist hjúkrunarkona, „í vínrauðum möttli“ og „það birtir“. Heilbrigðisstarfsmenn koma reyndar víðar fyrir, eins og í fyrrnefndu ljóði „bekkur“: „sjúkraliðinn stígur inn og fellur saman við veginn“. Hér er tengingin þó við dauða frekar en fæðingu.
Glerbrjóstin má lesa sem tákn um hvað kvenlíkaminn er viðkvæmur, en líkt og oft áður fylgir valda(ó)jafnvægi kynjamyndmáli Kristínar. Feðraveldið birtist á óvenjusterkan hátt í ljóðunum eins og í „erfingjar mannúðar / ofan af toppöld“, en þar slá hjörtu piltanna með flúruðu vörumerkin á bakinu „takt í feðraskjóli“. Birtingarmyndir feðraveldisins eru pólitískar í sjálfu sér, en Kristín hefur skrifað áhrifaríkar pólitískar skáldsögur, til dæmis Hér (2004), Hjá brúnni (2008) og Flækingurinn (2015). Kóngulær í sýningargluggum er hinsvegar óvenju pólitísk miðað við ljóðabækur hennar, en segja má að þetta sé nokkuð í takt við það hvernig ljóðið almennt hefur orðið pólitískara síðasta áratuginn. Pólitík Kristínar býr yfir þeim eiginleikum sem einkenna verk hennar öll, að hún er í senn beinskeytt og hreinskiptin og flókin og margræð.
Fulltrúar feðraveldisins eru meðal annars dómarar og lögregla, en í „sögulok“ er gott dæmi um sérstæða nálgun Kristínar á pólitík og ádeilu:
lögregla landamæralauss ríkis hefur innsiglað eldhús bleikum
silfurböndumaldrei fæ ég að heyra sögur fluttar undir lampaskini við vaxdúk
horfa á varir hreyfast í takt við öldurgluggi bollastell öskubakki
ísskápur
dripp í krana
kvöld nótt
Fyrir utan þá kynjuðu mynd sem birtist í átökum landamæralögreglu (án ríkis, samt) og eldhússins, þá lýstur hér saman hinu ofurhversdagslega við einkennilega og ókennilega fegurð. Jafnframt erum enn á ný minnt á hið líkamlega – „varir hreyfast í takt við öldur“ – og tjáninguna, tungumálið, sem hér hefur verið stöðvað. Annað hápólitískt ljóð er „martröð“, en þar er lýst landi þöggunar – „næturóp konu sultað“ – en þrátt fyrir allt brýst tjáningin fram:
krakkarnir þræða varirnar saman með nál og tvinna og syngja saman í
draumkór
svitaperlur kórstjórnandans leika nóturnar
lófaklappið líkist fossi
fosssssss
Myndmál vatns kemur víða við og tengist bæði tjáningu og kvenleika. Hafið og konan hafa átt samleið í ljóðum Kristínar allt frá fyrstu bók hennar og í Kóngulónum hittum við stúlkur sem borða rækjur: „þakklátar munda stúlkurnar hnífana og rista í sundur holdið / hugurinn – hugurinn – hugurinn – hverfur til upphafsins“. Hér mætti minna á lag Bjarkar um hafið, „Oceania“, með texta eftir Sjón, en þar er hafið einmitt upphaf alls. Önnur tengsl konu og hafs eru hafmeyjarnar, sem einnig hafa áður birst í ljóðum Kristínar:
áhorfendur af hafi
landdreymnar stinga hafmeyjarnar hausunum
uppúr
og blína á skerminn í fjörunni
bróðir liggur í poka
bróðir liggur í poka
inní limmósínu sem liðast um frostkyrr stræti utan um sönginn í útvarpinu
– svo lágvær að orðin týnast annars staðar en hér :taktu handleggi mína
ég nota þá ekkert
taktu handleggi mína
ég nota þá ekkert
taktu handleggi mínaaugu meyjanna bólgna
silfurtár
örsmá glerbrjóst
glerbrjóstá hafnarbakkanum fanga frístundaveiðimenn
tárin af hvörmunum og tyggja
brotmjúkt hnossgætiðí staurblindum sjó synda þær burt
að skera sig á haustflísunum sem þekja landgrunnið
Tilvísunin í ævintýri H.C. Andersen er augljós og kynjapólitísk nálgun á hana einnig. Myndmálið er sem fyrr uppfullt af dásemdum og óhugnaði í senn, hafmeyjarnar eru ‚landdreymnar‘ eins og sú í ævintýri Andersen, sjórinn er ‚staurblindur‘ en í fjörunni er skermur. Strætin eru ‚frostkyrr‘ og haustið er oddhvasst. Frístundaveiðimenn bryðja ‚brotmjúk‘ tár hafmeyjanna, sem eru úr silfri. En hverjir eru áhorfendurnir? Hafmeyjarnar sjálfar? Eða við lesendur? Í ljóðinu er ljóst að hafmeyjurnar eru í hættu staddar, brothættar og glitrandi, en samt búa þær yfir óbærilegri fegurð sem við áhorfendur sækjum í.
Allt er þetta í takt við þá sérstæðu sýn skáldkonunnar sem málar allt í kóngulóarbláum og morgunbleikum litum. Sem fyrr opnar Kristín verkuleikaflöktandi völundarhús fyrir lesandanum, villir honum sýn og tryllir hann, en ljóð hennar eru í senn heillandi fögur og bullandi óþægileg. Orðblár tungubroddurinn stingur sér inn í þægindarammann og áður en veit hafa þræðir kóngulóarvefsins vafið sig um vitundina. Beiting endurtekninga og stefja hefur bæði sefjandi og truflandi áhrif og takturinn er órólegur og á stundum beinlínis ískrandi. Ef ég ætti að líkja ljóðum Kristínar við tónlist myndi ég hugsa um kvikmyndatónlist við hrollvekjur, en í báðum tilfellum er um að ræða þéttan stíganda sem ýmist brýst út í hamagangi eða hægir á sér um stund, og bíður átekta.
úlfhildur dagsdóttir, október 2017