Beint í efni

Konur

Konur
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er alltaf dálítið einkennilegt að lesa bók sem hefur verið hlaðin lofi og eiga svo að fjalla um hana nokkru eftir að hún (og lofið) kom út. Nýjustu skáldsögu Steinars Braga, Konur, var beðið með mikilli eftirvæntingu og voru fregnir af frábærleik hennar farnar að birtast löngu á undan bókinni sjálfri. Konum var svo tekið með kostum og kynjum og bókin ausin stjörnum og fyrrnefndu lofi. Það verður að segjast hér strax að mér finnst verkið illa standa undir þessu dálæti öllu og mín fyrstu viðbrögð eftir lesturinn voru þau að ef til vill misminnti mig eitthvað um lofið. Sem betur fer þurfti ég ekki að leita langt að leiðréttingu, kiljuútgáfan rekur samviskusamlega hrósið.

Þó veit ég fyrir víst að hrifningin er ekki alger, því fólk hefur ítrekað skammað mig fyrir jákvæðar umsagnir um verk Steinars og nú sérstaklega fyrir þessa bók þótt ég hafi alls ekki tjáð mig um hana. Fyrir þá sem ekki vita er það nefnilega algengt að gagnrýnanda sé kennt um ef rithöfundur sem hann hefur mært sendir frá sér verk sem valda vonbrigðum.

En snúum okkur að bókinni. Tungutakið var reyndar það fyrsta sem ég hnaut um þegar ég hóf lesturinn. Stíllinn minnir óneitanlega á frekar dæmigerða lélega þýðingu á erlendum afþreyingarbókmenntum, setning eins og: „Hún opnaði dyr á glerveggnum sem lá meðfram endilangri stofunni” (9), ollu mér nokkrum heilabrotum og þegar síðar kom í ljós að „Glerið í öllu húsinu var speglandi” (9) var ég farin að álíta að þetta væri retórískt bragð til að koma lesandanum í rétta stemningu fyrir þann afþreyingar-innblásna skáldskap sem væri í vændum. En stíllinn heldur ekki, heldur birtist óvænt hér og þar og því neyddist ég til að yfirgefa þessa annars ágætu tilgátu.

Hinsvegar er ljóst að afþreyingaráhrifin eru mikil og höfundur leggur nokkuð á sig við að ítreka þau. Þegar aðalsöguhetjan, Eva, flytur inn í íbúðina sem seinna meir verður fangelsi hennar er henni bent á að í þessu glerhýsi sé öryggið sett á oddinn og að hún geti meðal annars fylgst með anddyrinu í sjónvarpinu sínu. Kvikmyndir sem fjalla um alræði eftirlitsmyndavéla hafa verið nokkuð vinsælar allt frá tíunda áratugnum og ein þeirra, Sliver (1993), segir einmitt frá konu sem flytur ein í íbúð í nýju öryggis- og eftirlitsmyndavéla-væddu glerhýsi. Þegar Eva fer svo að fróa sér á stofugólfinu styrkist líkingin enn, en Sliver varð meðal annars fræg fyrir senu þarsem aðalpersónan, leikin af Sharon Stone, fróar sér í baði. Ofaná þetta bætist að í íbúðinni er kvikmyndaherbergi og Evu finnst stöðugt að hún sé að leika í bíómynd, nánar tiltekið hrollvekju. Þessi bíómyndainnskot eru svo ofhlaðin vísbendingum um það sem koma skal að aftur velti ég fyrir mér hvort hér væri viljandi verið að stæla stíl afþreyingarsagna, en hann einkennist einmitt af því að lesandinn er vandlega mataður á vísbendingum um það sem koma skal. Vanur lesandi er því strax á fyrstu síðunum búinn að uppgötva útá hvað plottið gengur og í 6. kafla birtist svo vísbendingin um hvernig sagan endar. Þá eru eftir þrír fjórðu hlutar bókarinnar.

Þær myndir sem Konur speglar hvað mest eru stundum nefndar einu nafni ‘hryllings-klám’ og hafa verið geysivinsælar undanfarin ár. Íslendingar ættu að þekkja kvikmyndina Hostel (2005), en þar lék Íslendingur aðalhlutverkið (þetta var þá, meðan Íslendingar þóttu ennþá svalir). Sú mynd gengur útá að auðmenn leika sér að því að veiða grunlausa ferðamenn og pynta þá til dauða. Svona svolítið eins og plottið í Konum gengur útá að frægur listamaður, með góðum stuðningi íslenskra bankamanna, býr til listaverk úr því að fanga konu í íbúð, beita hana kynferðislegu ofbeldi og þvinga hana almennt til undirgefni og niðurlægingar. Kynferðislegu kaflar sögunnar minna mig reyndar á klassískar klámbókmenntir eins og Söguna af O (1954), en þar er einmitt fjallað um hvernig kona er tamin til kynferðislegrar undirgefni.

Sumar af þessum kvikmyndum bera með sér pólitískan boðskap, til dæmis franska myndin Frontièr(s) (2007) sem er einskonar frönsk útgáfa af Texas Chainsaw Massacre (1974) og Psycho (1960) með pólitísku ívafi, en ungmennin sem þar eru tekin til fanga og pyntuð eru almennt af erlendum uppruna með tilheyrandi tilvísunum í það að þannig fer Frakkland með innflytjendur. Álíka pólitískan boðskap mætti lesa inní Konur, að sagan sé táknsaga sem lýsir því hvernig íslenskir braskarar fóru með íslensku þjóðina, sem gekk grunlaus í gildru glæsileika og glamúrs, bara til að verða fangi hennar, bakvið ‘speglandi’ glerið.

Ef svo er, þá er óhætt að segja að myndlíkingin er ekki beint nýstárleg. Það að gera konu að táknrænu fórnarlambi er einfaldlega of auðvelt og reyndar dálítið þreytandi að sjá enn á ný dæmi um hvernig listræn róttækni felst iðulega í því að niðurlægja konur á kynferðislegan hátt. Þetta er jú einmitt það sem listamaðurinn Novak gerir í verkum sínum og virðist gagnrýnt af söguhöfundi. Virðist segi ég, því þarna liggja einmitt vandamál þessarar skáldsögu. Er Konur pólitískt ádeiluverk? Og þá ádeila á hvað? Textinn og sagan sjálf eru svo illa unnin að það er ómögulegt að átta sig á hvort hér sé um að ræða fremur þreytt ‘exploitation’ verk, en ýmislegt, og þá sérstaklega hliðarplottið með grímur og það að geta horft með augum annarra persóna, gefur til kynna að meira eigi að búa undir. Úrvinnslan á þeim tilvísunum til kláms og hryllings-klámsins sem eru svo áberandi í verkinu er engan vegin nægileg, hér eru endurteknar klisjur án þess að unnið sé með þær og í heildina séð vakti lesturinn fyrst og fremst í mér þorsta eftir slíku efni: sem er svo dásamlega ferskt að því leyti að það gerir skammlaust útá kvalalosta ýmiskonar og leyndar nautnir áhorfenda.

Það er auðvelt að leita uppi allskonar tákn í Konum, eins og það að Eva hefur misst barn og að henni er svo fært annað í fangelsið (konan er misheppnuð ef hún á ekki barn), hið stöðuga pilluát sem skapar doða (Íslendingar gleyptu við glingri auðmannanna) og svo hlutverk listarinnar í þessu, en fram hefur komið gagnrýni á að listafólk og annað menningarlið hafi ekki staðið sig á verðinum.

Vandinn er að táknin eru of mörg, of fátt óvænt og úrlausnirnar of einhæfar. Eftir stendur skáldsaga sem er fyrst og fremst hvorki né, ekki vel heppnuð ‘exploitation’ afþreying, og ekki heldur ‘góð bók’.

Þess má svo geta hér í lokin að eftir að ég las bókina og fór að ræða óánægju mína við ýmsa hafa margir lýst yfir áhuga á að lesa hana, fólk sem hafði engan áhuga á verkinu eftir lofrullurnar var skyndilega ólmt í að lesa sögu sem mér fannst misheppnuð.

Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2009