Kopareggið (2019) eftir Sigrúnu Eldjárn er í senn ævintýri og framtíðardystópía. Bókin er sjálfstætt framhald Silfurlykilsins (2018) og fjallar að mestu leyti um sömu persónur. Bókin vísar í forna tíma sem hafa í einhverjum skilningi hafið innreið sína á ný eftir loftslagshamfarir og hrun hins tæknivædda samfélags nútímans. Fyllt er inn í vitneskju lesanda um fyrri bókina fyrir þá sem ekki hafa lesið hana og er því ekki nauðsynlegt að hafa lesið Silfurlykilinn til að geta notið Kopareggsins. Sigrún notar svipaða uppbyggingu í bókunum tveimur og báðar enda þær á því að leyndardómar og nýir möguleikar opnast fyrir sögupersónur og lesandi er skilinn eftir í lausu lofti. Kopareggið tekur upp þráðinn frá Silfurlyklinum og að sama skapi gefa endalok Kopareggsins til kynna að enn geti bæst í bókaflokkinn.
Í Silfurlyklinum kynnast lesendur systkinunum Sumarliða og Sóldísi og föður þeirra, auk kattarins Bröndu. Stúlkan Karítas slæst svo í hópinn eftir að hún velur fjölskylduna til að deila með leyndarmáli sínu, kjallara með bókasafni ömmu hennar. Þar endurheimtir fjölskyldan einnig móðurina, sem hafði verið týnd í þrjú ár. Í Koparegginu bætist nýr drengur við hópinn. Það er „litla kerlingin með rósótta skýluklútinn” (30), illvirki sem einnig kom fyrir í Silfurlyklinum, sem sendir drenginn til að njósna um söguhetjurnar. Sóldís kennir drengnum að lesa og gefur honum nafnið Máni en bæði lestur og myndlist eru áberandi stef í Koparegginu. Rauð vasabók sem söguhetjurnar finna tengir tíma þeirra við fortíðina, fortíð sem líkist tíma okkar lesendanna. Í vasabókinni finna þau skilaboð frá krökkunum Bjarti og Lísu sem upplifðu hrun samfélags síns.
Einsog áður sagði eru umhverfismál fyrirferðamikil í Koparegginu. Í upphafi bókarinnar er afturlit til tíma sem svipar til nútímans, allt þar til að í miðju símtali Bjarts við Lísu „[skellur] á algjör þögn í símanum hans” (5) út af fullkomnu rafmagnsleysi. Svo kemur í ljós að eldsneytisbirgðir eru einnig uppurnar og innviðir samfélagsins því lamaðir. Bjartur og Lísa ákveða í framhaldinu að safna saman ýmsum hlutum því „kannski verða í framtíðinni til einhverjir aðrir krakkar sem geta notað þá” (11). Það kemur í ljós að mengun, skógareldar og aðrar loftslagshamfarir eru rót vandans og þannig vísar bókin sterkt til þeirra áskorana sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Verkefni aðalpersóna Kopareggsins er því ærið. Einsog fyrri bókin gefur til kynna og ítrekað er í Koparegginu felst lykillinn að verkerfninu í lestri: „En þau eiga mikið verk fyrir höndum því þau ætla að hjálpast að við að lesa allar bækurnar sem hér eru. Í þeim er að finna fróðleik um allt milli himins og jarðar og með því að lesa þær geta þau kannski áttað sig á hvernig hægt er að bæta úr því sem hefur farið úrskeiðis í heiminum og laga allt sem hefur eyðilagst” (15). Leitin að koparegginu, sem er skúlptúr úr kopar, og þeim tækjum sem Bjartur og Lísa komu fyrir í því verður verkefni söguhetjanna í framtíðinni. Þar er fólk er aftur farið að hanna og byggja eitthvað af tækjum fortíðarinnar, einsog vatnsvirkjunin sem faðir systkinanna er að vinna í og reiðhjólið sem Sóldís vill láta hann smíða fyrir sig eftir teikningu. Sigrún notar tækniþekkingarleysi sögupersóna til að framandgera tæki sem við þekkjum vel í dag, gott dæmi um það er stuttur kafli um síma sem er í senn kynning á fornum munum, símum með sveif og trekt og skífusímunum, sem og framandgerving á snjallsímum sem íslensk ungmenni þekkja vel en Sumarliði á mjög erfitt með að ímynda sér.
Sterk höfundareinkenni Sigrúnar sjást í myndlýsingum sögunnar. Þar má nefna skófatnað söguhetjanna sem er af þeirri tegund sem lesendur þekkja vel úr fyrri bókum Sigrúnar, sem eru orðnar margar. Sigrún vísar í fyrri verk sín með þessum einkennisskófatnaði og aðrar tilvísanir í myndlýstar barnabókmenntir eru áberandi á köflum. Söguhetjurnar eru í þekkingarleit með lestri sínum á bókasafninu og vísað er í bækurnar um Múmínálfana eftir Tove Janson í gegnum Sóldísi, sem er yngst í hópnum, en hún gerir í fyrstu ekki greinamun á raunveruleika og skáldskap: „Það er auðvitað líf á Bláberi, manstu, stjörnunni þar sem Bétveir á heima á! Og svo er það litli prinsinn! Hann býr líka á annarri plánetu” (39). Þannig dregur Sigrún athygli að því að bókmenntirnar gefa okkur tækifæri til að spegla okkur í heimum sem virðast framandi en hafa sterka tilvísun í raunveruleikann. Sigrún notar myndir bókarinnar til að miðla merkingu og eru texti og myndir því jafn mikilvæg. Til dæmis er augljóst á myndunum að Máni er dekkri á hörund en hinar persónurnar og hann er einnig með dökkt hrokkið hár. Sá munur er ekki settur í orð fyrr en undir lok sögunnar þegar Máni hefur orðið fyrir eitraðri ör svo að „fallegi brúni hörundsliturinn er nú öskugrár” (211). Sigrún vísar einnig til eldri teikninga með myndlýsingum sínum, sérstaklega í formi áðurnefndrar persónu sem er jafnan kölluð „litla kerlingin með rósótta skýluklútinn” (30).
[[{"fid":"6461","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"kerlingin með skýluklútinn","field_file_image_title_text[is][0][value]":"kerlingin með skýluklútinn"},"type":"media","field_deltas":{"4":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"kerlingin með skýluklútinn","field_file_image_title_text[is][0][value]":"kerlingin með skýluklútinn"}},"attributes":{"alt":"kerlingin með skýluklútinn","title":"kerlingin með skýluklútinn","class":"media-element file-default","data-delta":"4"}}]]
Kerlingin atarna kallast óneitanlega á við þekkta teikningu af Grýlu þar sem hún ber einnig skýluklút þó að ekki séu greinanlega rósir á honum. Það er teikning Halldórs Péturssonar úr Vísnabókinni, sérstaklega í þeim útgáfum þar sem hófum Grýlu hefur verið skipt út fyrir skinnskó.
[[{"fid":"6460","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"grýla","field_file_image_title_text[is][0][value]":"grýla"},"type":"media","field_deltas":{"3":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"grýla","field_file_image_title_text[is][0][value]":"grýla"}},"attributes":{"alt":"grýla","title":"grýla","class":"media-element file-default","data-delta":"3"}}]]
En Sigrún hefur áður gert sína eigin útgáfu af hóffættri Grýlu við ljóðið „Grýla og Leppalúði” í Heimskringlu þeirra Þórarins Eldjárns.
[[{"fid":"6462","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"grýla og leppalúði","field_file_image_title_text[is][0][value]":"grýla og leppalúði"},"type":"media","field_deltas":{"5":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"grýla og leppalúði","field_file_image_title_text[is][0][value]":"grýla og leppalúði"}},"attributes":{"alt":"grýla og leppalúði","title":"grýla og leppalúði","class":"media-element file-default","data-delta":"5"}}]]
Kerlingunni með rósótta klútinn reynist vera viðbjargandi þrátt fyrir Grýlulíkindin því hún bjargar Mána frá eitruninni.
Kopareggið fylgir hefð myndskreyttra barnabóka þar sem foreldrarnir hafa lítið hlutverk í söguþræði og birtast sjaldan á myndum. Sigrún leikur sér með þessa hefð þar sem móðirin sést ekki á mynd meginþorra bókarinnar, frá blaðsíðu 50 til 225. Þegar hún birtist aftur er það þegar Sóldís gerir sér grein fyrir því að hún er ólétt, og hún er með greinilega óléttubumbu á myndinni. Nýtt upphaf er þema sem hamrað er ansi harkalega á undir lok sögunnar, fálkinn klekur út öðru eggi sínu, sem einnig prýðir forsíðu bókarinnar, kötturinn Branda gýtur þremur kettlingum og systkinin eiga von á viðbót í hópinn. Í lok bókar gefur Sigrún Eldjárn sögupersónum sínum tækifæri til að byrja upp á nýtt. Þá fær kerlingin að vera með í fjörinu og hin nýju afkvæmi benda til þess að enn sé von, og þannig skilur Sigrún Eldjárn lesandann eftir, í bili.
Elín Björk Jóhannsdóttir, nóvember 2019