Fyrsta bindið í bókaflokknum Íslendingar sem Sögur útgáfa gefur út. Birt undir dulnefninu T. Thorvaldsen.
Úr Kosningum:
Það var sjaldgæft að sjá svo mörg fræg andlit samankomin á Íslandi. Reyndar nægði að kveikja á sjónvarpinu á daginn og stilla á stöð eitt til að sjá þessi andlit, þetta fólk sem skemmti sér nú í Súlnasal Hótel Sögu, en stemningin var töluvert öðruvísi en á sjónvarpsskjánum. Nú mátti sjá Geir H. Haarde forsætisráðherra taka sveiflu á dangólfinu á meðan Spaðar sungu ,,Lífið er lotterí, Ingibjörgu Sólrúnu við barinn með mojito í hönd og fleiri alþingismenn bregða á leik með óvenjulegum hætti.
Súlnasalur hafði orðið fyrir valinu vegna lokahófs alþingismanna, en þetta var árviss viðburður, þótt mætingin væri yfirleitt í lakari kantinum. Núna létu hins vegar flestir sjá sig, enda kosningavetur og því nauðsynlegt að sýna lit og stilla sér upp fyrir ljósmyndara slúðurblaðanna. Ímynd almennings af formönnunum gat breyst í einni svipan. Atkvæði voru í húfi. Þess vegna kreistu jafnvel menn eins og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, fram bros í von um að það fleytti flokknum í ríkisstjórn enn eitt kjörtímabilið. Það hafði jú virkað fyrir Halldór Ásgrímsson fjórum árum fyrr, þótt brosið hans stæði rendar í mörgum enn þann dag í dag, líkt og atriði úr hrollvekju sem ómögulegt er að gleyma.
Langt var liðið á kvöldið og tóm glösin orðin ófá. Mikið var skeggrætt eins og alþingismanna er von og vísa, einkum meðal einstaklinga frá ólíkum flokkum. Þannig hafði Magnús Þór Hafsteinsson frá Frjálslyndum spjallað við Steingrím Joð um innflytjendur og endaði sú umræða með handalögmálum sem flokksbræðurnir þeirra leystu þó upp í tæka tíð. Kolbrúnu Halldórsdóttur þótti viðeigandi að ræða klámráðstefnuna sem næstum því var haldin á Hótel Sögu við Jón Magnússon sem sat henni á hægri hönd í kvöldmatnum, en uppskar einungis fúkyrði fyrir vikið. Og rökræða á milli ögn óþekktari alþingismanna, Harðar Grímssonar Sjálfstæðismanns og Agnesar Sverrisdóttur úr Framsóknarflokknum hafði leitt þau inn á karlaklósettið.
(5-6)