Árleg barna- og unglingabókaráðstefna
í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi
laugardaginn 15. mars kl. 10.30 – 13.30
Aðgangur ókeypis
Á ráðstefnunni er fjallað er um skemmtilegar leiðir til að kveikja áhuga barna á lestri. Lestrarvenjur ungra bókaorma, sköpun og lestur, hvers vegna barnabækur læðast meðfram veggjum og raunveruleikinn í bókaútgáfu eru umfjöllunarefni dagsins (sjá lýsingar einstakra erinda neðar).
Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir hefur verið fastur liður í dagskrá Gerðubergs frá árinu 1998. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við IBBY á Íslandi, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Rithöfundasamband Íslands, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, Félag fagfólks á skólasöfnum og Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða.
Eftirfarandi einstaklingar halda erindi á ráðstefnunni:
Herdís Anna Friðfinnsdóttir – leikskólakennari
Lestrarvenjur ungra bókaorma
Erindi Herdísar Önnu fjallar um rannsókn á Lestrarvenjum ungra bókaorma. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á því hvaða þættir það eru sem móta lestrarvenjur barna og hvað það er sem gerir börn að lestrarhestum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilsverðar vísbendingar um hvað gera þurfi til að efla lestraráhuga barna og unglinga almennt, bæði í skólakerfinu og á samfélagsvísu. Lesa má um rannsóknina (pdf-skjal)
hér.
Herdís Anna Friðfinnsdóttir er leikskólakennari að mennt og starfaði við það í 14 ár. Hún lauk meistaranámi í menntunarfræðum með áherslu á lestrarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2011. Herdís Anna hefur haft umsjón með barnastarfi Amtsbókasafnsins á Akureyri frá árinu 2011.
Davíð Stefánsson – bókmenntafræðingur og rithöfundur
Unglingurinn sem breytti heiminum: Um tvíhöfðann sköpun og lestur
Við sköpum þegar við lesum og við lesum þegar (og áður en) við sköpum. Því mynda lestur og sköpun eilífan tvíhöfða sem ekki verður aðskilinn og býr innra með öllum manneskjum, líka þeim sem þykjast alls ekkert geta skapað. Sköpunarferlið er okkur eðlislægt og innbyggt; það er sjálfvirkt í manneskjunni og lýtur eigin lögmálum.
Vissar vísbendingar eru uppi um dvínandi áhuga unglinga á íslensku og bókmenntum. Með því að tengja saman þennan meðfædda lestrarhæfileika og logandi sköpunarþrá unglinga er hægt að kveikja upp í áhuga þeirra á nýjan leik og senda nýjum kynslóðum þau skilaboð að þær búi yfir getunni til að breyta heiminum. Og ef þú trúir því að hægt sé að breyta heiminum með íslensku - þá langar þig að læra íslensku.
Davíð Stefánsson er bókmenntafræðingur, ljóðskáld og annar höfunda námsbókarinnar Kveikjur, en hún er fyrsta grunnbókin af þremur fyrir efsta stig grunnskóla og kom nýverið út á vegum Námsgagnastofnunar. Í Kveikjum er leitast við að uppfylla þær nýju áherslur sem er að finna í nýjum námskrám og lúta að framsögn, sköpun, ritun og lýðræðisvitund.
Yrsa Sigurðardóttir - rithöfundur
Hvers vegna læðast barnabækur meðfram veggjum?
Yrsa fjallar um reynslu sína af því að skrifa bækur fyrir börn og fullorðna. Hún ræðir um það sem skilur að skrifin sjálf og setur fram almennan samanburð á athyglinni sem bækurnar fá. Einnig mun hún ræða stuttlega um ólík samskipti höfundar við þessa tvo lesendahópa.
Yrsa Sigurðardóttir er rithöfundur og verkfræðingur. Hún hóf ferill sinn sem barnabókahöfundur með útgáfu bókarinnar “Þar lágu Danir í því“ árið 1998. Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin árið 2003 fyrir bókina „Bíóbörn“. Hún hefur skrifað fimm barnabækur og níu spennusögur fyrir fullorðna.
Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell - frá bókaútgáfunni Bókabeitunni
Af bleiku skýi í blákaldan veruleikann
Marta og Birgitta fjalla um þær áskoranir sem nýgræðingar í útgáfu unglingabóka standa frammi fyrir. Viðfangsefni þeirra eru til dæmis: Hvernig á að markaðssetja efni sem neytandinn kaupir ekki sjálfur? Hvernig sé hægt að gera lestur samkeppnishæfa tómstundaiðkun? Upplýsingar um Bókabeituna má nálgast á
www.bokabeitan.is .
Marta Hlín Magnadóttir (f. 1970) og Birgitta Elín Hassell (f. 1971) eru með M.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands. Þær eru starfandi rithöfundar, þýðendur, ritstjórar og starfsmenn á plani hjá Bókabeitunni.
Fundarstjóri: Ævar Þór Benediktsson leikari
Nánari upplýsingar veita:
Margrét Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Gerðubergi,
margret.valdimarsdottir@reykjavik.is, sími 5757715 / 8480683.