Borgarbókasafn, Listasafn, Ljósmyndasafn og Minjasafn Reykjavíkur bjóða upp á kvöldgöngur í sumar eins og undanfarin ár. Kvöldgöngurnar verða á fimmtudagskvöldum kl. 20 og er lagt upp frá Grófinni, milli Tryggvagötu 15 og 17, nema annað sé tekið fram. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis. Dagskrá sumarsins: GÁLGAGANGA, fimmtudag 14. júní kl. 20 Listasafn Reykjavíkur Jónatan Garðarsson, fjölmiðla- og fræðimaður, leiðir göngu að Kjarvalsreitnum í Gálgahrauni í tengslum við sýninguna Gálgaklettur og órar sjónskynsins sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum. Lagt er upp frá bílaplaninu við Hraunsvík nærri Sjálands- og Ásahverfum kl. 20. Boðið er upp á rútuferð frá Grófarhúsi kl. 19.30. HORFÐU TIL HIMINS, fimmtudag 21. júní kl. 20 Minjasafn Reykjavíkur Í þessari göngu verður horft til himins og athygli göngumanna vakin á skrautlegum húsum miðborgarinnar. Gönguna leiðir Helga Maureen Gylfadóttir sagnfræðingur. Lagt er upp frá Grófarhúsi. REYKJAVÍKURHÖFN, fimmtudag 28. júní kl. 20 Ljósmyndasafn Reykjavíkur Ljósmyndaganga um gömlu höfnina í fylgd með starfsmönnum Ljósmyndasafnsins. Þróunarsaga hafnarinnar verður rakin með hjálp gamalla ljósmynda. Gönguna leiðir Gísli Helgason. Lagt er upp frá Grófarhúsi. REYKJAVÍK SAFARÍ, fimmtudag 5. júlí kl. 20 Fjölmenningarleg kvöldganga í boði allra safnanna Menningarlífið í miðborginni er kynnt á spænsku, pólsku, ensku, litháísku og tælensku. Hvar eru leikhúsin, listasöfnin og aðrir skemmtilegir staðir? Hvað er í boði fyrir börn, fullorðna og fjölskyldur? Lagt er upp frá Grófarhúsi. FYRIR OFAN GARÐ OG NEÐAN, fimmtudag 12. júlí kl. 20 Borgarbókasafn Reykjavíkur Gengið verður um gróna reiti í miðbæ Reykjavíkur og dregnar fram bókmenntir sem þangað sækja rætur. Lagt er upp frá Grófarhúsi. „SJÁLFSTÆTT FÓLK“, fimmtudag 19. júlí kl. 20 Listasafn Reykjavíkur Listasafn Reykjavíkur í samvinnu við Nýlistasafnið leiðir göngu um sögu listamannarekinna rýma í Reykjavík. Lagt er upp frá Grófarhúsi. SKÚLI MAGNÚSSON OG INNRÉTTINGARNAR, fimmtudag 26. júlí kl. 20 Minjasafn Reykjavíkur Í þessari göngu verður rætt um starfsemi Innréttinganna og hugmyndir Skúla Magnússonar um allsherjarumbætur. Bergsveinn Þórsson safnafræðingur leiðir gönguna. Lagt er upp frá Grófarhúsi. NEÐAN-JARÐAR, fimmtudag 2. ágúst kl. 20 Borgarbókasafn Reykjavíkur Borgarbókasafn beinir augum niður á við og rannsakar neðanjarðarstarfsemi í skáldskap, sögu og sagnagerð. Gönguna leiðir skáldkonan Didda. Lagt er upp frá Grófarhúsi. LJÓSMYNDAGANGA UM LAUGARDAL, fimmtudag 9. ágúst kl. 20 Ljósmyndasafn Reykjavíkur Gangan er í samstarfi við Grasagarðinn og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Rifjaðar verða upp minningar og sögur af fólki húsakosti, ræktun og búskap fyrri tíma. Gönguna leiðir Þorgrímur Gestsson, blaðamaður og höfundur bókarinnar Mannlíf við Sund. Gangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins. HÍ101, fimmtudag 16. ágúst kl. 20 Í boði allra safnanna Menningarstofnanir Reykjavíkur standa fyrir sameiginlegri kvöldgöngu þar sem fjallað verður um helstu mennta- og menningarstofnun Reykjavíkur og landsins alls: Háskóla Íslands. Lagt upp frá Grófarhúsi. Við vekjum einnig athygli á því að frá 5. júní til 28. ágúst eru þriðjudagsgöngur í Viðey. Sjá nánar á vef Viðeyjar.
Kvöldgöngur í sumar
