Land hinna týndu sokka er þriðja barnabókin sem Gerður Kristný skrifar en hún er þekktust fyrir skáldsögur sínar, smásögur og ljóð fyrir fullorðna, auk ævisögu Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba sem út kom í fyrra. Gerður fer þarna aðra leið en ýmsir aðrir höfundar sem hafa byrjað feril sinn sem barnabókahöfundar en fara síðan að skrifa fyrir fullorðna. Má þar nefna Kristínu Steinsdóttur sem nýverið gaf út sína aðra skáldsögu fyrir fullorðna en er löngu landsþekkt fyrir barnabækur sínar. Það er alltaf gaman að sjá góða höfunda skrifa fyrir alla aldurshópa og binda sig ekki við eitt form bókmenntanna. Í Landi hinna týndu sokka segir frá Þorgeiri sem er átta ára, mömmu hans, ömmu og stóra bróður og síðast en ekki síst tuskuapanum hans, sem heitir einfaldlega Api. Api er besti vinur Þorgeirs og eins og í öllum góðum sögum eru þess háttar apar engir venjulegir apar heldur geta þeir talað og gefið vinum sínum góð ráð þegar á þarf að halda. Þorgeir er kátur strákur en hann langar mikið til að eignast hund. Mamma hans átti hins vegar hundinn Ársæl þegar hún var barn en hann týndist og síðan hefur hún aldrei viljað fá neinn annan því hún saknar enn gamla hundsins síns.
Eina nóttina dettur Api upp fyrir ofninn í herbergi Þorgeirs og lendir þá í Landi hinna týndu sokka þar sem allt sem týnist á sér heimili. Þar eru ekki bara föt og aðrir hlutir, heldur líka gæludýr og annað sem hefur týnst og ekki ratað til baka. Landið heitir hins vegar eftir sokkunum sem eru í miklum meirihluta íbúa þessa ævintýralands. Þegar Api kemst til baka með fréttir af týnda hundinum Ársæli fer ýmislegt að gerast hjá Þorgeiri og fjölskyldu hans. Lesendur sjá atburðina með augum Þorgeirs sem, þegar sögunni líkur hefur þroskast talsvert, enda alveg að verða níu ára. Sjónarhornið fylgir þó Apa á ferðum hans í landi sokkanna.
Það eru ekki margar persónur í sögunni en þær eru skýrar og skemmtilegar og hefur hver sín sterku einkenni. Amma með armböndin sín, mamma sem sér enn eftir hundinum sínum, Ísak stóri bróðir, sem er svo duglegur í íþróttum og svo aðalpersónurnar, Þorgeir og Api. Týndi hundurinn Ársæll leikur einnig stórt hlutverk í sögunni.
Sagan er skemmtilega skrifuð, í textanum eru sniðugir orðaleikir og titillinn vísar til þess sem allir þekkja, þ.e. að týna öðrum sokknum sínum. Bókin sjálf er líka falleg og vel uppsett og þar eiga myndir Þóreyjar stóran hlut. Það er til dæmis sniðugt hvernig apaskottin ganga í gegnum bókina, fyrst á forsíðunni og síðan við kaflaheitin, akkúrat eins og lesendur vilja hafa það. Kaflarnir eru hæfilega langir og stafirnir passlega stórir sem á sinn þátt í því að gera Land hinna týndu sokka að óskabók þeirra sem eru nýbúnir að læra að lesa og vilja sögu sem þeir geta lesið sjálfir – þó það sé líka alltaf gaman að láta lesa fyrir sig.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2006