Um bókina:
Ísland var land tækifæranna í augum Mareks Pawlak. Hér ætlaði hann að hefja nýtt líf ásamt unnustu sinni og bróður, réttu megin laganna og laus við alla fortíðardrauga. Hann fór að vinna í byggingabransanum – en sá svo ný tækifæri sem hann gat ekki með góðri samvisku látið ónotuð.
Líkt og Marek var Daníel Marteinsson í byggingabransanum, þótt á öðrum forsendum væri. Á undraskömmum tíma varð hann einn ríkasti maður landsins, svellkaldur útrásarvíkingur sem baðaði sig í kastljósi fjölmiðla og aðdáun almennings jafnt sem ráðamanna.
Haustið 2008 reynist örlagaríkt. Andrzej, bróðir Mareks, finnst myrtur og stórkostleg spilaborg Daníels og útrásarvina hans hrynur, með skelfilegum afleiðingum fyrir alla íslensku þjóðina. Þegar illa útleikið lík Daníels finnst í hálfkláruðu risaeinbýlishúsinu sem hann var að reisa, í stað þeirra sem hann lét rífa, reynist því enginn skortur á grunuðum ...
Rannsóknarlöggurnar Katrín, Guðni, Árni og Stefán finna fljótlega tengsl á milli þessara gjörólíku manna – en hvort þau skipta einhverju máli er svo allt annar handleggur.
Úr Landi tækifæranna:
Guðni renndi voldugum Bensinum inná milli mannhæðarhárra staflanna af bílhræjum sem vörðuðu malarborna innkeyrsluna. Kellingar, hugsaði hann, sjá ekki aðalatriðin fyrir aukaatriðunum. Týpískt. Sprúttsali og bruggari fannst dauður í bruggverksmiðju sem búið var að ræna.Þeir sem ræna bruggverksmiðju eru sjálfir bruggarar eða vilja vera það. Þarafleiðandi var bruggarinn drepinn af öðrum bruggara. Tveir plús tveir voru ennþá fjórir síðast þegar hann tékkaði á því.
Hann drap á bílnum. Óskar Marinósson, Skari Mar, var bruggari af gamla skólanum. Guðni hafði sjálfur keypt af honum ófáa lítrana á menntaskólaárunum, í kreppunni eftir síldarhrunið. Sú kreppa var gullöld Skara og kollega hans. Hann hafði napað kallinn fyrir brugg í miðri olíukreppunni nokrum árum síðar, daginn eftir fullnaðarsigurinn á helvítis tjallanum. Og nappað hann aftur í miðju verðbólgubálinu, rétt fyrir myntbreytingu. Those were the days, hugsaði Guðni og brosti dauft í rökkrinu. Those were the days...
Þá hafði hann ennþá þurft að sanna sig, enn þurft að nýta hvert tækifæri sem gafst til að negla einhvern og koma sjálfum sér áfram. Sá tími var liðinn, það vissi hann alltof vel. Hann kæmist aldrei lengra en hann var þegar kominn úr þessu. En það var svosem alltílagi hans vegna, hann hafði það fínt. Og þessvegna hafði hann látið kallinn alveg í friði síðustu tuttugu árin, fyrir utan þetta eina skpti þegar hann neyddist til að þjarma aðeins að honum útaf máli sem hafði ekkert með brugg að gera. Síðan voru liðin hvað, fjögur ár? Fimm? Hann mundi það ekki. Og nú var karlinn búinn að loka verkstæðinu og opna partasölu í Hafnarfirði í staðinn. Í fimm mínútna akstursfjarlægð frá morðstaðnum.
Guðni gretti sig og steig út. Flúorljósið inní partasölunni varpaði bláum bjarma á svartan hraunmulninginn sem marraði undir fótum hans. Vægan smurolíukeim lagði af bílhræjunum. Hann andaði djúpt og naut ilmsins eitt andartak, svo gekk hann inn án þess að banka.
,,Long tæm nó sí, sagði hannbrosandi þegar Skari kom hikandi á móti honum, þurrandi gamlar, rýrar lúkurnar í tvistvöndul. Skari brosti ekki á móti.
,,Hvað vilt þú?
,,Hey, hverslags móttökur eru þetta? Maður kemur í kurteisisheimsókn og fær bara einhver leiðindi? Guðni dró upp vindlapakkann og otaði að Skara, sem hristi gráan hausinn.
,,Ég er hættur. Hjartað, skiluru. Fór í þræðingu í fyrra. Líka hittifyrra. Ekki að það komi þér við. Hvað viltu?
,,Kaffi, sagði Guðni. ,,Ég vil kaffi. Ekki segja mér að þú sért líka hættur að drekka kaffi?
(72-4)