Beint í efni

Laura og Julio

Laura og Julio
Höfundur
Juan José Millás
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Nú vil ég biðja lesendur um að fara á þessa slóð: http://www.dailymotion.com/video/x12spb_talking-heads-once-in-a-lifetime_music, og hlusta þar á hljómsveitina Talking Heads flytja lagið „Once in a Lifetime“ frá árinu 1980. Texti þessa lags segir sumpart það sem segja þarf um skáldsöguna Laura og Julio eftir spænska höfundinn Juan José Millás, og segir reyndar sumpart söguna sjálfa.

Allir tilbúnir?

Sagan byrjar ekki vel. Hvorki hvað varðar atburði (hún byrjar á tilkynningu um alvarlegt slys) né sem forvitnileg saga. Um stund var ég á báðum áttum um hvort ég ætti að nenna að lesa enn eina skáldsöguna um innantómt hjónaband uppa, sem eru alveg jafn óspennandi á Spáni og þeir eru hér heima á Fróni. En einhverjir undirtónar fengu mig þó til að þrjóskast við og það reyndist alveg þess virði. Ekki svo að skilja að hér sé eitthvað ódauðlegt meistaraverk á ferðinni - eins og áður segir er vel hægt að summa bókina upp í einum sönglagatexta - en hinsvegar eru tök höfundar á viðfangsefninu þannig að það er ekki annað hægt en að gleðjast, fyllast ofurlitlum hryllingi jafnvel og á stundum brosa breitt. Kannski of breitt, því hinn spánski höfundur er svo snjall í því að líma saman sögu sína um lífið sem gervilíf - eða er það gervilífið sem er líf? - að lesanda gæti fundist að verið væri að mata hann. En kannski er það einmitt málið.

Eins og titillinn gefur til kynna segir sagan frá þeim hjónakornunum Lauru og Julio. Þau eru gift og virðast hafa það ágætt þrátt fyrir að vera ekkert alveg að rifna úr hamingju. Þegar vinur þeirra, Manuel, verður fyrir slysi og liggur í dái (fyrsta tákn), leggst hjónaband þeirra einnig í einskonar dá. Þó lifnar það við um stund þegar Laura tilkynnir Julio að hún eigi von á barni, en dettur svo alveg í sundur þegar hún tekur fréttina til baka, segir þetta hafa verið ‘snuð’. Þegar hér er komið sögu hefur ýmislegt fleira afar táknrænt gerst. Julio, til dæmis, starfar sem leikmyndahönnuður fyrir kvikmyndir og hefur því það starf að búa til gerviheima sem eiga að endurspegla hugarástand persóna og andrúmsloft kvikmyndarinnar. Í þeirri kvikmynd sem hann er að vinna við þegar Manuel verður fyrir slysinu segir einmitt frá gamalli konu sem verður fyrir áfalli og liggur lengi meðvitundarlaus. Leikmyndahönnunin tekur síðan á sig enn frekari veruleikatengingu þegar Julio bíður á biðstofu kvensjúkdómalæknisins og uppgötvar að bækurnar í bókahillunni eru plat, leikmynd. Tilkynning Lauru um að ófrískan sé fölsk kemur því í beinu framhaldi af vangaveltum um muninn á því sem er ekta og ekki. Á sama tíma hefur Julio fengið lykla að íbúð Manuels en heldur því leyndu fyrir konu sinni og nýtur þess að læðast um íbúðina, sem er spegilmynd íbúðar þeirra hjóna, og lifa þar einskonar hliðarlífi.

Og svona heldur þetta áfram, Laura segist vilja skilnað og Julio flytur alfarið inní íbúðina við hliðina á, bara til að uppgötva að Laura og Manuel hafa átti í langvarandi ástarsambandi. Julio vingast við dóttur stjúpsystur sinnar, sem starfar sem gleðikona (stjúpsystirin, ekki dóttirin) og passar hana stundum og segir henni sögur af skuggaheimi, en þar hafa skuggarnir náð völdum, svona ekki ólíkt og í ævintýri H.C. Andersens.

„Once in a Lifetime“ er reyndar ekki eina lag Talking Heads sem fjallar um tilveruna sem gerviheim og gerviheiminn sem tilveru, „Life During Wartime“ inniheldur svipað tema og sömuleiðis „Road to Nowhere“, og einnig mætti nefna „Cities“ og öll þessi lög hljómuðu í eyrum mér þegar ég las þessa áhrifamiklu litlu skáldsögu. Því þrátt fyrir að viðfangsefnið sé kunnuglegt og vandlega lagt á borð fyrir lesanda þá er eitthvað í tökum höfundarins sem gerir þetta ferskt og heillandi. Kannski er það vegna þess að skilin milli veruleika og leikmyndar hafa sjaldan verið óljósari (eða veruleikinn fáránlegri) en kannski er það einfaldlega vegna þess hversu vel sagan er sögð, með sínum ákaflega óáhugaverðu persónum (Julio er sérdeilis leiðinlegur og Laura greinilega óþolandi) en nákvæmu innviðum. Þeir eru teiknaðir upp af sömu nákvæmni og Julio notar við leikmyndamódel sín, fyrir utan það að Julio sleppir litlu fígúrunum sem skapa aulahroll með viðskiptavinum hans, en Millás lætur þær vera með, busalegar á vappi um ganga íbúða sem eru þeim hálfpartinn framandi: „And you may ask yourself - well...how did I get here?“

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2009