Flaggermusmannen eftir Jo Nesbø, í íslenskri þýðingu Ævars Arnar.
Um bókina:
Lík norskrar konu finnst undir sjávarhömrum í Ástralíu og allt bendir til þess að hún hafi verið myrt. Norsk yfirvöld senda ungan lögreglumann þvert yfir hnöttinn til að vera lögreglunni í Sydney innan handar við rannsókn málsins. Sá heitir Harry Hole. Hann velst ekki til fararinnar vegna þess að hann sé svo hátt skrifaður á heimaslóðum, heldur glímir hann þvert á móti við áfengisvanda og hefur nýlega orðið valdur að hræðilegu slysi í starfi. Hann á að láta sig hverfa um stund, fylgjast með, gera eins og honum er sagt. En Harry er það síður en svo eiginlegt að halda sig á hliðarlínunni og fyrr en varir á morðrannsóknin hug hans allan. Sem og Birgitta, vinkona hinnar látnu.
Úr Leðurblökunni:
Sólin bakaði bíl og menn þegar þeir óku eftir Kyrrahafshraðbrautinni og vel glerjuð háhýsin í Brisbane loguðu líkt og kristallar í ljósakrónu þegar þeir nálguðust borgina.
„Fallegt,“ sagði Harry. „Voða fínt og snyrtilegt einhvern veginn. Eins og einhver hafi teiknað þetta upp fyrst og svo hafi þeir byggt það allt á einu bretti.“
„Það er ekki fjarri sanni. Brisbane er að mörgu leyti splunkuný borg, það eru ekki mörg ár síðan þetta var bara þéttbýlt sveitahérað með nokkur hundruð þúsund bændum. Ef þú horfir í kringum þig sérðu að fólk er ennþá hálf hjólbeinótt hérna. En borgin er eins og nýmóðins eldhúsinnrétting á sveitabæ: Glansandi, ferköntuð og praktísk – og heilu hjarðirnar af jórtrandi kúm allt um kring.“
„Þetta var ægilega fín myndlíking hjá þér, Andrew.“
„Vertu ekki að ybba gogg, offsider.“
Þeir beygðu til austurs af hraðbrautinni, inn í iðjagrænt landslag þar sem blómlegur skógur og vel sprottnir akrar skiptust á.
„Velkominn í áströlsku sveitina,“ sagði Andrew.
Þeir óku framhjá kúm á beit, sem störðu sljóar á þá.
Það kumraði í Harry.
„Hvað er?“ spurði Andrew.
„Hefurðu séð Larson-skrípamyndina, þar sem kýrnar standa á afturfótunum úti á túni, tala saman og fá sér að reykja og ein þeirra kallar „Passið ykkur, það er að koma annar bíll.“
Það varð stutt þögn.
„Hver er Larson?“
„Gleymdu því.“
Þeir fóru framhjá lágreistum timburhúsum og með verönd að framanverðu, flugnaneti í útidyrunum og pallbílum á hlaðinu. Óku framhjá rassbreiðum vinnuklárum sem horfðu á þá sorgmæddum augum, býflugnakistum og bústnum grísum sem veltu sér alsælir í leðjunni í stíum sínum. Vegirnir urðu æ mjórri. Um hádegisbil tóku eir bensín í litlu þorpi sem samkvæmt skilti við bæjarmörkin hét Uki og hafði verið útnefnt hreinasti bær Ástralíu tvö ár í röð. Ekki kom fram hvaða bær var núverandi handhafi þess titils.
(68-9)