Beint í efni

Leiðindaskjóða mætt til leiks

Ný jólavættur hefur verið kynnt til sögunnar í Jólaborginni Reykjavík. Leiðindaskjóða heitir hún, þrátt fyrir að vera allt annað en leiðinleg. Borgarstjóri tók á móti nýju jólavættinni í Listasafni Reykjavíkur, þar sem hún mun halda sig næstu vikurnar, og ákváð hann að leggja öllum leiðindum í desember henni til heiðurs. Nýja jólavætturin byggir á þjóðsögum Jóns Árnasonar og nafnaþulum um börn Grýlu. Leiðindaskjóða er ein af dætrum Grýlu og Bola sem var giftur Grýlu um tíma. Leiðindaskjóða þekkist á gríðarstórri skjóðu sem hún dröslar með sér og safnar í leiðindum, veseni og amstri sem safnast á meðal landsmanna, tekur með sér upp til fjalla og eyðir á viðeigandi hátt. Jólavættir Reykjavíkurborgar eru nú orðnar ellefu talsins og var Leiðindaskjóðu  hefur verið vel tekið af öðrum fjölskyldumeðlimum, eða þeim Grýlu, Leppalúða, Jólakettinum, Rauðhöfða og jólasveinunum. Jólavættirnar sem Gunnar Karlsson myndlistarmaður hefur teiknað byggja á hugmynd Hafsteins Júlíussonar um að tengja Jólaborgina Reykjavík við íslenska sagnahefð. Jólavættirnar birtast nú ein af annarri á húsveggjum  víðsvegar um borgina þar sem þeim verður hampað. Samfara því fer af stað spennandi ratleikur „Leitin að jólavættunum“  sem byggist á að finna vættirnar og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þær. Hægt er að nálgast ratleikinn á Höfuðborgarstofu, á söfnum borgarinnar, í  verslunum í miðbænum og á vef Jólaborgarinnar.  Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum. Hægt er að sjá allar jólavættirnar á einum stað í Listasafni Reykjavíkur-Hafnarhúsi. Jólaborgin Reykjavík hefur sjaldan verið eins spennandi, skrautleg, skemmtileg og full af viðburðum og í ár. Jólaborgin er afrakstur sameiginlegs átaks Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila á höfuðborgarsvæðinu um að auka enn frekar jólastemninguna í borginni í desember. [gallery link="file" ids="7393,7392,7391,7390,7389"]