Í október verður haldin fyrsta Lestrarhátíðin í Bókmenntaborginni Reykjavík.
Fyrirmyndin er fengin frá systurborgum Reykjavíkur, bókmenntaborgunum Dublin og Edinborg, þar sem tekið er fyrir bókmenntaverk nátengt sögu borgarinnar undir yfirskriftinni „One City, One Book“.
Lestrarhátíðin fer þannig fram að borgarbúar á öllum aldri sameinast um að njóta þess að lesa eina tiltekna bók, ræða hana, uppgötva og vinna með útfrá öllum mögulegum sjónarhornum. Í mánuðinum verða allir þeir þættir sem gera Reykjavík að bókmenntaborg virkjaðir: skólar, bókasöfn, bókaútgefendur, rithöfundar og lesendur.
Lestrarhátíðin er eitt af lykilverkefnum Bókmenntaborgarinnar Reykjavík og til stendur að hún verði að árlegum viðburði. Í október verður orðið frjálst í Bókmenntaborginni og býðst borgarbúum á öllum aldri að taka þátt með ýmsum hætti á heimasíðu Lestrarhátíðar.
Vögguvísa í brennidepli 2012
Nóvellan
Vögguvísa eftir Elías Mar verður í brennidepli á þessari fyrstu Lestrarhátið Bókmenntaborgar en þessi skemmtilega saga frá Reykjavík eftirstríðsáranna er gjarnan sögð vera ein fyrsta Reykjavíkursagan. Bókin kom fyrst út árið 1950 en hefur nú verið endurútgefin af bókaforlaginu Lestofunni. Verkið hefur þá sérstæðu í íslenskri bókmenntasögu að í því er lífi reykvískra utangarðsunglinga í fyrsta sinn lýst í skáldverki, þar sem tónlist, tíska, kvikmyndir og tungumál æskufólks hinnar ungu borgar er alltumlykjandi.
Verkið birtir hulinn veruleika Reykjavíkur eftirstríðsáranna og fangar tíðarandann með einstökum hætti. Elías Mar lagðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu á tungutaki reykvískra unglinga og safnaði saman helstu slanguryrðum og orðasamböndum úr máli þeirra. Í nýrri útgáfu bókarinnar gefur að líta orðasafnið í fyrsta sinn í heilu lagi.
Fjölbreytt dagskrá
Hátíðin verður sett þann 1. október og í kjölfarið verður boðið til lifandi dagskrár helgaðri nóvellu Elíasar út allan mánuðinn.
Boðið verður upp á sögu- og bókmenntagöngur um slóðir
Vögguvísu og annarra verka Elíasar undir leiðsögn Hjálmars Sveinssonar, sem er sérfróður um höfundinn og bækur hans.
Reykvískir grínistar verða af tilefni hátíðarinnar einnig virkjaðir, en fjórir uppistandarar, þau Anna Svava Knútsdóttir, Bergur Ebbi, Dóri DNA og Saga Garðarsdóttir, munu koma fram í myndskeiðum þar sem spunnið er út frá slangurorðasafni Elíasar. Enn fremur mun myndasagnahöfundurinn Hugleikur Dagsson leggja penna á blað og teikna nýja einrömmunga, innblásna af unglingaslangri
Vögguvísu.
Um leið verður öllum borgarbúum frjálst að senda inn sitt eigið slangur, sem safnast saman í nýtt safn á heimasíðu hátíðarinnar, en þar mun einnig standa til boða að taka þátt í leshring um
Vögguvísu.
Undir lok mánaðarins verður svo blásið til málþings í samstarfi við Lesstofuna og Bókmenntafræðistofnun HÍ um
Vögguvísu og Elías Mar.
Viðburðadagskráin mun verða aðgengileg í heild sinni hér á heimasíðu Bókmenntaborgar og
Lestrarhátíðar.
Samstarf við skóla
Vögguvísa verður nýtt til kennslu við unglingadeildir nokkurra reykvískra grunnskóla og munu framhaldsskólanemar standa fyrir lestrarmaraþoni á bókasöfnum borgarinnar.
Þrátt fyrir að bókin sjálf sé skrifuð með unglinga og fullorðna í huga þá munu yngri borgarbúar einnig geta tekið þátt. Í tilefni hátíðarinnar munu leikskólar vinna með vögguvísur með ólíkum hætti og Pollapönkararnir, leikskólakennararnir Halli og Heiðar, semja nýja vögguvísu sem verður gefin leikskólum borgarinnar.
Orðið er frjálst
Lestrarhátíð Bókmenntaborgarinnar Reykjavík er grasrótarhátíð þar sem allir þeir sem vilja bjóða upp á viðburði og dagskrá sem tengist þemanu hverju sinni geta tekið þátt. Í október verður bókalestur í fyrirrúmi og eru borgarbúar á öllum aldri hvattir til að taka þátt.