Októbermánuður var helgaður bókinni Vögguvísu, eftir Elías Mar, á fyrstu Lestrarhátíð Bókmenntaborgar. Dagskrá hátíðarinnar var þó ekki að öllu leyti bundin við skáldsögu Elíasar. Fleiri bækur voru vitanlega lesnar af borgarbúum í mánuðinum og í tilefni hátíðarinnar var efnt til lestrarmaraþons framhaldsskólanema í söfnum Borgarbókasafns. Textarnir sem lesnir voru upp náðu yfir vítt svið, allt frá matreiðslubókum til stjórnmálalegra stefnuyfirlýsinga, og voru þeir valdir af nemendum sjálfum, í samráði við kennara eða starfsmenn Borgarbókasafns. Yfir tvö hundruð nemendur Borgarholtsskóla, Fjölbrautarskólans í Ármúla, Fjölbrautarskólans í Breiðholti, Menntaskólans við Sund og Menntaskólans í Reykjavík mættu í söfnin og lásu upp í tólf tíma samtals. Meðal þess sem lesið var upp úr var skáldsagan Fótspor á himnum, Kommúnistaávarpið, Hobbitinn, Ýmislegt um risafurur og tímann, örsögur eftir Elísabetu Jökulsdóttur og Kristínu Ómarsdóttur, Eftirréttabók Hagkaupa, Max fer á leikskóla og svo mætti áfram telja. Eins og myndskeiðið hér sýnir stóðu nemendurnir sig vel og voru vafalítið vel undirbúnir fyrir andleg átök maraþonsins. Lesturinn byrjaði í Foldasafni kl. 9, hélt svo áfram í Sólheimasafni kl. 11 og svo koll af kolli og endaði loks í aðalsafni kl.