lestrarhvatning á degi bókarinnar og útgáfa ljóðabókarinnar Ljóð unga fólksins
Í tilefni af Degi bókarinnar 23. apríl gáfu Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Félag íslenskra bókaútgefanda, Borgarbókasafn og Barnabókasetur út bæklinginn Lestur er lykill.
Markmiðið með bæklingnum er að hvetja uppalendur til að lesa fyrir börn á öllum aldri og benda á hversu mikið lykilatriði það er fyrir þroska og framtíð barna. Honum verður dreift á öll heimili í landinu þann 30. apríl. Foreldrar, ömmur og afar, aðrir forráðamenn og jafnvel eldri systkini ættu því að líta vel í póstkassann þennan dag.
Lestur er lykill er ætlað að minna uppalendur á mikilvægi þess að lesa fyrir börn og eins lesa með börnum eftir því sem þau eldast. Í bæklingnum er farið yfir á aðgengilegan hátt hversvegna lestur er mikilvægur, hvernig bækur börn vilja lesa eftir ólíkum aldri þeirra og hvernig best er að gera lestur að ánægulegri stund fyrir fjölskylduna.
Þýðing þess að lesa fyrir börn verður seint ofmetin því gott lestraruppeldi fylgir barninu alla ævi og eykur færni þess í námi, starfi og í samskiptum við annað fólk.
Á forsíðu bæklingsins trónir skáldfákurinn Sleipnir sem stendur að ýmsum lestrarhvetjandi viðburðum fyrir yngri kynslóðirnar á vegum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Sleipnir er gæddur þeim töfrum að geta flogið á milli heima og er því táknmynd ferðalagsins og hugarflugsins sem bóklestur býður okkur upp á.
Ljóð unga fólksins
Við sama tækifæri var bókin Ljóð unga fólksins gefin út. Í henni er úrval ljóða frá börnum sem tóku þátt í samkeppninni Ljóð unga fólksins 2013. Bókasafn Kópavogs og skólasöfnin í Kópavogi hafa haft veg og vanda af útgáfu bókarinnar að þessu sinni. Veittar verða viðurkenningar fyrir sex bestu ljóðin.
Þöll, samstarfshópur um barna- og unglingamenningu á bókasöfnum, hratt samkeppninni af stað vorið 1998, þá sem ljóða- og smásagnakeppni. Ári síðar var ákveðið að hafa einungis ljóðasamkeppni og hlaut hún þá nafnið „Ljóð unga fólksins”. Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna hafa nú tekið við keflinu og er þetta í sjöunda sinn sem keppnin er haldin.
Dagskráin var hluti af Barnamennningarhátíð í Reykjavík 2013.