Ég var í afmæli um helgina og gestgjafinn kvaðst hafa heyrt um nýja ljóðabók sem hefði unnið til verðlauna: „Mig langar til að lesa hana.” Ég lofaði auðvitað að lána bókina og þarf nú að skrifa þennan ritdóm í hasti, til að svekkja ekki afmælisbarnið.
Leyndarmál annarra er fyrsta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur. Þórdís er vel þekkt sem bloggari og bókmenntarýnir, en í félagi við nokkra aðra heldur hún úti vefnum Druslubækur og doðrantar. Blogg Þórdísar er dæmi um það besta sem gerist í slíkum skrifum, fullt af forvitnilegum vangaveltum og athugasemdum í bland við snarpa samfélagsrýni sem iðulega er sett fram á kíminn og sakleysislegan hátt. Staða konunnar er Þórdísi nokkurt áhugaefni og því er auðvelt að flokka hana með femínistum. Í bókmenntarýni Þórdísar birtast sömu einkenni, snerpa og skerpa í bland við hlýjan og beittan húmor. Fyrir utan þessi þjóðþrifaverk hefur Þórdís sinnt ýmsum störfum á sviði bókmennta og menningar og er nú ritstjóri tímaritsins Börn og menning. Hún er því kona með reynslu og það sýnir sig í ljóðunum sem bera greinileg merki annarra ritstarfa hennar. Bókin er ekki mikil um sig, inniheldur 22 ljóð, eða réttara sagt 20 ljóð og 2 örleikrit. Þó er hér af nógu að taka og Þórdís tekur fyrir ýmis kunnugleg þemu íslenskrar nútímaljóðlistar - hún kveðst á við önnur skáld, veltir fyrir sér stöðu rithöfunda og ferðast athugul um miðbæinn. Þó skyldi enginn halda að hér séu einhverjar tuggur á ferðinni, skáldkonan hefur verið að móta sína eigin sýn í rólegheitum og hefur fullkomin tök á að koma henni til skila. Þetta er reyndar einkenni þeirra ljóðabóka sem unnið hafa til ljóðaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, þar eru á ferðinni fullorðin skáld, sem sum hver bjóða lesendum að gæða sér á sínum fyrstu formlegu skrifum. Það sem oft er kallað ‘rödd’ skáldsins er því orðin nokkuð sterkt mótuð og nálgunin fumlaus og örugg en jafnframt fersk. Ég myndi vilja leyfa mér að nota gamla tuggu og lýsa ljóðunum þannig að þetta fólk hafi eitthvað að segja.
Og Þórdís hefur svo sannarlega nóg að segja, þó það sé ekki endilega hávært eða hádramatískt í anda tóntegundar íslensks fréttaflutnings um þessar mundir. Bókin hefst á ljóðinu „Næturlíf”, en þar vaknar ljóðmælandi upp um miðja nótt við köll úti á götu: „Hvert ertu að fara?” Hún veltir því fyrir sér að taka spurninguna til sín en ákveður þó að sofa áfram, full samúðar með yfirgefnum manninum. Þó þessi ljóðmælandi hafi ekki sinnt kallinu má segja að bókin sé að einhverju leyti viðbragð við svona ákalli, eða vöknun, því hún einkennist af því að skynja umhverfi sitt með augun opin og síðustu ljóðin, „Geðveikisbakteríur” og „Rithöfundar”, virka bæði sem einskonar svar við þessu kalli. Í því fyrra reynir ljóðmælandi að þykjast lifa öðru lífi: „Þegar hversdagslíf verður of yfirþyrmandi má gerast önnur kona í svona klukkutíma.” Hún ekur uppí Grafarvog og þykist eiga fullkomið borgaralegt líf, svona álíka og sést í auglýsingum og bandarískum sjónvarpsþáttum, en gefst upp og sér að hún myndi vera vond við glaðbeitta manninn sinn og með samviskubit yfir því að auki. Rithöfundaljóðið fjallar svo um það að rithöfundar séu vissulega aðdáunarverðir en ljúgi því að „þeir séu feimnir, / auðmjúkir og hvorki sjálfhverfir né fáfengilegir.” Í fyrra ljóðinu er augljóslega verið að máta sig við möguleika á öðrum lífum - hvert er ég að fara, og það síðara er kómískt svar við spurningunni - er það þetta sem ég er orðin?
Á milli þessara vangaveltna um hvert verið sé að fara, fylgjum við ljóðskáldinu um ýmiskonar krókastigu hugarlenda hennar - eða leyndarmála annarra. „Leikmæðralistin“, „Glamúrskortur”, „Félagslegt raunsæi”, „Af persónum” og „How to look good naked” fjalla um konuna, kvenímyndir og kynlíf og eru í leiðinni köld sjálfskönnun, bitrasti tónninn er í „Félagslegu raunsæi”, en þar endar upptalningin á lífsgæðunum á möguleikum til sjálfsvígs. Nokkur lengri ljóð lýsa ferðalögum um bæinn, á Grund flýtir starfsfólk klukkunum og þéttir bilið milli matmálstíma til að komast fyrr heim: þetta sannar matarlyktin sem fyllir vitin um hálfníuleytið. Í „Samhúð” veltir ljóðmælandi því fyrir sér hvað sé fyrir innan gluggana og í lengsta ljóði bókarinnar, „Sumt gott í lífinu er ókeypis”, birtist dýrðleg ásýnd miðbæjarins að morgni til, allt frá syfjulegum Laugavegi til samkynhneigða hárgreiðslumannsins í JL-húsinu sem mundar „skærin og klippir / gisin pungstrá á höfði hálfsköllótts viðskiptavinar.” Eitt ljóð vísar til kreppunnar, „Ólíkt höfðumst við að árið tvöþúsundogsjö” og annað til þeirrar kröfu að skrifa ádeiluljóð, „Glottal stop”, en þar fýkur ádeilan út í veður og vind því „ungi veðurfræðingurinn er [svo] krúttlega höggmæltur”.
Flest ljóðanna eru nálægt því að vera prósar með greinilegum frásagnartónum, en einnig sjást ‘hefðbundnari’ ljóð og svo auðvitað örleikritin sem eru fallega fáránleg og líklega skýrustu birtingarmyndir húmorsins og íróníunnar sem býr í allri bókinni.
Leyndarmál annarra eru vel geymd hjá Þórdísi, en nú ætla ég að hlaupa út og lána þau afmælisbarni.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2010