Ég skrifaði vegna þess að heimurinn var eins og kaotískur basar fullur af varningi sem hrópaði: Taktu mig með þér heim! Með því að hlýða kallinu var hægt að henda reiður á hlutunum; lækna heiminn af sinni krónísku óreiðu. (Í skugga trjánna, 141)
Sannsögur, skáldævisögur, skáldskapur spunninn úr reynslu og fjölskyldusögu höfundarins, ljóst frekar en leynt, er fyrirferðarmikil og fjölskrúðug grein hin síðari ár. Ekki bara hér á landi, heldur alþjóðlega. Karl Ove Knausgaard fer með himinskautum, engilsaxar fyllist skyndilega áhuga á hálfrar aldar gömlum bókum Tove Ditlevsen. Annie Ernaux og Svetlana Alexejevitsj fá Nóbelinn.
Okkar aðkoma að þessu er kannski dálítið óvenjuleg. Við erum tiltölulega nýlega farin að skoða þann möguleika að lesa Íslendingasögurnar án þess að ganga út frá því sem gefnum hlut að þær séu sagnfræðilega kórréttar að miklu leyti. Og fámennið, og nálægðin sem það skapar, hefur alltaf hleypt okkur í rannsóknarham við lestur bóka sem sannarlega eru skáldskapur. Ef þorp eru látin ónefnd erum við óðar farin að spá í staðhætti til að átta okkur á fyrirmyndinni. Við erum fljót að leita að fólki sem gæti staðið að baki persónulýsingum, sérstaklega þegar þær eru sæmilega krassandi.
Þegar bækur birtast með yfirlýsingu höfunda um að þar sé sótt í eigið líf undir merkjum „skáldævisögu“ gerist gjarnan hið gagnstæða: augu lesandans skima eftir því sem gæti verið uppspuni. Burtséð frá þeirri heimspekilegu eilífðarráðgátu hversu mikið af minningum okkar samsvara því sem „raunverulega gerðist“ eftir ár og áratugi af úrvinnslu, endurmótun og, eftir atvikum, gleymsku.
Önnur spurning vaknar líka: skiptir máli hvað kemur úr minnisbankanum og hvað frá ímyndunaraflinu og kröfum skáldsagnarlistarinnar? Yfirborðskennda svarið er nokkuð augljóslega já, annars værum við ekki alltaf að velta þessu fyrir okkur. Nákvæmlega hvaða máli þetta skiptir er svo annar og frjórri akur fyrir skemmtilegar og endalausar vangaveltur um flókinn hringdans raunveruleika og skáldskapar.
Hvorki Guðrún Eva Mínervudóttir né Þórdís Þúfa fara í grafgötur með það að bækur þeirra, Á milli trjánna og Þín eru sárin, eru á þessu rófi. Segja frá raunverulegum atburðum með aðferðum skáldsögunnar. Báðar hagræða auðsjáanlega nöfnum í einhverjum tilfellum, Þórdís hreinlega á aðalpersónu sinni, og vafalaust fleirum eða öllum án þess að það sé mögulegt eða þarft að grafa eftir því. Það er á hinn bógin hennar eigin grimma lífreynsla sem er kjarni frásagnarinnar. Og bókstaflega allt sem þar gerist hefur á sér sterkt yfirbragð hreinnar sannsögu.
Hvað er til marks um það? Kannski tvennt. Annnað er að þó þessi saga sé vægast sagt viðburðarík eru varla nokkur ummerki um „fléttu“. Atvik leiða ekki sterklega hvert af öðru í átt að niðurstöðu eða hafa í för með sér mikilvægar vendingar. Þær stefnubreytingar sem verða í lífi Laufeyjar, viðbrögð hennar við hrottalegri árásinni sem verkið hverfist um, stýrast ýmist af tilviljunum eða spretta úr hennar mjög svo persónulega lífsskilningi. Meira um það síðar.
Á annan í hvítasunnu 2018 verður Laufey fyrir árás og nauðgunartilraun á Klambratúni, þar sem hún er á ferli að næturlagi með dóttur sína í barnavagni. Árásin rænir hana svefni og sálarfriði, auk þess sem hún rífur ofan af minningum um aðra nauðgun löngu fyrr. Eiginlega tvær, þó hún sjálf skilgreini ekki það atvik þannig. Þetta síðastnefnda tilfelli er skýrt dæmi um atriði sem engum vandvirkum rithöfundi dytti í hug að skrifa inn í atburðarásina ef raunveruleikinn neyddi hann ekki til þess.
Bókin greinir síðan frá eftirmálum Hvítasunnuárásarinnar, auk þess sem hversdagslíf Laufeyjar er rakið, samskipti við leigusala, lögreglu og þó fyrst og fremst við ljúfan og skilningsríkan kærasta (eiginlega sambýlismann þó þau búi ekki saman – annað dæmi um atriði sem erfitt er að sjá að nokkur höfundur myndi flækja söguna sína með ef staðreyndir stýrðu ekki penna).
Stíllinn er mjög blátt áfram, frásagnarhátturinn hlutlægur, sem er verulega áhrifaríkt þegar jafn hrottalegum atburðum er lýst. Lesandanum finnst að það hljóti fyrr eða síðar að verða fullkomið niðurbrot, úrvinnsla og ný sýn á það sem gerðist í kjölfarið. En aftur: þetta er ekki skáldsaga óbundin minningum og staðreyndum og Laufey fer ekki eftir algengustu brautum í eftirmálunum, heldur algerlega sínum eigin, sem öðru fremur gerir Þín eru sárin að mögnuðum og merkilegum lestri.
Ástæðan fyrir að Laufey var úti á Klambratúni um miðja nótt var að hún fékk fyrirmæli um það frá innri rödd sem hún kallar Maríuröddina, og leiðbeinir henni við stórar og smáar ákvarðanir. Öll lífsafstaða Laufeyjar byggir á sannfæringu um að allt hafi tilgang, og nánar tiltekið hafi allt sem hendir í hennar lífi tilgang fyrir hennar eigin vegferð og þroska. Þar eru hinar grimmu árásir sem hún verður fyrir ekki undanskildar, þó það kosti hana nokkur heilabrot að skilja hvert þær muni leiða og hvað Maríuröddin vildi með þessari skipun um næturferðina.
Hættu þessu helvítis væli!“ ávítaði ég sjálfa mig upphátt. Þú ert hafin yfir svona aumingjaskap. Það hlýtur að vera orsakasamhengi, ég þarf bara að skoða þetta betur. [...] Þetta gat ekki verið tilviljun … eða öllu heldur mátti þetta ekki vera tilviljun, því það græfi undan öllu mínu trúarkerfi. (64–65)
Heimurinn er fullur af merkingu. Ekkert gerist að ástæðulausu og allt sem gerist hefur tilgang. Árásin ögrar fyrst og síðast þessum heimsskilningi sem er kjarni tilveru Laufeyjar, það sem færir henni þann mikla styrk sem hún sýnir, og furðar reglulega hennar nánasta samferðafólk.
Þessi einarða trúarlega afstaða Laufeyjar til lífsins er hennar helsta stoð, um leið og hún virkar á lesendur sem ekki horfa á heiminn þessum augum sem illskiljanleg og framandi – og fyrir vikið sérdeilis í frásögur færandi. Þín eru sárin er fyrir vikið næsta einstök í flóru frásagna þar sem sagt er frá kynferðislegu ofbeldi og úrvinnslu þolenda þess á reynslu sinni
Andleg leit er líka eitt af grunnstefjum Í skugga trjánna, þar sem Guðrún Eva Mínervudóttir segir frá afdrifum hjónabanda sinna. Það birtist ekki síst í rammafrásögninni, þar sem litskrúðugur hópur fólks fer saman á sýrutripp sér til sáluhjálpar á heimili milljónamærings á Arnarnesi, og er sá hluti verksins sem erfiðast er að trúa að sé sannsögulegur nema í grófustu dráttum í mesta lagi. Til þess er persónugalleríið í veislunni eiginlega of litríkt og virkar of „hannað“ til að vera „satt“ í smáatriðum. Þessi hluti bókarinnar kallast á vissan hátt á við bæjarhátíðina sem söguhetja Skeggs Raspútíns er leidd inn í, í krafti ofskynjunaráhrifa múskats, og virkar eins og fantasía við hliðina á einarðlega raunsæislegum lýsingum á samskiptum Evu og garðyrkjubóndans Ljúbu og hinum sagnfræðilega innblásu frásögnum af heilara rússnesku keisarafjölskyldunnar í kringum þarsíðustu aldamót.
Aðallega er Í skugga trjánna þó saga af tveimur krefjandi tímabilum í lífi Evu, sem er nafn aðalpersónunnar, og virðist þræða atvik í lífi skáldkonunnar sjálfrar nokkuð nákvæmlega, þó auðvitað verði seint um það fullyrt „utan frá séð“. Eins er óljóst hvaða persónur birtast undir nöfnum fyrirmynda sinna, fyrir utan að fyrri eiginmaðurinn, Hrafn, heldur sínu nafni en sá síðari ekki.
Og aftur er hér afstaða, sem vel má kalla trúarlega, leiðarstef: að öll séu alltaf að reyna sitt besta í lífinu. Eva kvikar aldrei frá þeirri trú, sama hvað á gengur og hversu illa eiginmennirnir koma fram við hana.„Enginn jafnast á við Guðrúnu Evu þegar kemur að velþóknun yfir sögupersónum sínum“, stendur skrifað í annarri grein minni um verk skáldkonunnar hér á þessum vef. Það er óhætt að segja að þessi nýjasta skáldsaga styrki mig í þeirri trú.
Næmur skilningur Evu fyrir því sem fólkið í kringum hana er að glíma við er leiðarstef bókarinnar. Sannfæringin um að öll séu alltaf að reyna að gera sitt besta mótar afstöðu hennar þegar hjónaböndin tvö liðast í sundur. Og þó það sé neysla og sálarástand eiginmannanna sem þar er helsti orsakavaldurinn – og flestum þættu reiði og ásakanir eðlileg viðbrögð – er það samlíðan skáldsagnahöfundarins með persónum sínum sem stýrir pennanum. Svo sannfærandi er Guðrún Eva að lesandinn efast ekki um að velþóknunin nái út fyrir svið hins skáldsaga og stýri afstöðu hennar til samferðafólks í lifanda lífi – hvað sem á dynur.
Fleiri persónur en sýruferðalangarnir í Garðabæ eru teiknaðir sterkum litum í þessari bók – áberandi sterkari en eiginmennirnir tveir. Þar verður fyrst að nefna sjáandann og miðilinn Vilhjálm Braga, fósturbarnið Constönzu sem Eva tekur að sér og skáldkonan Didda. Sú síðastnefnda vel þekkt úr „raunveruleikanum“ en Vilhjálmur og Constanza hafa öllu sterkari einkenni „skáldaðra“ persóna. Þá verður líka að hafa í huga að Constanza er í fóstri hjá Evu á vegum barnaverndaryfirvalda vegna hræðilegra heimilisaðstæðna og stórfelldra hegðunarvandamála. Rétt að gera ráð fyrir að þar sé raunveruleikanum hnikað nægilega til svo enginn beri kennsl á fyrirmyndina.
Allar þessar mannlýsingar eru sérlega glæsilegar, skrifaðar af næmni og mildu innsæi. Kaflarnir um tímann þar sem Constanza dvelur hjá Evu og Helga eru til að mynda skýr dæmi um sérstöðu og styrk Guðrúnar Evu Mínervudóttir í úrvalsdeild íslenskra skáldsagnahöfunda.
Bæði Í skugga trjánna og Þín eru sárin ögra viðteknum einfaldasta skilningi á hvað er skáldskapur. Og ekki síður álíka rótgrónum hugmyndum um sannsögur. Þær hasla sér sína eigin velli af mikilli sannfæringu og þjóna á frumlegan hátt sameiginlegum markmiðum allra ritstarfa, hvort sem sögurnar eru sannar eða spunnar upp: að varpa ljósi á leyndardóma lífins og heimsins og hinar óendanlega mörgu aðferðir sem við höfum komið okkur upp til að lifa af.
Þorgeir Tryggvason, desember 2024