Æviágrip
Einar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík þann 5. október 1961. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð lagði hann stund á laganám við Háskóla Íslands í nokkur ár þar til hann tók til við skriftir. Einar Örn var gestanemi í leiklistarfræðum við Háskólann í Bergen haustið 1999. Hann lauk síðan MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík 2008 og fjallaði lokaritgerð hans um íslenskan myndlistarmarkað. Að því loknu stundaði hann nám við Sotheby’s Institute of Art í London og útskrifaðist þaðan með MAAB próf vorið 2010. Einar Örn hefur búið víða erlendis, í Kaupmannahöfn, Bergen, Prag, Schöppingen í Þýskalandi og í London.
Einar Örn stofnaði fiskeldisfyrirtækið Salar Islandica ásamt fleirum árið 2000 og var hann aðstoðarframkvæmdastjóri þess frá 2003 – 2007. Auk þess hefur hann m.a. starfað við greinaskrif fyrir Morgunblaðið og var um tíma fréttaritari blaðsins í Kaupmannahöfn. Hann var ritstjóri bókmenntatímaritsins Andblæs árið 1996 og skrifaði greinar fyrir ritið á árunum 1996 – 1998. Hann hefur tekið þátt í að skipuleggja fjölda upplestrarkvölda í Reykjavík í gegnum tíðina og átti frumkvæði að Listakvöldi við Voginn á Austurlandi árið 2007.
Fyrsta skáldsaga Einars, Næðingur, kom út 1990 en áður höfðu smásögur eftir hann birst á prenti. Síðan hefur Einar Örn sent frá sér fleiri skáldsögur, smásögur og leikritið Krákuhöllina, sem var lokaverkefni leiklistarnema í Leiklistarskóla Íslands 1999 í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar.
Einar Örn var fulltrúi íslenskra rithöfunda í Bókmenntahraðlest Evrópu árið 2000, en lestarferðalagið tók sex vikur og tóku 104 evrópskir höfundar þátt í því. Gerð var heimildarmynd um ferðina og fjallað um hana í bókum, meðal annars Ein literarisches Reisebuch, auk þess sem hún var til umfjöllunar í sjónvarpsþáttum og ótal blaðagreinum í Evrópu. Skáldsagan Tár Paradísarfuglsins kom út í litháískri þýðingu 2003.
Um höfund
Um verk Einars Arnar Gunnarssonar
Mér er í býsna fersku minni þegar smásagan Bréf til mömmu kom út 1986. Hún var fyrsta ritverkið sem Einar Örn Gunnarsson, þá 25 ára, sendi frá sér og vakti strax talsvert umrót efnis síns vegna. Sumum lesendum þótti einsýnt að höfundinum, Einari Erni Gunnarssyni, væri afskaplega í nöp við móður sína! Sögumaður ávarpar hana nefnilega, móður sína sem hann hefur greinilega ráðið af dögum, lætur í ljósi sorg og iðrun, söknuð og eftirsjá – yfir því hvernig hún hegðaði sér svo að örlög þeirra beggja urðu ekki umflúin. Margir lesendur hafa ríka tilhneigingu til að líta svo á að menn meini allt sem þeir skrifa, og höfundurinn Einar Örn Gunnarsson fékk bágt fyrir að vera svona vondur við mömmu sína. Og það sem gerði Bréf til mömmu enn fremur „aðfinnsluverða“ var sóðaskapurinn, kaldlyndið, siðleysið og geðveikin sem stafaði af því að sögumaður var siðblindur maður sem sást ekki fyrir í réttlætingu á eigin gjörðum. Um svipað leyti kom út önnur smásaga, Gíslasaga, sem vakti ekki viðlíka viðbrögð. Segir svo ekkert af þessum höfundi í fjögur ár.
Næðingur
Næðingur fylgir í nokkra mánuði laganemanum Gunnari sem er á vergangi. Hann finnur loks boðlegt herbergi hjá Kristjáni sáluga og Frönsku-Maríu fyrir lítið fé. Þau hefur dagað uppi í óhrjálegu húsi sínu og heldur dapurlegu lífi sem Gunnar verður þátttakandi í í nokkrar rýrar vikur, þ.e. þangað til María styttir eigið líf. Næðingur einkennir líf Kristjáns og Maríu, jafnt þann hluta sem lesandi verður beinlínis vitni að og ekki síður þá kima fortíðarinnar sem jafnt og þétt eru dregnir fram í dagsljósið. Vinir Gunnars eru ljóðakvöldaskáld en af fjölskyldu hans segir ekki annað en að mamma hans er dáin og pabbi hans frelsaður og fluttur til útlanda. Hann hallar sér því að vinunum Árna, Þorra Emil og Kjartani Lár kaffihúsaspekingum sem virðast helst eiga það sameiginlegt að pumpa upp innistæðulaust sjálfsálit.
Aðalpersónur sögunnar eiga það sammerkt að vera ekki eins og fólk er flest því að Kristján og María eru meira en lítið á skjön við viðtekin gildi um fullorðin hjón sem leigja frá sér herbergi. Henni leiðist greinilega óhemjumikið og sækir fyrir vikið mjög í leigjandann, býður honum sýknt og heilagt upp á dísætt eða brimsalt súkkulaði sem hann kann ekki við annað en að þiggja minnugur þess að herbergið er ekki mjög dýrt. Með súkkulaðidrykknum reiðir hún fram sögur af fortíð sinni en þær eiga ekki frekar upp á pallborð Gunnars en drykkurinn sjálfur og félagsskapurinn. María telur sér trú um að Gunnar sé löngu horfinn elskhugi hennar, Aron, bróðir Kristjáns, en látið er að því liggja að hann hafi dáið voveiflega. Helsta gagn Gunnars af þessum uppáþrengjandi heimsóknum Maríu er að þær eru örvandi fyrir skáldgáfu hans. Hann verður þess áskynja að trúlega hafi hún orðið völd að dauða mágs síns, Aronar, sem hún var heitbundin áður en hún bast Kristjáni. Svo er líka kynntur til sögunnar Franz, sonur þeirra hjóna, sem er á mjög dularfullan hátt alltaf fjarverandi, í útlöndum eftir því sem María segir en sögusmettur segja hann hafa horfið fjögurra ára eða svo. Það reið geðheilsu Maríu að fullu, því sem var þá enn til staðar.
Kjarni málsins er þó e.t.v. sá að lesandi Næðings nýtur ekki góðs af þessari örvun sögumanns. Frásögnin ber ríkari keim af sterkum vilja til að skrifa en minni mætti. Gunnar myndar ramma utan um hið uppþornaða líf Kristjáns og Maríu en ramminn verður óþarflega fyrirferðarmikill á kostnað tragíkurinnar í lífi hjónanna og sligar það söguefni. Að auki er Gunnar of huglægur og eftirlætur ekki lesendum að draga eigin ályktanir af viðburðum bókarinnar, sbr. „Hún fór að segja mér sjúkrasögu eða öllu heldur píslarsögu, benti með puttanum hér og þar til að sýna hvernig verkirnir geystust stað úr stað. Það var vægast sagt hörmulegt að sitja undir þessu hjali. Tungan stoppaði ekki og puttinn þreyttist aldrei á að ferðast“ (bls. 40). Sögumaður treystir ekki lesandanum til að átta sig á því að atferli Maríu er heldur hvimleitt, og ágengni hennar í garð ungs háskólanema til þess fallin að æra óstöðugan.
Það forvitnilegasta í bókinni fannst mér lagt Árna, vini Gunnars, í munn en hann gerir því skóna að fólk sé svo „andlega fátækt og hugmyndasnautt að geta ekki skilið að höfund og verk“ (bls. 87). Í ljósi viðbragða lesenda við Bréfi til mömmu 1986 má hér líta á Árna sem málpípu höfundar. Og fólki er hollt að hafa orð hans í huga.
Benjamín
Með Benjamín tekur höfundur augljósum framförum. Myndin í rammanum, Benjamín, fær eðlilegt vægi í sögunni um sjálfa sig. Benjamín er samtímasaga líkt og Næðingur, rammafrásögn sögð í fyrstu persónu af háskólanemanum Kjartani sem leggur stund á læknisfræði. Hann ætlar að taka haustpróf en verður fyrir stöðugum truflunum af nýheimtum frænda sínum, Benjamín, sem kemur erlendis frá og fær inni í húsi foreldra Kjartans þar sem hann býr enn. Benjamín er lífsnautnamaður, bóhem og kominn heim til að halda sýningu á myndverkum sínum. Hann er stöðugt á ferðinni og vill endilega hafa Kjartan sem næst sér, ætlar að kenna honum að njóta gæða lífsins. Kjartan er áhrifagjarn og lætur Benjamín telja sér trú um að skapandi störf henti honum betur en læknisstarfið.
Hvernig væri líka annað hægt? Benjamín er hrokafullur besservisser sem finnst hann ekki þurfa að sýna venjulega kurteisi. Hann er rífandi öruggur með sjálfan sig og skoðanir sínar, ögrar öllum heiminum, ekki síst sínum nánustu, og auðvitað kollvarpar hann gildum Kjartans sem gerir sér þó grein fyrir að Benjamín er „rosalega úthverfur og upptekinn af sjálfum sér; sínum eigin orðum og hugsunum“ (bls. 49). Mamma Kjartans, systir Benjamíns, reynir að forða syninum undan áhrifavaldi hins sterka og segir: „Hann ber enga virðingu fyrir tíma annarra og finnst sjálfsagt að veröldin snúist í kringum hann. Það eiga allir að dást að honum og dansa eftir höfði hans“ (bls. 93). En Kjartan dansar samt.
Þrátt fyrir að Benjamín hafi skrifað skáldsögu þar sem pabbi hans er gerður að óþverra dáist mamma hans takmarkalaust að honum. Kannski er hún hafin yfir smásálarskapinn sem þjakar hina? Benjamín hampar henni samt ekki, það virðist vera sama hvort mönnum liggur gott eða illt orð til hans, hann eirir engum nema e.t.v. hinum saklausa Kjartani sem lítur langar leiðir upp til hans. Benjamín vísar hins vegar baki brotnu í heimsþekkt skáld og aðra listamenn sem eru þeir menn sem hann samsamar sig mest og best, jafnokar og fyrirmyndir.
En er Benjamín e.t.v. að breiða yfir einsemd sína og uppburðarleysi? Undir lok sögunnar sýnir hann nefnilega í fyrsta sinn alvörutilfinningar þegar hann rifjar upp líf og dauða lítillar dóttur sinnar. Hann tjáir sársauka þess sem hefur jarðað barnið sitt og lesandi finnur að allt hans líf eftir það hefur verið meðvitað hjóm, ekkert skipti hann máli lengur og þess vegna gat hann verið þessi oflátungur. Hann yrði aldrei særður meira. Og skömmu síðar er hann sleginn af í bílslysi!
Líkt og Næðingi lýkur Benjamín með dauða. Benjamín er umdeildur, skapar óróleika, veldur úlfaþyt, skrautlegur persónuleiki. Og gengur alveg upp sem slíkur. Lesandi skilur vel að Kjartan falli í stafi og elti hann eins og rakki, svo mjög sópar að honum. Systir Benjamíns er náttúrlega lífsreyndari og lætur hann ekki slá ryki í augun á sér. Svo eru aukapersónurnar Þröstur og Ásta sem eiga Benjamín grátt að gjalda. Benjamín er þungamiðjan og stendur vel undir nafni. Þegar hann síðan afhjúpar sinn innri mann, sýnir tilfinningasemi vegna dóttur sinnar og sögumaður gerir sér grein fyrir því hve einmana sál hans er virðist sagan komin á endastöð, höfundur hefur ekki meira að segja og býr Benjamín fyrirvaralausan dauðdaga. Eftir stendur sögumaðurinn með sínar blendnu tilfinningar, atkvæðalítill á hliðarlínunni en búinn að upplifa sorg þessar sem jarðar ástvin.
Dauðinn virðist vera höfundi hugleikinn enda er hann það eina örugga í lífinu. Að lesanda læðist samt sá grunur að höfundi finnist dauðsfall hæfilegur lokapunktur í sögunum enda er hann býsna endanlegur. Sjáum hvað gerist í næstu skáldsögu Einars Arnar Gunnarssonar.
Draugasinfónían
Dauði og draugagangur eru aðalefni Draugasinfóníunnar. Sögusviðið er Reykjavík um miðbik síðari heimsstyrjaldarinnar og sögumaður er hinn fjölskyldulausi 22ja ára Hrafn sem kemur frá Grunnavík með staurfót og hvítuveiki. Grunnavík er óstaðsett á landinu en virðist þó vera þorp á Vestfjörðum og þar lifðu allir og hrærðust í huliðsheimum. Hvorutveggja skiptir máli í sögunni, staðsetning þorpsins og fyrir hverju það gekk, því að Hrafn skilur þar eftir vafasama fortíð og uppnefnið hræfugl sem virðist einhvern veginn ekki elta hann uppi. Boðleiðir voru að vísu eitthvað tregari 1940 en á okkar tímum en það skýrir ekki til fulls hvers vegna enginn þekkir þann mann sem hann hefur að geyma. Það eina sem fylgir honum að vestan er gulnuð mynd af foreldrum hans sem hann þó aldrei þekkti og óljós draumur um að komast upp úr farinu sem hann virtist líklegur til að spóla í, þ.e. hann var ómagi og hvernig gæti hann snúið þann uppvakning niður?
Hrafn fær inni hjá Guðrúnu sem leigir út herbergi og hann fær lærlingsstöðu hjá Karli bókbindara. Í farteskinu voru nefnilega aukreitis meðmæli frá sveitunga, hvað sem olli því að einhver gæðakona sendi Hrafn í bæinn með guðs blessun og sína. Hrafni finnst hlutskipti sitt heldur bágt en framan af grunar lesandann ekki að í honum sé nokkur töggur, hvað þá að hann hafi að geyma þann lygara, loddara og sjónhverfingamann sem á eftir að koma á daginn. Honum finnst sjálfur hann vera „fórnarlamb veraldar sem naut þess að telja tár hans „ (bls. 12). Karl forsmáir hann og þess vegna finnur hann sig svo auðveldlega í prettunum þegar honum hugkvæmast þeir nokkrum vikum eftir fyrstu viðkynningu þeirra. Guðrún á systur, Kollu, sem er mjög ágeng við hann en af henni lærir hann líka hugtakið vökumaður, og það er ekki ónýtt þegar á hólminn er komið. Hann notar „vökumanninn“ í Suðurgötukirkjugarðinum til að ná tangarhaldi á hinum trúgjarna Karli sem leggur allt upp úr merkisfólki eins og Hitler, sem og dulúð og handanveraldarheimsóknum.
Nýaldarhyggja Karls á sér stoð í veruleika 5. áratugar síðustu aldar, og það nýtir höfundur sér í bókinni þar sem hann lýsir fjálglega klækjum „sjáendanna“. Þegar gesturinn er sannfærður um að Sigga sé væntanleg sér hann ekkert eða heyrir annað en Siggu þótt Þóroddur banki upp á. Þetta nýtir Hrafn sér og út á þetta gerir líka Einar Örn Gunnarsson.
Þetta byrjar allt þegar Hrafn finnur sig knúinn til að gera eins og yfirboðari hans í bókbandinu býður honum og fer á minningarathöfn um Einar Benediktsson sem rithöfundurinn Hallgrímur Hamarr heldur. Einari Ben. er ekki gert hæst undir höfði við það tækifæri heldur hugmyndum um dauðann sem er „þjónn þeirrar eilífðar sem engan mismun þekkir á einstaklingum. Dauðinn er besti þjónn lífsins og þótt mörgum sé í nöp við hann þá er hann hinn hataði lausnari“ (bls. 55) eins og Hallgrímur segir. Nýaldarhugmyndin lætur á sér kræla.
Þá kvöldstund tekur líf Hrafns stakkaskiptum þegar hann fyrirvaralaust tekur að gera sér upp skyggnigáfu og sér „vökumanninn“. Hæfileiki hans til að ljúga að trúgjörnum kemur lesanda fullkomlega í opna skjöldu en þegar til á að taka reynist hann býsna reyndur lygari og hann spinnur þennan vef þéttar og þéttar af miklu listfengi. Þegar hann sér að fyrsta lygasagan fellur í kramið hjá Karli skáldar hann sögur á færibandi, fær frítt spil í vinnunni, er sendur út á land til að vitja um þá sem andarnir eru hliðhollir, og Karl og félagar hans sem jafnframt eru áhugasamir um framliðna dæla peningum í Hrafn svo að hann geti einbeitt sér að því sem náðargáfa hans býður honum.
Og púkinn fitnar á fjósbitanum.
Hrafn tekur miklum og snöggum umskiptum – í byrjun er hann uppburðarlaus og haltur en verður efnaður valdsmaður í krafti meintrar dulvitundar sinnar. Sagan gerist sem sé 1940-42 og notar sér þá andatrú sem var við lýði, fjöldi manns kemur á andafundi Hrafns og allir eru reiðubúnir að borga fyrir stutt innlit frá einhverjum nákomnum. Og Hrafn vílar ekki fyrir sér að gera sér trúgirni fólks að féþúfu.
Um nokkra hríð kemst hann upp með athæfi sitt en á endanum kemur hann þó upp um sig. Fyrst sér aðeins kunningi hans í gegnum hann og fær sinn skerf af gróðanum en svo vinst lygahjúpurinn ofan af honum smátt og smátt, fleiri sjá hvernig í pottinn er búið og honum verður ekki vært í landinu. Í mars 1942, rúmum tveimur árum eftir að hann kom til höfuðborgarinnar, flýr hann land með allt það fé sem hann hafði náð að sölsa undir sig. Áður en það varð náði hann samt að verða manni að bana og afneita besta vini sínum.
Hrafn kom svo sannarlega standandi niður.
Í bókinni er fjöldinn allur af aukapersónum, t.d. Guðrún sem Hrafn leigir hjá í upphafi og Kolla systir hennar sem var með þann kæk að enda flest tilsvör sín á orðunum „allt í lagi með það og ekki neitt neitt“. Kolla er líka skyggn enda fékk hún ekki „skírnarvatnið í augun“ (bls. 10) og segist heyra á göngutaki fólks hvort það er gott eða vont. Áður en okkur grunar að Hrafn er svo mikill svindlari spyr hann hana, og ögrar örlögum sínum um leið: „Hvort er ég góður eða vondur?“ (bls. 14). Kolla kemur sér lævíslega hjá því að svara.
Dagmar er í bókbandinu rétt eins og Hrafn, Freyja er nágranni sem Hrafn girnist, Þráinn prestur kemur við sögu sem og magister Ketill Einarsson, Frönsku-Maríu bregður fyrir og fleira fólki. Allt er það með sín sérstöku sérkenni, kæki og áráttu en fæstu tekst að vekja áhuga lesandans. Karl bókbindari sem trúir mest og best því sem Hrafn heldur fram, Bergur félagi Hrafns af bókbandsstofunni og Ísak tónskáld skipta framvindu sögunnar máli en hitt fólkið stendur flest á hliðarlínunni og knýr ekki söguna neitt. Það sem það gerir eða lætur ógert kemur mest lítið við Hrafn, t.d. Kolla sem verður geðveik eftir að hafa óvart orðið hvítvoðungi að aldurtila eða það að Dagmar er með berkla. Hrafn er ósnortinn af öllu nema helst gróðafíkn sinni og eigin hæfileikum til að blekkja fólk í kringum sig, fólk sem hefur misst einhvern nákominn og þráir ekkert meira en að endurheimta viðkomandi.
Dauðinn og handanheimsfólk veður hér uppi eins og áður í verkum höfundar. Dulspeki og skyggnigáfa er það sem heldur Reykvíkingum síðari heimsstyrjaldaráranna gangandi og Hrafn nýtir sér það óspart.
Akkilesarhæll sögunnar er þegar höfundur segir í stað þess að sýna, gerist of huglægur, sbr.: „Mér ofbauð persónudýrkunin og leiddi hugann að því hve einfalt það reynist flónum að skipta mannfólkinu í dýrlinga eða djöfla“ (bls. 109). Hann vantreystir lesendum oft til að draga ályktanir. Engu að síður finnst mér Draugasinfónían standa t.d. Næðingi langtum framar.
Tár paradísarfuglsins
Tárum paradísarfuglsins má lýsa sem hugmyndafræðilegu sifjaspelli. „Þú ert ástin mín, mamma,“ (bls. 86) segir sögumaður og aðalpersónan sem er heilsteyptur siðleysingi, maður sem drap föður sinn með því að hrinda honum fram af stiga, og drap móður sína síðar og hengdi upp á hálsinum en lætur að því liggja að hann hafi komið að henni hangandi og í mesta lagi hrakið hana í dauðann. Í orði kveðnu elskar hann móður sína takmarkalaust og einmitt þess vegna varð hún að láta lífið. Hún var greinilega ekki verðug ástar hans og kunni ekki að gera honum til hæfis. En hver gerir líka geðveikum siðleysingja til hæfis? Sögumaður gagnrýnir smáborgara en er sjálfur algjört afsprengi hins smáborgaralega lífs og nærist á því.
Hann stútar hundinum og hengir upp, frystir síðan og víkur að honum einstöku hlýlegu orði, hann er með óra um að bera eld að sofandi börnum, sér síðan endalaust fyrir sér rotnandi lík þeirra og er með kynferðisóra sem lúta að þeim. Í öðru orðinu harmar hann hvernig fór fyrir móður sinni og í hinu áfellist hann hana fyrir að hafa kallað yfir sig aðgerðirnar. Hún er sjálf sek. Alltaf er hann upphafinn sakleysingi og fórnarlamb aðstæðna.
Helst vill maður lesa þessa bók með pírð augu, svo óhugnanlegur er þessi karakter. Hann virðir engin mörk og virðist vera algjör kleyfhugi, stútfullur af ranghugmyndum sem engum rökvísum manni dygði að rökræða við eða vísa til skynsemi hans. Hann er „Vitrun hins Guðdómlega Kærleika“ (bls. 48) í eigin augum. Honum er „ætlað að útrýma Djöflinum og einkasyni hans Jesú. Ég er verndarvinur mannkynsins, helgur engill“ (bls. 51). Hann er aleinn í sínum heimi.
Með Tárum paradísarfuglsins birtist á ný Bréf til mömmu frá 1986, bara orðið nokkru lengra. Og nú bregður svo við að persónusköpunin gengur listavel upp. Fljótlega áttar maður sig vissulega á að hann gengur ekki heill til skógar, en honum tekst jafnt og þétt að sýna lesendum skýrar og betur fram á hversu veill hann er. Og sögunni lýkur snarlega með dauða aðalpersónunnar, sonarins sem hafði þegar drepið föður sinn, móður, hund og tvö börn, ásamt því að aðhafast fleira miður geðslegt og ofbeldisfullt. Það er alveg sama hvar borið er niður, alltaf finnst honum hann hafa yfirhöndina og vera ósnertanlegur. Hann er í beinu sambandi við Guð almáttugan.
Sagan er stutt og heldur vel þræðinum, áhrifamikil, ógeðsleg og líkleg til að lifa áfram með lesendum sínum.
Sammerkt með bókum höfundarins Einars Arnar Gunnarssonar er að þær fjalla um handanheimsfólk, drauga og dauðann. Dauðinn er það eina sem við höfum fyrir víst í þessu lífi og hann er söguefni höfundarins. Í Næðingi gera afturgöngur stöðugt vart við sig í framkomu Frönsku-Maríu en að öðru leyti verður engra drauga þar vart. Í lok sögunnar fremur þó María sjálfsmorð enda orðin södd lífdaga, ástlaus og lítils metin. Í Benjamín gengur fortíð Benjamíns lítillega aftur og gerir honum lífið leiðara en hann virtist telja sig eiga skilið. Á endanum ferst hann. Í Draugasinfóníunni láta fyrst alvörudraugar á sér kræla þegar þeir svo gott sem líkamnast í augum þeirra sem heitast trúa. Og menn farast sviplega í lok þeirrar bókar. Í Tárum paradísarfuglsins hefur sögumaður nánast eingöngu samneyti við afturgengið fólk. Á endanum sameinast hann því fólki.
Maður gæti því haldið að dauði og draugagangur væri höfundi hugleikið yrkisefni. En í ljósi upphafsathugasemda minna vil ég samt taka fram að ég held ekki að höfundur skrifi upp úr reynsluheimi sínum!
Mér þykir höfundur taka umtalsverðum framförum á ferlinum, frá því að skýra söguefnið frekar en að leyfa því sjálfu að standa eitt og óstutt, frá því að ofhlaða með aukapersónum sem hafa engin áhrif á framvinduna, auk þess sem allur frágangur texta hefur batnað til muna.
Myndlistarmaðurinn Ásgeir Smári Einarsson myndskreytir forsíður allra sagna Einars. Ég snarféll fyrir þeim enda eru þær ekki aðeins listileg listaverk heldur hæfa þær efni hverrar bókar einstaklega vel og bæta við innihaldið.
© Berglind Steinsdóttir, 2003
Krydd lífsins
Lesa meiraKrydd lífsins er safn tólf smásagna sem allar gerast í nútímanum í höfuðborgum Norðurlanda, allt frá Nuuk til Helsinki. Sjaldnast er allt sem sýnist og hvaðeina getur umturnast eða afhjúpast í sviphendingu.. .Ég var nóttin: Reykjavíkursaga
Lesa meiraEftir langa leit að leiguherbergi býðst ungum lögfræðistúdent óvænt herbergi á furðulega lágu verði í stóru einbýlishúsi í ÞingholtunumDýrmætasta leyndarmálið
Lesa meiraRojaus Paukscio Asaros
Lesa meiraKrákuhöllin
Lesa meiraTár paradísarfuglsins : bréf til mömmu
Lesa meiraDraugasinfónían
Lesa meiraBenjamín
Lesa meiraNæðingur
Lesa meira