Æviágrip
Ragnar Helgi Ólafsson er fæddur 5. október 1971. Hann er rithöfundur og listamaður. Ragnar Helgi las heimspeki við Háskóla Íslands og lauk þaðan B.A. prófi árið 1997. Að loknu diplómanámi í kvikmyndaleikstjórn við The New York Film Academy lagði hann stund á meistaranám í myndlist við École Supérieure des Beaux-Arts d’Aix-en-Provence í Frakklandi og útskrifaðist árið 2001. Árið 2016 lauk hann MA-prófi í Ritlist frá Háskóla Íslands. Hin síðari ár hefur Ragnar Helgi helgað sig ritstörfum, gefið út skáldskap, ljóð, leikrit og ritgerðir.
Fyrsta bók Ragnars Helga, skáldsagan Bréf frá Bútan, kom út sumarið 2013. Í kjölfarið fylgdi smásagnasafn og ljóðahefti. Árið 2015 hlaut Ragnar síðan Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Smásagnasafnið Handbók um minni og gleymsku leit dagsins ljós haustið 2018 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og menningarverðlauna DV. Bókasafn föður míns – sálumessa kom út ári síðar var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Um árabil hefur Ragnar Helgi jafnframt unnið að sjónlistum og sýnt verk sín víða um heim, í söfnum eins og KIASMA í Helsinki, MoMA PS1-Colony í New York, TBA21 í Vínarborg og Listasafni Íslands, Reykjavík. Hann hefur einnig unnið að samstarfsverkefnum með öðrum rithöfundum og listamönnum eins og Douglas Edric Stanley, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, Anne Carson og Ragnari Kjartanssyni.
Ragnar Helgi er einnig annar forsvarsmanna bókaútgáfunnar Tunglsins forlags, sem gefur út bækur og ljóðatímarit auk þess að skipuleggja lista- og gjörningakvöld á Íslandi jafnt sem erlendis. Meðfram listsköpun sinni leikur Ragnar Helgi tónlist auk þess að sinna grafískri hönnun, en hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga á því sviði, sem og fyrir myndlist sína.
Um höfund
Orð af orði, af orði, af orði...
Bækur Ragnars Helga Ólafssonar eru fjarska alþjóðlegar. Sá sem þetta ritar ímyndar sér að margar liggi þær vel við þýðingu, enda hafa verk Ragnars verið þýdd á þýsku, frönsku og ungversku. Ekki er heldur laust við að það sé einhver hreimur í titlum eins og Handbók um minni og gleymsku og Bókasafn föður míns, sjálfum verður mér hugsað til Frakklands, en þó er líklegt að innihald verkanna hafi nokkur áhrif á þá skynjun. Sögusvið bókmennta Ragnars er gjarnan alþjóðlegt, tilvísanir til heimsbókmennta eru tíðar og gjarnan er fengist við ákveðin grundvallarþemu; fjarvera, minni, hringrás tímans og tilvistarhyggja eru meðal þeirra efnisorða sem koma til hugar. Án þess að ætlunin sé í þessari grein að beita einhvers konar ævisögulegri nálgun á verk Ragnars þá lýsir vissulega af þeim þekking höfundar á heimspeki, fagurfræði og bókmenntafræði eins og víða verður drepið á. Höfundur er enda menntaður á þessum sviðum, ásamt því að vera að góðu kunnur fyrir mynd- og sjónlist meðfram því að vera afkastamikill kápuhönnuður og útgefandi.
*
Rithöfundaferill Ragnars hófst árið 2013 með Bréfi frá Bútan sem kom út á vegum forlagsins Tunglið sem stýrt er af honum og Degi Hjartarsyni. Bókin er illflokkanleg að yfirlögðu ráði, eins og vikið verður að, en í stuttu máli sagt samanstendur hún af stuttum bréfum eða bréfbrotum manns til konu sinnar. Maðurinn er staddur í Bútan með sparifé þeirra í leit að kofa sem þau hafa gert sér í hugarlund að megi finna þar. Hann hefur meðferðis blýantsteikningu og lýsingu af kofanum, en ekkert meira. Inn í kofaleitina fléttast svo hugleiðingar sögumanns, gjarnan á heimspekilegum nótum, um ýmislegt svo sem drauma, minni og lestur svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel mætti segja að kofaleitin verði á köflum aukaatriði andspænis vitundarflæði sögumanns. Ef nefna ætti þó eitt umfjöllunarefni sögunnar sem meira kveður að en öðrum þá má segja að sagan fjalli á einn eða annan hátt um fjarveru.
Fjarveran birtist í ýmsum myndum í sögunni. Ef fyrst er litið til umbrots bókarinnar, kápunnar, káputextans o.s.frv., það sem stundum er kallað ytri formgerð textans í bókmenntafræði, er ljóst að þar er leikið á væntingar lesenda á ýmsan hátt. Sem hönnuður má ætla að höfundur viti vel hvernig eigi að bera sig að í því. Til að mynda ber bókin yfirstrikaðan undirtitil, Bréf frá Bútan: Sxxxxxxxx. Eðlilegt er að lesendur velti fyrir sér áður en lestur hefst hvers konar sögu þeir séu að fara að lesa og styðjast þá við ýmsar skilgreiningar sem hver um sig hafa einhverjar innbyggðar væntingar í för með sér; skáldsaga, smásaga, ljóð o.s.frv. Bréf frá Bútan neitar hins vegar lesendum um þann munað. Með þessari fjarveru flokkunar er lesendum meinað að setja sig í ákveðnar stellingar þegar þeir hefja lestur og hafa þeir engar fyrirframgefnar forsendur um söguna sem þeir eru að fara að lesa. Fleira er gert til þess að stríða þeim. Á aftara saurblaði bókarinnar stendur að bréfin hafi verið skrifuð í Reykjavík og Bútan í nóvember 2012. Lesandi sem kemur að bókinni gæti með þessu hugsað sér að bréfin væru á einhvern hátt miðlun á eigin reynslu höfundar og ætlað sér að leita að höfundi eða sögumannssjálfi hans í textanum, sem er skrifaður í fyrstu persónu. Slíkar vangaveltur verða þó fljótt marklausar, þar sem allar persónugreinanlegar upplýsingar eru yfirstrikaðar á sama hátt og undirtitill bókarinnar. Í fyrsta bréfinu er engu líkara en að lesendum sé vísvitandi strítt, þegar sögumaður þylur upp persónuupplýsingar vegabréfs síns við bútanskan landamæravörð:
Nafn? R...; Hvenær fæddur? xx / xx / 19xx; Hvar fæddur? Reykjavík; Millinafn? Helgi; Föður-/ættarnafn? A.....
[...] (6)
Með þessu verður sögumaður, líkt og sagan sem hann segir, óskrifað blað. Ekki bætir svo úr skák að hluti bréfanna er sömuleiðis bókstaflega fjarverandi, þar sem hvert bréf hefst yfirleitt á úrfellingu texta og lýkur jafnvel á henni sömuleiðis, þannig að lesendur eru staddir einhvers staðar í miðri frásögn. Hér mætti kalla til haldreipis þýska bókmenntafræðinginn Wolfgang Iser, en hann taldi að eitt af því sem að gæðir texta lífi í hugum lesenda væri það sem hann segði ekki, að í frásagnareyðum textans gæti lesandi tekið sér bólfestu og túlkað að vild í samspili minnis og lesturs. Þar sem hver lesandi væri vís til þess að túlka eyðurnar á ólíkan hátt felur hver texti í sér óendanlega margar merkingar og er síbreytilegur við hvern lestur. Þetta viðhorf til skáldskapar má skynja að minnsta kosti öðrum þræði í bókinni. Til dæmis má finna vísbendingu í tilvitnun sögumanns í 700 ára gamalt bútanskt ástarljóð, sem mig grunar þó að eigi sér aðrar rætur:
Viðfang textans er alltaf fjarvera
(það sem kemur ekki fyrir).
Ljóð eru skuggar af efni sínu.
(75)
Fjarvera er einnig viðfangsefni í leit sögumanns að kofanum, en auk þess felur hún í sér glímu við minni og endurminningar, eitthvað sem Ragnari er áfram hugleikið í öðrum verkum. Sú lýsing sem sögumaður hefur af kofanum sér til stuðnings er síbreytileg eins og hann rekur í einu bréfinu:
Skrýtið samt hvernig myndtextinn er aldrei alveg eins og mig minnti og ef ég viss ekki betur og þekkti ekki skriftina þína frá minni þá myndi ég halda að textinn væri endurritun á sjálfum sér, gerður eftir slæmu minni; skrifaður upp á nýtt í hvert sinn sem ég brýt örkina saman á ný. Stundum finn ég í honum orð sem mig rámar hreinlega ekki í. Stundum finnst mér hann vera lengri en hann var, en aldrei styttri. (42)
Andspænis þessu er Newsweek dagblað sem sögumaður les einnig í sífellu algjörlega óbreytanlegt þannig að hann gæti „ritað upp meira að segja lesendabréfin í blaðinu eftir minni, frá orði til orðs, ef þörf krefði“ (42). Þessar vangaveltur sýna hvernig kofinn og lýsing hans er í sjálfum sér hálfgerður skáldskapur og draumsýn, síkvikur og breytilegur þegar komið er að honum á nýjan leik, í takt við hvernig minnið hagar sér hverju sinni, en textar sem byggja á endursögn og staðreyndum haggast ekki.
Nauðsynlegt er einnig að glöggva sig á hvernig lýsing kofans breytist hverju sinni, því smám saman verður ljóst að í kofanum býr ákveðinn tregi, sem mætti hugsa sér að feli í sér ákveðna þróun á sambandi bréfritara við viðtakanda. Til að byrja með er kofinn lítill „en rúmar nákvæmlega eitthvað eitt“ (19), en eftir því sem myndin eyðist á ferðalagi sögumanns verður ákveðið rof, þetta „eina“ klofnar: „Þú og ég munum aldrei vera í kofanum á sama tíma því kofinn rúmar einungis eitthvað eitt“ (71). Sá kofi sem sögumaður og viðtakandi bréfanna rúmast bæði í er ekki til, annað þeirra er ávallt fjarverandi og sá kofi sem gæti fundist hefur því ólíka merkingu fyrir hverju þeirra. Í þessu ljósi verða lokorð sögumanns sérstaklega viðeigandi: „Ég verð með þér í huganum, skálaðu endilega fyrir mér þótt ég sé fjarverandi (eða kannski einmitt vegna þess)“ (77).
*
Milli Bréfs frá Bútan og ljóðabókarinnar Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum sem kom út 2015, gaf Ragnar út bókina Ljóð daganna í mjög takmarkaðri útgáfu tuttugu og fjögurra eintaka. Bókin er samansafn af ljóðum hans og annarra sem voru flutt í Vínarborg dagana 29. mars til 28. apríl 2014. Sum ljóð Ragnars sem þar birtast rötuðu í ljóðabókina en önnur ekki. Hér verður þó ekki staldrað sérstaklega við þau heldur er öðru fremur gagnlegt að skoða útgáfuna sjálfa þar sem hún varpar skýru ljósi á það hvernig störf Ragnars sem útgefandi og hönnuður kallast á við höfundaverk hans.
Eitt einkenni póstmódernisma í listsköpun, sem ekki er langsótt að kenna ritverk Ragnars við, er endurvinnsla. Hugmyndir jafnt og textar eru endurunnir, tengjast víða þannig að eignarhald þeirra verður í meira lagi óljóst og merking þeirra gengur í stöðuga endurnýjun. Höfundaverk Ragnars hefur marga innbyrðis snertifleti, hugmyndir úr einu verki eru teknar upp annars staðar með nýjum skírskotunum og jafnframt vísar höfundur í og vinnur óspart úr verkum annarra með sínu nefi. Í Ljóðum daganna birtist þessi stefna á mjög hnitmiðaðan hátt í útgáfunni. Ef byrjað er á kápunni þá er hún sérlega stílhrein og falleg, rauðletraður titill innan í rauðum ramma á kremuðum bakgrunni. Þetta er kunnugleg kápa enda er hún nákvæm eftirmynd af bókakápum franska forlagsins Gallimard, sem hefur gefið út marga af þekktustu og verðlaunuðustu höfundum Frakka. Með þessari vísun og endurvinnslu er Gallimard útgáfan sett í annað samhengi og um leið hengir bókin á sig tiltekið menningarlegt auðmagn og kröfu um gæði.
Hvað efni bókarinnar varðar má segja að þar ægi öllu saman. Ljóð Ragnars og annarra eru þar innan um ýmsar þýðingar, bæði á íslensku og ensku, og ljósrit og endurprentun af margvíslegum verkum hinna ólíkustu skálda. Þar er t.d. að finna nokkur ljóð Baudelaires ásamt broti úr Nietzche, en einnig ljóð eftir Ezra Pound, Sigfús Daðason og Jónas Hallgrímsson, svo eitthvað sé nefnt. Sum ljóðin eru birt sem ljósrit af handskrifuðum síðum en önnur ekki. Þetta er glæsileg og metnaðarfull útgáfa og lýsandi fyrir þá natni sem Ragnar leggur í umgjörð bóka sinna. Þó svo að Ragnar sjálfur eigi minnihluta ljóðanna sem þarna birtast þá er Ljóð daganna gagnlegt til þess að skilja höfundaverk hans, þó merkilegt megi virðast. Eins og vikið verður að hér að neðan innihalda bókmenntir Ragnars flókinn vefnað textatengsla, rétt eins og Ljóð daganna sýnir svo vel, og vísa sífellt hvert í annað og út fyrir sig í aðrar bókmenntir. Með hverri bók geta bæst við tilvísanir eða upplýsingar sem sýna fyrri verk í nýju ljósi, svo það liggur við að varla sé hægt að skilja eina bók Ragnars án þess að lesa þær allar.
*
Ljóðabókin Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum, hlaut prýðilegar viðtökur, m.a. féllu henni í skaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sama ár. Ef til vill er rangnefni að kalla hana ljóðabók því undirtitill hennar er Lög og textar. Eins og í Bréfi frá Bútan er hér leikið á hugmyndir lesenda um form og flokkun texta og takmarkanir þar að lútandi. Bækurnar kallast jafnframt á með textatengslum þar sem nokkur ljóðbrot og senur úr Bréfinu rata í bókina, annað hvort sem beinar tilvitnanir eða ný ljóð sem getur dýpkað skilning á Bréfinu jafnframt því sem „lög og textar“ bókarinnar virka þá sem hluti af heild í höfundarverkinu. Ef mér fyrirgefst þó að tala um ljóð bókarinnar þá halda þau áfram ýmsum hugmyndum sem bryddað er upp á í Bréfinu. Fyrsta erindi bókarinnar, Kassi í ljóðinu „Brot I‒III“ er ágætur upphafsreitur:
Ekki hugsa um það sem er innan kassans
Ekki hugsa út fyrir kassann
Hvorki hugsa út fyrir né innan
Ekki hugsa
Ekki
Og alls ekki hugsa um kassa
Hér er annars vegar ort um það sem væri hægt að kalla fjarveru, eins og í Bréfi frá Bútan. Fjarvera kassans kallar fram kassann, með því að hugsa ekki um kassa verður kassinn til. Alveg eins og eyður í skáldskap kalla fram einhvers konar uppfyllingu í hugum lesenda, þó skáldskapurinn sé ekki sýnilegur verður hann samt til. Hins vegar er ort um form, rými og afstöðu en þetta eru merkimiðar sem hengja má á mörg ljóð bókarinnar og kemur reyndar víðar við sögu í verkum Ragnars.
Hvað það varðar má fyrst staldra við dálæti höfundar á hringformi. Hringur felur í sér hvort tveggja kyrrstöðu og ferðalag. Haldið er af stað í þeirri fullvissu að endað sé á sama stað og ferðalagið hófst, því er merking hringsins ekki fólgin í áfangastaðnum heldur í ferðalaginu sjálfu: ekkert hefur gerst / allt hefur gerst. Ort er um hringrásina í tveimur myndljóðum bókarinnar „Munurinn á vegi og hringvegi“ og „Tilbrigði: Opinn hugur“ sem fylgja hvert eftir öðru. Í fyrra ljóðinu myndar ljóðið hring réttsælis og rangsælis á myndfletinum, um hugsanir sögumanns sem enda alltaf á sama stað og þær byrja. Í því næsta má segja að hringurinn sé opinn í óendanlegum spíral. Hringurinn lokast ekki heldur endar í nokkurs konar óreiðu eða svartholi á myndfletinum. Þessi ljóð kallast síðan á við ljóðið „Gamla gengið“ um áhöfnina á strandflutningaskipinu MS Sýsifossi sem leysist upp eftir að strandsiglingar umhverfis landið leggjast af. Þrátt fyrir allt kann að vera hughreystandi að eiga ávallt sama áfangastaðinn í vændum, þótt Sýsifosi gamla hafi verið það nokkur raun að horfa á eftir steini sínum niður fjallið.
Annað rými sem nokkuð kveður að í Til hughreystingar þeim... er hið svokallaða innrými, sem ljóðmælandi útskýrir með dæmi:
Innrými kökunnar er allt það sem ekki er kaka.
Það er að segja negatív afsteypa af köku en einnig
allt hitt innrýmið í heiminum sem er ekki kaka.
Innrýmið er sem sagt það rými sem er ekki.
[...]Til að komast inn í innrýmið má fara um hvaða
göt sem sjáanleg eru í nærumhverfinu: Niðurföll,
innstungur, augu og sólir ...
Ef þetta er sett í samhengi við það sem áður hefur verið sagt um fjarveru og frásagnareyður í skáldskap, bæði í Bréfi frá Bútan og Til hughreystingar þeim... mætti spyrja hvort innrými ljóðsins væri „allt það sem ekki er ljóð“? Ef til vill er innangengt í heim skáldskaparins í gegnum götin sem eru hið ósagða, það sem gefið er í skyn en ekki sagt berum orðum. Lesendur geta þá lagt á djúpið, skriðið undir „það sem er undir heimsefninu“ svo notuð séu orð ljóðmælanda í sama ljóði, og gleymt sér um hríð.
Í þessu er einnig fólgin sú hugmynd að ekki sé hægt að aðskilja texta frá formi sínu, innrýmið frá kökunni. Eitt ríkt einkenni á höfundarverki Ragnars Helga, sem sömuleiðis má telja dæmigert fyrir mörg skáld sem kenna má við póstmóderníska stefnu, er að hann leitast við að afbyggja þá tvíhyggju sem skilur að efni og anda, form og innihald, og leiða í ljós að skil þeirra eru í raun tilbúningur. Þetta tekst vel upp í nokkrum ljóðum bókarinnar sem hagnýta sér þekkt lögmál úr skammta- og eðlisfræði, t.d. í ljóðinu „Tregalögmálið“
Ef þú sendir hlut út í geiminn
eftir stöðugri stefnu
í heimi án viðnáms og þyngdarkrafta
mun hann halda stefnu sinni og hraða
að eilífunema hann rekist á annan hlut.
Á því eru um helmingslíkur
(‒ þó það)
(‒ þó ekki meira)
Myndmálið hér er ósköp hversdagslegt og blátt áfram. En hvað segir það um skil skáldskapar og þess sem við köllum raunveruleika að til þess að skilja grundvallarlögmál alheimsins í verki þurfi að ímynda sér annan heim, án viðnáms og þyngdarkrafta? Heimasköpun er einmitt viðfangsefni skáldskaparins og skilin eru því kannski í reynd ekki svo skörp.
*
„Persónulega set ég stórt spurningamerki við þetta sem hann kallar raunveruleika“ (164). Svo mælir Satýrinn, vinur Ragnars í sögunni „Ragnar, vinir hans og ég“, í Handbók um minni og gleymsku frá 2017. Bókin inniheldur safn smásagna sem sumar hverjar birtust í ritröðinni 1005. Sögurnar vinna áfram með ýmis þemu sem finna má í fyrri tveimur bókunum. Titillinn gefur ágæta vísbendingu um þær vangaveltur sem margar sögurnar bjóða upp á (minni og gleymska), en þó er unnið með ýmsar aðrir hugmyndir t.a.m. um eðli skáldskapar, tilurð frásagnar, hlutverk sögumanns o.fl. sem allt eru skyld efni og þau sem fjallað er um í Tveimur leikþáttum frá 2019 sem vikið verður að síðar.
Sögurnar í smásagnasafninu eru fjölbreyttar og einkennast margar af mikilli frásagnargleði. Í „Dramatúrg hversdagsins“ er sagt á skemmtilegan hátt frá manni sem leikstýrir lífi sínu með kostulegum afleiðingum, og óttast það eitt að honum sjálfum sé leikstýrt af einhverjum öðrum. Ein sterkasta saga bókarinnar er „Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kynverund drengsins“. Í henni bregður líka fyrir þema sem kemur víða við í höfundarverki Ragnars, að fjallað sé um mörk ímyndunar og veruleika og þannig lagt út af tilvitnaðri fullyrðingu Satýrsins hér að ofan. Sagan hefst þó á hugleiðingu um vitneskju:
Við vitum ýmislegt sem bónahjónin á Hóli vissu ekki. Sumt vissu þau hins vegar en við ekki. Annað vissu bæði þau og við. Til þess síðastnefnda flokkast þetta: Það gerðist dag einn að komið var nýtt ár og þá var það ár nútíminn, þótt númer þess væri það sama og Orwell hafði valið framtíðinni tæpum fjörutíu árum fyrr. Það ár var drengur úr Reykjavík sendur í sveit á Suðurlandi. Hann var nokkuð dulur, fannst hjónunum á Hóli, og margt í fari hans var þeim hálfgerð ráðgáta. (47)
Alvitur sögumaðurinn er ákaflega áberandi í sögunni og meðvitað er leikið á samspil þess sem sögupersónur vita andspænis vitneskju lesenda og sögumanns. Kjarni sögunnar er þó ímyndunarafl drengsins úr Reykjavík því hann býr yfir þeim eiginleika að geta myndskreytt hugsanir sínar í „stíl fínlegra blýantsteikninga, sem voru skyggðar með daufum vatnslitum“ (48‒9). Ímyndunarafli hans vex ásmegin eftir því sem líður á söguna, og eftir að hann sér heimsendakvikmynd í bíó veit hann það sem hjónunum á Hóli og lesendum er hulið, að heimsendir er á næsta leiti. Þegar hann í lok sögunnar sér kjarnorkusvepp rísa yfir herstöðinni á Keflavíkurflugvelli „vita hjónin ekki heldur, að sveppurinn er fínleg blýantsteikning, skyggð með daufum vatnslitum“. Hér verður endurvarp á ímyndunarafli drengsins í veruleikann, ef veruleika skyldi kalla, og þó svo að við vitum „ýmislegt sem bóndahjónin á Hóli vissu ekki“ eru lesendur ekki fremur en þau nær um það sem hefur gerst. Drengurinn veit það hins vegar en vitneskja hans er okkur hulin og verður því líf hans sjálfstætt í sögunni og utan seilingar lesenda. Sögunni tekst því að kafa ótrúlega djúpt í fáum orðum svo lesandinn brýtur hugann um margvíslega túlkunarmöguleika.
Sögumenn smásagnanna gerast ágengir við lesendur í fleiri sögum, hér má nefna síðustu söguna „Í kerru“. Eins og í „Fundi útvarpsráðs“ er enn skrifað í annarri persónu og lesendum boðið að samsvara sig sögumannsröddinni: við erum stödd í kerru sem dráttarvél dregur í átt að Hóli og líðum áfram með sögumanni. Hér má því spyrja hvort lesendur séu komnir inn í huga drengsins úr „Fundi útvarpsráðs“. Þeirri spurningu er ekki svarað, en svona smávægileg athugasemd sögumanns er gott dæmi um það sem Ragnar gerir víða svo vel í verkum sínum, skýtur inn óvæntum vísbendingum hér og þar sem lesendur þurfa að rekja, þannig að þær merkingar sem þeir hafa lagt í fyrri sögur verða í sífelldri endurskoðun. En kerran líður áfram og lesendur með, allt þar til sögumanni þóknast að sýna vald sitt og leika Guð sem kallar lesendur í og úr sögum að vild: „[þú] ferð að hugsa og manst um leið allt í einu hver og hvar þú ert ‒ rétt eins og maður sem lýkur við að lesa bók“. Vald sögumanns er því mikið, og ekki er farið sparlega með það í sögunum í Handbók um minni og gleymsku. Lesendur geta þó fyrirgefið sögumönnunum ýmislegt meðan þeir skilja nokkuð eftir sig í hugskotum þeirra.
*
Bókasafn föður míns (2018) sker sig að nokkru leyti frá öðrum bókum í höfundaverki Ragnars að því leyti að Ragnar sjálfur stendur nærri henni sem sögumaður en annars staðar. Verkið er enda sjálfsævisögulegt, þótt vissulega þurfi að stíga varlega til jarðar í kringum það hugtak. Þegar allt kemur til alls má þó færa rök fyrir því að fleira sé líkt en ólíkt með öðrum bókum höfundar. Fyrir það fyrsta byggir bókin ekki á samfelldri atburðarás heldur líður áfram í hugleiðingum. Þessar hugleiðingar birtast sem endurminningar og frásagnir sem skjóta upp kollinum í höfði sögumanns meðan hann grisjar stórt bókasafn föður síns sem er fallinn frá. Endurminningarnar tengjast gjarnan sambandi sögumanns við föður sinn og má segja að bókin fjalli öðrum þræði um þetta samband. Bókin er persónuleg ekki bara í ljósi þess að hún er sögð í fyrstu persónu heldur líka bókstaflegum, þar sem höfundur velur að myndskreyta frásögnina með ljósmyndum úr fjölskyldualbúmum.
Hins vegar er umfjöllun bókarinnar um bækur almennt, eðli þeirra og stöðu í samtímanum ekki fyrirferðarminni og hlýtur undirtitill bókarinnar, sálumessa, að vísa að nokkru leyti til þess þar sem sögumaður er býsna svartsýnn á framtíð bókarinnar. Hér má staldra við margar hugleiðingar, en ein þeirra skýtur reglulega upp kollinum og lýtur að eðli bókarinnar sem hvort tveggja form og efni:
Mig grunar að lengi vel hafi Íslendingar séð það sem kalla mætti endanleg verðmæti í bókum. Mig grunar meira að segja að fram eftir 20. öldinni hafi margir ekki gert strangan greinarmun á vélbúnaði og hugbúnaði bókarinnar, ef svo má segja, á formi og innihaldi. Efni bókarinnar. Orðin inni í henni urðu ekki aðskilin frá bókinni sem hlut, efni í þrívíðu rúmi.
[...]
Kannski er greinarmunurinn á vélbúnaði og hugbúnaði, sem nú um stundir er ígildi þess sem fyrritíðar fólk sá sem anda annarsvegar og efni hinsvegar — kannski er þessi greinarmunur, þetta hugsunarverkfæri tölvualdarinnar — ein orsök þess að dagar bókarinnar sem hlutar eru taldir. Hugbúnaðurinn — textinn sjálfur — mun líklega ekki gufa upp í einni svipan. Vélbúnaðurinn, bókin sjálf, er hins vegar úr takti við samtíma sinn. Hún mun hverfa fyrst. (65‒66)
Þessi umræða er áhugaverð m.a. fyrir þær sakir hvað höfundur leggur mikla vinnu í eigin bækur, ekki bara innihald heldur einnig form. Bækur Ragnars eru ávallt eigulegir gripir og hönnun þeirra er ómissandi hluti af verkunum. Sú staðreynd afbyggir þá hugmyndina um skil forms og innihalds, efnis og anda sem er svo ríkjandi í hugsun samtíðarinnar, og því er áfram leikið með hugmyndir sem m.a. voru settar fram í ljóðabókinni Til hughreystingar þeim... sem áður hefur verið fjallað um.
Annað mikilvægt atriði sem tengir Bókasafn föður míns við önnur verk höfundar eru þau umfangsmiklu textatengsl sem í henni er að finna, en textinn er fleygaður með tilvitnunum í ýmis verk sem verða á vegi sögumanns við grisjun bókasafnsins. Þetta eru ekki ósvipuð vinnubrögð og voru viðhöfð í Ljóðum daganna þar sem öllum þeim textabrotum sem raðað var saman í kringum hvert ljóð höfundar dýpkuðu merkingu þeirra á vissan hátt. Eins og þar eru textabrotin í Bókasafni föður míns afar fjölbreytt. Mikið kveður að efni úr þjóðlegum fróðleik en einnig vitnar Ragnar í eigin skáldverk og heldur þannig þræði höfundaverks síns óslitnum. Þessar tilvitnanir eru yfirleitt vel valdar og kallast á við hugleiðingar sögumanns hverju sinni, stundum er eins og hugsanir sögumanns komist á hnitmiðaðra form í tilvitnunum en annars staðar fær efnið víðari skírskotanir út fyrir pælingar sögumanns með notkun þessara tilvitnana.
*
Tveir leikþættir (2019) er nýjasta verk Ragnars Helga þegar þetta er ritað. Það var þó ekki við því að búast að þetta yrðu hefðbundnir leikþættir, enda er lýsing þeirra í samræmi við þá leiki með form sem höfundur hefur áður iðkað í fyrri verkum. Leikþættirnir hefjast í raun á núllta þætti, innleiðslu, sem er skrifaður fyrir einn leikara og eitt leikhús. Fyrri þáttur er svo skrifaður fyrir tvær raddir en hvorki svið né áhorfendur á meðan að seinni þáttur, ærslaleikur, er skrifaður „fyrir marga leikara, lítið félagsheimili úti á landi, stór leiksvið og fjölda áhorfenda“.
Núllta þáttinn, innleiðsluna, mætti kalla há-póstmódernískan. Innleiðslan gerist í ákveðnu limbói, sviðslýsingin er einföld: „leikhús, dagur eða nótt“ og sviðstjórinn er „karlmaður eða kona. Enginn veit hve gamall eða gömul hún er“. Hér standa lesendur sem sagt á milli tveggja heima, dags og nætur eða svefns og vöku andspænis óræðum sögumanni, sviðstjóranum. Sviðstjórinn ávarpar áhorfendur, eða lesandann, í annarri persónu:
Verið velkomin og hjartanlega. Hver gestur hér í salnum – og þá á ég við þig, einmitt ÞIG sem þarna situr – þú ert ekki viðskiptamaður hér heldur persónulegur gestur – nákominn vinur og hjartans innsta viðfang – hvers einasta leikara og starfsmanns hér í húsinu! (7)
Þessi inngangur, þetta boð sögumanns til lesanda um hlutdeild í verkinu og sú sjálfsmeðvitund sögumanns og skáldskaparins um sjálfan sig sem það felur í sér, minnir nokkuð á verk ítalsks skáldbróður Ragnars, Italo Calvino, sem hefur skáldsögu sína Ef að vetrarnóttu ferðarlangur (1979) á þessum orðum:
Þú ert að hefja lestur á nýrri bók, Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino. Slakaðu á. Hreinsaðu hugann, losaðu þig við allar aðrar hugsanir. (7)[i]
Verk Calvinos er í grunninn saga lesanda að lesa bók, og vangaveltur um vald og valdleysi sögumanns og lesenda í hringiðu skáldskaparins. Slíkar hugmyndir er sömuleiðis að finna í Tveimur leikþáttum. Ef haldið er lítið eitt áfram með innleiðslu Tveggja leikþátta þá leggur sögumaður hart að lesendum að treysta sér, sleppa takinu, gefa sig á vald skáldskaparins og reyna ekki að stjórna honum. Spurningin er hins vegar hvort honum sé treystandi, eru lesendur viljugir til þess að sleppa takinu? Ef til vill eiga þeir engra kosta völ, eða eins og sögumaður orðar það:
Tvennu verður þú að treysta, kæri vinur/elskaða vinkona. Í fyrsta lagi: Þetta er allt í alvöru, því án hennar gerist ekki neitt. Í öðru lagi: Allur þessi tilbúningur, sem þó er ekki tilbúinn, hann snýst um þig einan/þig eina og engan/enga aðra/ annan. (12)
Þessar línur orða ákaflega vel mótsagnakennt hlutskipti lesenda í skáldskap: þeir vita að heimurinn sem þeir festast í við lestur er óraunverulegur en verða að trúa á hann í stundarkorn ef hann á að hrífa. Heimurinn er tilbúinn, en þó ekki.
Að innleiðslu lokinni, þegar lesendur eru farnir að treysta sögumanni (eða ekki), tekur fyrri leikþátturinn við: „Hôtel Endormi eða Les Nuits americaines“. Þar er tekinn upp þráður sem hægt er að rekja frá öðrum verkum höfundar sem lýtur að svefni, draumum og ástandi sem er bæði og, eins konar fjarvera og vera á sama tíma. „Hvers vegna dissum við eitt vitundarformið svona rosalega? Svefn, draumar, af hverju látum við eins og það sé eitthvað ómerkilegra en hitt, þ.e.a.s. það að vera vakandi“ (Bréf frá Bútan, 29). Svo kemst sögumaður að orði í Bréfi frá Bútan. Þetta er viðhorf sem sannarlega er við lýði á svefnhótelinu Hôtel Endormi og annað dæmi um hvernig verk Ragnars tengjast á þvers og kruss eins og áður hefur verið minnst á.
Að tékka inn á Hôtel Endormi er þriðja leiðin, ekki líf, ekki dauði heldur limbó: „En svefninn ... hann er þarna á milli hinna tveggja. Hann er hvíld; hlé; dráttur; frí – frí frá sjálfum okkur“ (38). Bygging leikþáttarins er einföld, kona hringir á hótelið til að spyrjast fyrir um afdrif eiginmanns síns sem líklega er þar í fastasvefni. Hún á í kjölfarið samtal við hóteleigandann sem útlistar heimspeki hótelsins meðan hann þæfir málið um eiginmann hennar. Eins og fleiri verk Ragnars er leikþátturinn ekki borinn uppi af umfangsmikilli atburðarrás heldur er fremur staldrað við ákveðnar hugmyndir sem velt er vöngum yfir. Stíll þáttarins er ákaflega lipur og leikandi svo hann verður afar ánægjulegur aflestrar. Ef til vill hefði þó hentað betur að gefa hann út stakan þar sem samfella hans við innleiðsluna (núllta þátt) og síðari leikþáttinn er ekki fyllilega skýr.
Annar leikþátturinn kallast aftur á móti vel á við innleiðsluna sem fjallað var um að framan og þær hugmyndir sem þar er að finna. Áfram er spunnið með hlutskipti sögumanns og lesenda og fremur er aukið við þær pælingar en dregið úr. Fyrstu tvær senurnar gerast á Íslandi árið 1940, þar sem þrír fangar eru á flótta. Þeir eru hlekkjaðir saman á höndum og fótum og skakklappast áfram þar til þeir hitta blindan smiðjueiganda, Sindra, og eygja þá von um að losna úr hlekkjunum. Þessar fyrstu tvær senur leikþáttarins minna mjög á eftirminnilega kvikmynd Coen-bræðra, O Brother, Where Art Thou? Samlíkingin er ekki úr lausu lofti gripin eins og koma mun í ljós. Kvikmyndin byggir á Ódysseifskviðu sem segja má að sé hin erkitýpíska hringferð; Ódysseifur fer að heiman frá Íþöku og öll kviðan fjallar um ferðalag hans aftur heim. Hér sést þá aftur hve mjög hringformið er höfundi hugleikið, sem áður hefur verið fjallað um í samhengi Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum.
Það kemur til með að skipta máli í þriðju senu leikþáttarins sem virðist þó fyrst ekki tengjast fyrri tveimur senum á nokkurn hátt. Þar segir frá fjölskylduerjum á heimili ritstjóra nokkurs. Samræður persóna eru þar ansi uppskrúfaðar og klénar svo senan orkar næstum sem skopstæling á leikriti. Benda má t.d. á einræðu Kurts, sonar ritstjórans, um fjögurra blaða smára sem er alveg út í bláinn og gæti verið klippt úr Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar:
Hvað ætli hafi orðið af smárunum sem uxu í breiðu hérna undir austurveggnum þegar ég var strákur? Ég gleymi þessu kvöldi aldrei. Ég hafði leitað fjögurra laufa smára vikum saman, á hverjum degi, úti um allt. Svo var það eftir kvöldmat, ég sat hérna undir húsveggnum og kippti upp einum smára af tómri rælni. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Fjögur blöð. Alvöru fjögurra laufa smári. (63)
Senan verður þó að algjöru aukaatriði þegar einum leikhúsgestanna í salnum tekur að leiðast þófið, ryðst inn á svið, og tekur leikarana í gíslingu. Gesturinn er óræður: „mín persóna er algert aukaatriði“ (70), en auðvelt er að setja þennan áhorfenda í stól lesanda. Gesturinn telur sig með yfirtökunni vera að afhjúpa leikarana og skáldskap þeirra. Honum þykja þeir bera litla virðingu fyrir áhorfendum sínum með því að pynta persónur sínar og taka lítið tillit til þess að áhorfendur, og þá kannski lesendur sömuleiðis, geta fundið fyrir tilfinningum persóna á eigin skinni. Hins vegar telur hann sig vera að bjarga leikritinu. Hann hefur skýrar meiningar um fagurfræði og telur þátt sinn vera „nefnilega að tryggja að leikritið endi ekki á sama stað og það hófst. Já, það er líklega mitt eina „agenda“ hér í kvöld, ef svo má að orði komast“ (76-7).
Hér er hringformið sem sagt snúið aftur, sem gesturinn hefur mikinn ímugust á. Gestinum tekst að setja allt í upplausn og um stundarsakir er sem honum ætli að vera við ósk sinni, að verkinu ljúki annars staðar en það hófst. En þegar upplausnin stendur sem hæst þá tölta hlekkjuðu fangarnir úr fyrri tveimur senum þáttarins á sviðið og halda áfram ferðalagi sínu. Ódysseifur er kominn aftur heim.
Að lokum má því segja að leikþátturinn velti vöngum yfir valdi og ábyrgð sögumanns sem getur leikið með frásögnina eins og honum sýnist og spilað á lesendur að vild. Lesendur geta reynt að rísa upp gegn ægivaldi sögumanns, eins og leikhúsgesturinn, en lok þáttarins er þó varla hægt að túlka á annan veg en að þeir hafi ekki erindi sem erfiði. Sennilega eiga þeir því þann kost vænstan að treysta sögumönnum um stundarsakir, eins og sagt er frá í innleiðslunni, en vera þó meðvitaðir um hrekkvísi þeirra og þá staðreynd að sögumenn skulda lesendum ekki nokkurn skapaðan hlut.
*
Það sem er einna merkilegast við höfundarverk Ragnars Helga er hvað það er samfellt allt frá fyrstu bók til þeirrar nýjustu. Þær kallast á og nýjar tengingar kvikna í hugum lesenda við hvern einasta lestur. Þannig talar hver einasta bók til fortíðar og framtíðar, hver texti er skrifaður í ljósi þess sem áður hefur verið sagt og þess sem verður sagt. Þannig má vænta þess að hver einasta saga geti breyst og gengið í endurnýjun með hverju verki sem bætist í sarpinn. Vonandi verða þau mikið fleiri.
Árni Davíð Magnússon, nóvember 2020
[i] Calvino, Italo. 1979/2015. Ef að vetrarnóttu ferðalangur. Brynja Cortes Andrésdóttir þýddi. Reykjavík: Ugla.
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Greinar
Um einstök verk
Bókasafn föður míns
Einar Már Jónsson: "Liber scriptus proferetur" (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2019; 80 (2): bls 134-138
Verðlaun
2015 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar
Tilnefningar
2022 - Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun: Laus blöð
2018 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Bókasafn föður míns - sálumessa
2017 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Handbók um minni og gleymsku
2017 – Menningarverðlaun DV: Handbók um minni og gleymsku
Laus blöð : ljóð & textar
Lesa meiraTveir leikþættir: Ærslaleikur og gamanþáttur með harmrænu ívafi þó
Lesa meiraBókasafn föður míns - Sálumessa (samtíningur)
Lesa meiraDenen zum Trost, die sich in ihrer Gegenwart nicht finden können: Lieder und Texte
Lesa meiraLettres du Bhoutan
Lesa meiraLa réunion du Conseil national de l'Audiovisuel du 14 mars 1984 et son influence formatrice sur la sexualité de l'adolescent : et autres histoires
Lesa meiraHandbók um minni og gleymsku
Lesa meiraTil hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar
Lesa meiraBréf frá Bútan
Lesa meira