Lista- og menningarráð Kópavogs efnir í þrettánda sinn til árlegrar ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina en skilafrestur rennur út 21. desember. Veitt verða vegleg verðlaun og fær verðlaunaskáldið auk þess til varðveislu, í eitt ár, göngustaf áletraðan með nafni sínu. Handhafi hans nú er Magnús Sigurðsson skáld fyrir ljóð sitt „Tungsljós“.
Greint verður frá niðurstöðum samkeppninnar og verðlaun veitt á afmælisdegi Jóns úr Vör 21. janúar 2014. Jón úr Vör bjó nánast allan sinn starfsaldur í Kópavogi en tilgangur keppninnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.
Í dómnefnd eru Jón Yngvi Jóhannsson, Sindri Freysson og Gunnþórunn Guðmundsdóttir.
Ljóðum skal skilað með dulnefni. Nafn, heimilisfang og símanúmer skáldsins skal fylgja með í lokuðu umslagi, sem auðkennt er með sama dulnefni. Ljóðin mega ekki hafa birst áður.
Utanáskrift er:
Ljóðstafur Jóns úr Vör menningar- og þróunardeild Kópavogs Fannborg 2 200 Kópavogur.