Beint í efni

Ljósmóðirin

Ljósmóðirin
Höfundur
Eyrún Ingadóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga sem kom út fyrir síðustu jól og segir sögu Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka á árunum í kringum aldamótin 1900. Höfundur sögunnar, Eyrún Ingadóttir, er sagnfræðingur að mennt og hefur áður skrifað ævisögur og önnur rit um sagnfræðileg efni, þar á meðal Að Laugarvatni í ljúfum draumi (1995) sem rekur sögu Húsmæðraskólans á Suðurlandi. Ljósmóðirin er aftur á móti fyrsta sögulega skáldsaga höfundar og ljóst er að mikil heimildavinna og rannsóknir liggja að baki söguefninu sem Eyrún fléttar svo inn í skáldskaparlegt samhengi. Sagan rekur því ekki aðeins sögu Þórdísar ljósmóður heldur gefur hún sannfærandi mynd af því hvernig íslenskt sveitasamfélag gæti hugsanlega hafa verið fyrir um hundrað árum.

Saga Þórdísar er merkileg fyrir margar sakir. Hún geymir frásagnir af fæðingum við erfið skilyrði og krefjandi hlutverk ljósmóðurinnar við þær aðstæður en einnig segir hún af baráttu hugaðrar og sjálfstæðrar konu við kúgun, valdníðslu og óréttlæti. Þórdísi má hiklaust kalla kvenskörung, hún er ákveðin, hvatvís og lætur í sér heyra ef henni fannst brotið á sér eða sínum nánustu. Hún er fædd í Borgarfirði árið 1853 en flytur á Eyrarbakka og starfar þar sem ljósmóðir. Hún giftist tvisvar, verður ekkja í fyrra skiptið en skilur í það seinna, og eignast aðeins eitt barn sem læst í fæðingu en elur upp fósturdóttur sína, Ágústu. Inn í söguna fléttast svo frásagnir af harðri lífsbaráttu í fiskiþorpunum Stokkseyri og Eyrarbakka, sögur af fátækt, sjómennsku og drykkjulátum sem Þórdís, ásamt félögum sínum í Góðtemplarareglunni, reynir að uppræta, baráttu kvenna fyrir réttindum og starfsemi kvenfélaga. Ekki síst áhugaverð en átakanleg er saga sem liggur að baki fangelsinu Litla-Hrauni sem upphaflega átti að vera spítali og þjóna íbúum Suðurlands. Áhugamenn um hvers kyns sagnfræðilegan og þjóðlegan fróðleik ættu því að taka Ljósmóðurinni fagnandi. 

Eins og fyrr segir ber Ljósmóðirin undirtitilinn söguleg skáldsaga og er það í fyrsta skipti sem höfundur tekst á við það óræða og flókna form. Sögulega skáldsagan er form sem er afar áhugavert fyrir þær sakir að í henni eru könnuð mörk skáldskapar og sagnfræði og  hún blandar saman frásögnum sem byggja á sagnfræðilegum veruleika og sviðsettum hugmyndum um hvernig sá veruleiki gæti hugsanlega hafa litið út. Þessi frjóu mörk sögulegu skáldsögunnar eru þó ekki sérstaklega könnuð í Ljósmóðurinni og því verður frásögnin fyrir vikið heldur einföld. Ég saknaði þess sérstaklega að ekki skuli reynt að varpa ljósi á ritferlið með einhverjum hætti, til að mynda í formála eða eftirmála, eða í gegnum sjálfsvísanir í textanum – greint frá því hvernig höfundur vinnur söguefnið úr heimildum og hvaðan heimildirnar koma. Þá finnst mér einnig mjög mikilvægt að sögulega skáldsagan birti ákveðna meðvitund fyrir formi sínu og að söguhöfundur geri grein fyrir stöðu sinni gagnvart frásögninni. Því þrátt fyrir að byggja á sagnfræðilegum heimildum er framsetning frásagnarinnar ávallt lituð af þeim sem setur hana saman. Í viðtali við Víðsjá á RÚV í lok október síðastliðinn sagði Eyrún að ritstjórar hennar hafi ráðið henni frá því að skrifa eftirmála þar sem hún gerði grein fyrir „lygum“ sínum, þ.e. hvað sé byggt á „staðreyndum“ og hvað sé „spuni“ höfundar, og er ég þeim algjörlega sammála: orðið „skáldsaga“ á bókarkápu kemur í veg fyrir að þess þurfi. En skýrari afstaða höfundar gagnvart efni sögunnar, til dæmis í gegnum ákveðinn frásagnarramma, hefði ef til vill gefið henni meiri dýpt. Við lestur sögunnar verður það einnig ljóst að hér er það sagnfræðin sem hefur yfirhöndina og að skáldskapurinn lýtur í lægra haldi því frásögnin verður oft á tíðum þurr og textinn minnir stundum á sagnfræðilegan skjalatexta. Það kemur til dæmis mjög bersýnilega fram í þeim köflum sem rekja dómsmál Þórdísar og baráttu hennar við yfirvaldið á Eyrarbakka.

Flakkað er fram og aftur í tíma með mjög skipulegum hætti. Sagan hefst á frásögn af jarðarför Þórdísar árið 1930 en á eftir skiptast á kaflar sem fylgja aðalpersónunni síðasta æviárið 1929, og fyrstu ár hennar á Eyrabakka um 1886. Stundum er sagt frá sömu atriðum oftar en einu sinni, fyrst í gegnum endurlit í köflunum um Þórdísi á efri árum en svo aftur í beinni frásögn í köflunum um fyrri árin. Þessi háttur dregur oft úr spennu og áhrifum atburðanna sem sagt er frá og stundum fékk ég á tilfinninguna að eitthvað hefði jafnvel misfarist í yfirlestri. Hér hefði rammafrásögn getað sýnt hvernig upplifun af tilteknum atburði breytist með því að vera skoðaður á ólíkum tímum og hvernig upplifanir eða gjörðir Þórdísar öðlast ef til vill aðra merkingu í endurliti á efri árum. 

Það fer því meira fyrir sagnfræði í sögunni um ljósmóðurina Þórdísi Símonardóttur en skáldskapnum. Fyrir áhugamann um form sögulegu skáldsögunnar eru það viss vonbrigði en miklar umræður um eðli og form skáldskapar í sagnfræði og sagnfræði í skáldskap hafa átt sér stað undanfarið í íslensku bókmenntalífi, til að mynda um sögu Hallgríms Helgasonar Konan við 1000̊ (2011). Miðað við þá stefnu sem Hallgrímur tekur í Konunni er Ljósmóðirin afar „þæg“ bók sem fylgir samviskusamlega sagnfræðilegum heimildum og lætur skáldskap ekki hlaupa með sig í gönur. En það er um leið hennar helsti galli; frjórri persónusköpun hefði til að mynda tengt lesandann betur við aðalpersónuna Þórdísi jafnt og aðrar persónur.

Hins vegar er afar forvitnilegt og á vissan hátt mikilvægt að fá að kynnast sögulegu persónunni Þórdísi ljósmóður og áhrifamiklu lífshlaupi hennar. Aðalpersónan, starfsvettvangur hennar og barátta við kerfið eru þungamiðja verksins og langtum áhugaverðasti þáttur þess. Ljósmóðirin er óður til ljósmóðurstarfsins en um leið til sterkra kvenna fyrri ára sem létu í sér heyra og börðust fyrir réttinum að hafa skoðanir. Ég vona að Eyrún Ingadóttir haldi áfram að miðla lesendum af rýni sinni í kvennasöguna um leið og hún beinir athyglinni að alþýðumenningunni í sögu þjóðarinnar. Þá vona ég einnig að hún takist af meiri dirfsku á við hið margræða form sögulegu skáldsögunnar.

Vera Knútsdóttir, febrúar 2013