Söguna um manninn sem segir svo kraftmiklar sögur að lamaðir fá mátt en hlýtur ekkert nema vanþakklæti að launum mætti alveg túlka sem lykilsögu eða jafnvel táknsögu. Það verður þó ekki gert hér. Skáldsaga Guðbergs Bergssonar, Lömuðu kennslukonurnar, segir frá ungum manni sem flytur heim til Íslands að loknu doktorsnámi á Ítalíu. Fljótlega kemur í ljós að fagurfræðileg menntun hans er gagnslaus og hann fær enga vinnu við hæfi. Það verður til þess að hann sækir um starf við heimilishjálp og eftir að hafa barist um stund gegn kynjafordómum er hann að lokum ráðinn til tveggja lamaðra kennslukvenna, tvíburasystra í yngri kantinum, sem nýta hann ekki til þrifa heldur sagnamennsku. Maðurinn, sem er alls óvanur því að segja sögur, verður því að taka sig saman í andlitinu, bergja á sagnamennskubrunni þeim sem innbyggður er í landann allt frá fornöld, og segja þeim svo kjarnmiklar sögur að limir þeirra öðlist mátt á ný. Guðbergur leikur sér á skemmtilegan hátt með þetta sagnamennskutema, vísanirnar til Íslendingsagna og kraftaskálda eru glúrnar, hæfilega írónískar án þess þó að vera hreint háð og lýsingarnar á því hvernig ungi maðurinn fyllist sagnaanda á köflum bráðgóðar. Sömuleiðis er umræðan um textamömmurnar dálítið skondin, en þar er hlutverk ritstjóra/yfirlesara tekið fyrir.
Aðrir þættir sögunnar eru þó síður heppnaðir, umfjöllunin um menntunarskort þjóðarinnar samhliða því að skotið er föstum skotum á upphafna menntun sögumanns er óttalega þreytt, og hverfist á stundum í nöldur. Sama nöldurtón er að finna í samfélagssýninni, sérstaklega þegar kemur að kvenréttindum, þó það hafi á stundum verið fyndið að lesa lýsingar á þeim fordómum sem karlkyns skúra verður fyrir. Hinn líkamlegi hluti sem ávalt einkennir verk Guðbergs er einnig fremur dauflegur, sem kemur best fram í lýsingunum á líkömum lömuðu kennslukvennanna, en þær eru hálfkaraðar eitthvað. Á stundum er hægt að gleðja sig yfir ‘vafasömum’ (en alls ekki hispurslausum) kynlífssögum sögumanns þó mér hafi leiðst nokkuð þófið í kringum tösku sögumanns, en þar geymir hann handklæði sem breytt var undir athafnir hans með næturverði nokkrum og sóttu kettir og hundar ákaft í töskuna. Mögulega leynist í töskunni einhver æðri sannleikur, eða jafnvel þveröfugt einhver ákaflega óæðri, en þó mikilvægur. En ef svo er, var mér hann með öllu hulinn.
Hápunkturinn í líkamslýsingum fannst mér vera undarlegur fótur skrifstofukonu heimilishjálparinnar, en hann er ber og “tærnar minntu á fingur sem höfðu verið höggnir af við næstfremsta köggul og stúfarnir breyst í hnúða.” (38) Það er í svona smáatriðum sem Guðbergi tekst best upp í þessari sögu, með einfaldri lýsingu skapar hann í senn tilfinningu óhugnaðar og einkennilegs annarleika.
Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2005