Beint í efni

Mannlíf í myndum

Nú er hægt að kynna sér safnkost Ljósmyndasafns Reykjavíkur með nýstárlegum hætti á stafrænu ljósmyndasýningunni Mannlíf í myndum. Um er að ræða metnaðarfulla framtíðarsýn þar sem skoða má myndir úr safneign safnsins í sýndarverulegum salarkynnum. „Ganga um stafrænu sýninguna má líkja við göngu um miðbæinn,“ segir í tilkynningu Ljósmyndasafns Reykjavíkur, „þar sem ljósmyndir og textar  frá árunum 1960-1980 vísa í fyrra útlit og andrúmsloft miðbæjarins. Ljósmyndir sýningarinnar sýna mannlíf í miðbæ Reykjavíkur, með svipmyndum af fólki, stöðum og atburðum.“ Íslenskar bókmenntir koma við sögu í sýningunni, en samhliða ljósmyndunum eru settir fram bókmenntatextar frá 1960-1980, sem eru ýmist úr smásögum, skáldsögum eða sönglagatextum komnir. Textarnir tengjast myndefni sýningarinnar vegna frásagna tengdum viðkomandi stað, fólki eða atburðum, en einnig vegna andrúmslofts eða hugmynda sem koma fram í þeim. Bókmenntatextarnir eru eftir Svövu Jakobsdóttur, Pétur Gunnarsson, Indriða G. Þorsteinsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson. Lagatextarnir eru eftir Megas, Jónas Árnason, Vilhjálm frá Skáholti, Ólaf Gauk Þórhallsson, Þorstein Eggertsson og Gylfa Ægisson. Sýningin er unnin af Brynju Sveinsdóttur sem lokaverkefni í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og Guðrúnu Jónsdóttur sem vann stafrænu sýninguna sem lokaverkefni í Margmiðlun við Tækniskólann. Frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast hér.