Æviágrip
Margrét Örnólfsdóttir er fædd í Reykjavík 21. nóvember 1967. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1988 og lauk 8. stigi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1994.
Margrét var hljómborðsleikari Sykurmolanna frá 1988 til 1992. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt sem tónlistarmaður, samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir og sent frá sér hljómplötur fyrir börn. Þá hefur hún unnið við þýðingar, texta- og hugmyndavinnslu í auglýsingageiranum, verið leiðbeinandi á listnámskeiðum fyrir börn og fullorðna, og haft umsjá með útvarps- og sjónvarpsþáttum, þar helst barnatíma Stöðvar tvö sem nefndist Himinn og jörð og allt þar á milli.
Margrét skrifaði handritið að dans- og söngvamyndinni Regína (2001), auk þess að semja tónlist við myndina, og hefur síðan starfað við handritagerð. Þar hefur hún skrifað handrit meðal annars fyrir þættina Stelpurnar, Svarta engla, Rétt og Pressu, auk Áramótaskaupsins 2006. Margrét sat í stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda á árunum 2005 til 2007.
Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;), fyrsta skáldsaga Margrétar fyrir börn, kom út árið 2009. Ári síðar fylgdi framhaldið, Aþena – hvað er málið með Haítí, og árið 2011 sendi hún frá sér bókina Með heiminn í vasanum. Fyrir bækur sínar hefur Margrét hlotið Fjöruverðlaunin og Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi; fyrir Með heiminn í vasanum hlaut hún barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, en bókin er einnig tilnefnd til Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunanna.
Margrét er gift og á fimm börn. Hún býr í Kópavogi.
Forlag: Bjartur.
Frá höfundi
Pistill frá Margréti Örnólfsdóttur
Af hverju í ósköpunum er maður að standa í þessu?! Í hvert skipti sem ég skrifa bók eða kvikmyndahandrit eða leikrit geng ég sömu þrautargönguna. Maður fær hugmynd. Það er ekkert erfitt. Hugmyndir vaxa bókstaflega á trjánum, sumar nýtast og aðrar ekki. Sumar eru alveg frábærar (finnst manni sjálfum að minnsta kosti)! Og þegar það gerist, þegar frábær hugmynd neitar að láta mann í friði, eltir mann á röndum og suðar í hausnum á manni dag og nótt, þá er bara ein leið fær – maður verður að taka hana alvarlega og gera eitthvað úr henni. Og þar með byrja vandræðin. Það er nefnilega alveg hundhelvítierfitt (afsakið orðbragðið) að skrifa heila bók, heilt kvikmyndahandrit eða leikrit. Ég hef aldrei lent í því að vera sett niður í óbyggðum án nauðsynlegra hjálpartækja og sagt að koma mér heim upp á eigin spýtur (sem betur fer!) en ég hugsa að það sé ekkert ósvipað því þegar maður sest niður til þess að skrifa verk. Það eru nokkrir kostir í stöðunni: Maður getur lagst grenjandi niður og gefist upp án þess að reyna. Maður getur lagt af stað og vonað það besta. Eða maður getur stappað í sig stálinu, opnað fyrir adrenalínflæðið, sett öll skilningarvit í botn og ákveðið að komast á leiðarenda hvað sem það kostar. Auðvitað velur maður síðasta kostinn og klárar þetta og þegar upp er staðið, þrátt fyrir andvökunætur og kvíðahnúta og efasemdaköst, er þetta þess virði. Og það er auðvitað ástæðan fyrir því að maður leggur í svaðilförina æ ofan í æ. Ég vildi ekki skipta starfi mínu út fyrir nokkurn skapaðan hlut. Það er bæði rosalega skemmtilegt, spennandi og ánægjulegt. Og svo finnst mér það líka mikilvægt.
Þegar ég var stelpa var ég mikill bókaormur, las allt sem ég komst í, át mig í gegnum fullt af misgóðum bókum sem skildu ekki allar mikið eftir sig en þær bækur er samt líka mikilvægar. Lélegu spennubækurnar og hallærislegu ástarvellurnar og fordómafullu ævintýrabækurnar kenna manni nefnilega líka að meta góðu bækurnar. Þær eru nauðsynlegt viðmið, auk þess sem þær þjálfa mann í lestri. Ef maður les mikið verður lestur eins og hluti af vöðvaminninu, jafn sjálfsögð athöfn og að bursta tennurnar. Jafn mikilvæg líka. En svo eru bækur sem hafa varanleg áhrif á mann, bækur sem hitta mann svo harkalega í hug og hjarta að maður verður aldrei samur eftir að hafa lesið þær. Og það er ROSALEGA mikilvægt. Í mínum uppvexti get ég talið upp margar bækur sem verkuðu svona sterkt á mig: Alfinnur álfakóngur, Bróðir minn Ljónshjarta, Ævisaga Beethovens, Hjalti litli, Salka Valka, Heimsljós, Þrælarnir, Félagi Jesús, Sjáðu sæta naflann minn, Stríð og friður… Ég get haldið lengi áfram. Og ég beið spennt eftir nýjum bókum. Reif þær í mig eins og soltinn ljónsungi og fannst frábært að það væri til fólk sem leggði það á sig að skrifa þær handa mér, ég var þeim óendanlega þakklát. Samt hvarflaði ekki að mér að ég ætti nokkurn tíma eftir að verða rithöfundur sjálf. Ég var sannfærð um að ég væri hvorki nógu djúpvitur né hugmyndarík og fyndin til að geta borið þann virðulega titil.
Ég er reyndar nýbúin að fatta að ég er rithöfundur. Þannig hefur það eiginlega verið með allt hjá mér, það er ekki fyrr en einhver annar segir: Þú ert tónlistarmaður, eða þú ert kvikmyndagerðarmaður, eða (nú síðast) þú ert rithöfundur, að það rennur upp fyrir mér: Já, ég er þetta! Og nú svara ég alveg hiklaust þegar einhver spyr: Ég er rithöfundur.
Auðvitað er fullkomlega rökrétt skýring á því hvers vegna ég er (allt í einu) orðin rithöfundur. Áður en ég byrjaði að skrifa bækur hafði ég í mörg ár skrifað kvikmyndahandrit sem er annað form af því að segja sögu. Og áður en ég fór að skrifa kvikmyndahandrit hafði ég í mörg ár unnið við að skapa tónlist. Sem er enn annað form af því að segja sögu. Ætli ég sé ekki bara haldin þeim ólæknandi sjúkdómi að langa til að segja sögur. Og það vill svo heppilega til að heimurinn fær aldrei nóg af nýjum sögum, það er stöðug eftirspurn. Og þá erum við komin að því mikilvægasta, hvers vegna maður er yfirleitt að standa í þessu – það sem gerir þetta streð þess virði er að ef vel tekst til tekur einhver við sögunni manns og gerir hana að sinni. Sérhver lestur er einstök upplifun og þannig er hægt að segja að bók sem er lesin af þúsund manneskjum sé eins og þúsund bækur. Þess vegna langar mig að nota þetta tækifæri til að þakka lesendum mínum fyrir samstarfið. Rosalega væri annars gaman að vita hvernig hver og einn upplifir það sem maður skrifar! En það getur maður ekki, nema maður hætti að vera maður sjálfur og verði einhver annar.
Margrét Örnólfsdóttir, apríl 2012
Greinar
Um einstök verk
Aþena (ekki höfuðborgin á Grikklandi)
Úlfhildur Dagsdóttir „Fjölskyldumynd“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Aþena: Hvað er málið með Haítí?
Helga Birgisdóttir: „Hvað er málið með menn og guði?“
Spássían, 1. árg., 1. tbl. 2010, bls. 36.
Sigurður Jónsson „Saga um hugsandi fólk“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Með heiminn í vasanum
Guðrún Lára Pétursdóttir: „Með heiminn, lesandann og ofurkrafta í vasanum“ (ritdómur)
Börn og menning, 27. árg. 1. tbl. 2012, s. 33-35
Helga Birgisdóttir „Þrír heimar – hið minnsta“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Um óhóf og barnaþrælkun“
Fréttablaðið, 7. des. 2011. Sjá hér á tímarit.is.
Verðlaun
2017 - Heiðurslistamaður Kópavogs
2017 - Íslensku bjartsýnisverðlaunin
2012 - Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur: Með heiminn í vasanum
2012 - Fjöruverðlaunin: Með heiminn í vasanum
2011 - Vorvindaviðurkenning IBBY: fyrir margþáttað menningarstarf í þágu barna, sérstaklega skáldsögurnar tvær um Aþenu sem komu út árin 2009 og 2010 við góðan orðstír.
2010 - Fjöruverðlaunin: Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi)
Tilnefningar
2019 – Handritaverðlaun Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins: Flateyjargátan
2011 - Vestnorrænu barnabókaverðlaunin: Með heiminn í vasanum
Fangar
Lesa meiraMánasöngvarinn
Lesa meiraAþena – að eilífu, kúmen!
Lesa meiraMeð heiminn í vasanum
Lesa meiraAþena: Hvað er málið með Haítí?
Lesa meiraAþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;)
Lesa meiraRéttur, þáttaröð 1 og 2
Lesa meiraSvartir englar
Lesa meiraSjónvarpsþættir í leikstjórn Óskar Jónassonar.. . Margrét skrifaði handritið ásamt Sigurjóni Kjartanssyni, en það er byggt á skáldsögunum Skítadjobb og Svartir englar eftir Ævar Örn Jósepsson.Galdrabókin
Lesa meira