Beint í efni

Marvel á Borgarbókasafni

Borgarbókasafn Reykjavíkur og Myndlistaskólinn í Reykjavík í samstarfi við Nexus, stóðu í vor fyrir myndasögusamkeppni fyrir fólk á aldrinum 10-20+ ára. Samkeppnin var nú haldin í fimmta sinn og í ár var tekin upp sú nýbreytni að keppa í þremur aldurshópum: 10-12, 13-16 og 17-20+ og eru verðlaun veitt í hverjum aldurshópi. Yfir 50 myndasögur og myndir bárust í samkeppnina. Dómnefnd hefur nú komist að niðurstöðu og valið þrjár bestu sögurnar í hverjum aldursflokki. Auk þess eru veittar sérstakar viðurkenningar. Dómnefndina skipuðu Bjarni Hinriksson myndasöguhöfundur, Inga María Brynjarsdóttir grafískur hönnuður og myndhöfundur og Björn Unnar Valsson bókmenntafræðingur. Sérstakur dómnefndargestur var þýski myndasöguhöfundurinn Dirk Schwieger, sem er gestarithöfundur í Bókmenntaborginni Reykjavík. Sýningin opnar verður opnuð laugardaginn 18. maí kl. 15, á Reykjavíkurtorgi í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15. Hún stendur fram í miðjan júní. Eins og tíðkast hefur er samkeppnin helguð tiltekinni myndasöguhetju en árið 2013 er liðin hálf öld frá því að úrvalshetjuhópar hinnar svokölluðu ‚silfuraldar‘ bandarísku ofurhetjumyndasögunnar birtust fyrst: X-Men og Avengers. Þema keppninnar er því „Marvel“. Facebook viðburð sýningarinnar má finna hér.