Beint í efni

Matur út í mýri

Dagana 15. – 19. september 2012 verður Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin í Reykjavík haldin í Norræna húsinu, en í ár verður sjónum beint að mat og matarmenningu í barnabókmenntum undir yfirskriftinni „Matur út í mýri“. Dagskráin er fjölbreytt og samanstendur af upplestrum höfunda, smiðjum, sýningum og spjalli, auk fræðilegrar dagskrár fyrir fullorðna. Meðal höfunda sem taka þátt í hátíðinni eru Candace Fleming og Eric Rohman frá Bandaríkjunum, Katrine Klinken frá Danmörku, Jutta Bauer frá Þýskalandi, Polly Horvath frá Kanada, Svein Nyhus frá Noregi og íslensku höfundarnir Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Eldjárn og Þórarinn Eldjárn. Þeir fræðimenn sem flytja fyrirlestra og taka þátt í málstofum eru Anna Heiða Pálsdóttir, Ármann Jakobsson og Dagný Kristjánsdóttir frá Íslandi, Kristin Hallberg frá Svíþjóð og Fridunn Tørå Karsrud, Kirsti-Nina Frønæs og Unni Mette Solberg frá Noregi. Formleg dagskrá hefst laugardaginn 15. september með opnun í Norræna húsinu í Reykjavík. Þar verður tilkynnt hvaða höfundar hljóta verðlaun í smásagnasamkeppni sem hátíðin stóð fyrir í samstarfi við Samtök móðurmálskennara. Einnig verður málstofa með rithöfundum sem fjalla um það hlutverk sem matur leikur í verkum þeirra og fer hún fram á ensku. Sunnudagurinn 16. september verður helgaður börnum og fjölskyldum þeirra. Þá verða upplestrar, sýningar og vinnustofur allsráðandi og munu höfundar kynna verk sín og sýna ungum lesendum hvernig má skapa ævintýraheima í máli og myndum. Mánudaginn 17. september verða haldnar málstofur þar sem fræðimenn munu fjalla um mat og matarmenningu í barnabókmenntum. Á dagskrá hátíðarinnar verða einnig tvær myndlistarsýningar. Þann 9. september opnaði í anddyri Norræna hússins sýning á myndum úr barnabókum sem sýna fjölbreytta flóru myndhöfunda og margvísleg efnistök en eiga það sameiginlegt að lýsa mat, matseld, borðhaldi og áti í íslenskum barnabókum. Í aðalsafni Borgarbókasafns við Tryggvagötu verður sýning á myndum þýska rithöfundarins Jutta Bauer úr bókinni „Í skóginum stóð kofi einn“. Opnar hún sunnudaginn 16. september þar sem höfundur mun leiða gesti um sýninguna með dansi og söng. Að hátíðinni standa Borgarbókasafn, Norræna húsið, Rithöfundasamband Íslands, Ibby á Íslandi og Háskóli Íslands og er hún hluti af Heimsbókmenntum á hausti í Bókmenntaborginni Reykjavík. Frekari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér á heimasíðu Mýrarinnar.