Maxímús Músíkús fer á fjöll er fimmta bókin í flokknum um hina ómótstæðilegu músíkmús sem elskar tónlist og býr í gömlum kontrabassa í tónlistarhúsinu Hörpu. Fyrr hafa komið út Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, Maxímús Músíkús kætist í kór og Maxímús Músíkús bjargar ballettinum. En Maxímús er ekki bara sögupersóna í barnabókum – hann er eiginlega sérstakur sendiherra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hörpunnar og hefur kynnt hljóðfæri og tónlist fyrir börnum árum saman með góðum árangri.
Höfundur texta er sem fyrr Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari en myndirnar teiknaði Þórarinn Már Baldursson víóluleikari sem á sér orðið glæsilegan og farsælan feril sem myndskreytir. Þá er ótalin þriðja víddin en það er tónlistin sem er órjúfanlegur þáttur í upplifuninni af Maxímúsi.
Þessi saga af Maxa sker sig frá fyrirrennurum sínum að ýmsu leyti. Bókin var pöntuð af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníhljómsveit Los Angeles og var sagan ásamt tónlist frumflutt þar vorið 2017. Bókin ber þess óneitanlega merki og virðist að mörgu leyti hugsuð sem landkynning frekar en kynning á tónlist eins og fyrri bækurnar. Kápan ýtir undir þetta en hún er ólík fyrri bókunum sem voru hver í sínum lit og sýndu Maxa hlaupandi á nótnastiga. Hér sjáum við Maxa ásamt tveimur öðrum músum úti í íslenskri náttúru. Í bakgrunni gýs eldfjall og að baki eldfjallsins ber jökul við himinn. Þá er tónlistin (samkvæmt umfjöllun aftast í bókinni) syrpa af gömlum þjóðlögum sem og brot úr ýmsum verkum eftir íslensk nútímatónskáld. Nú getur meira en verið að þessi verk séu vel til þess fallin að vekja áhuga ungra hlustenda á tónlist en óneitanlega hljómar þetta líka eins og útpæld landkynning.
Sagan hefst á því að Maxi kynnist tveimur erlendum músum sem fylgja frægum hljómsveitarstjóra þegar hann kemur til landsins til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þeim verður strax vel til vina og Maxi sýnir þeim Hörpuna og útsýnið yfir hafið. Þetta eru ævintýramýs sem hafa ferðast um allan heiminn og þær þyrstir að skoða meira af Íslandi. Í stuttu máli laumast mýsnar í hljóðfæratösku og þaðan í bakpoka leikskólabarns og ferðast uppá jökul. Upphefst þá jarðskjálfti og meðan mýsnar (ásamt leikskólabarninu) fljúga heim í þyrlu byrjar að gjósa og túristamýsnar fá svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð þegar þær sjá eldglæringar gossins og jökulinn í einni og sömu ferðinni. En ekki er allt búið enn því nú liggur leiðin í sumarbústað ömmu og afa og þar er gengið fram á þústir gamals burstabæjar. Amma og afi segja barninu sögur frá lífinu í gamla daga og myndirnar lýsa sögunum til frekari útskýringar. Að endingu komast mýsnar aftur í Hörpu og á síðustu blaðsíðunni ákveður Maxi að slást í för með músunum og erlenda hljómsveitarstjóranum og skoða heiminn.
Fyrri bækurnar um Maxímús hverfðust allar um tónlist – hvort heldur Sinfóníuhljómsveitina sjálfa, ballett, kór eða tónlistarskóla. Höfundar eru hugmyndaríkir og gefa Maxa heilmikið frelsi þrátt fyrir þennan ramma. Í Maxímús Músíkús kætist í kór laumaði músin sér t.d. með á kóramót uppi í sveit og komst í hann krappann í baráttu við heimiliskött á sveitabæ. En hér skortir því miður dálítið þessa tónlistartengingu. Fyrir utan að amma og afi syngja með barnabarninu Hani, krummi, hundur, svín og vögguvísu kemur tónlist ekki mikið við sögu.
En ef lögð er til hliðar sú krafa að tónlist eigi að vera þungamiðjan í bókunum um Maxímús þá er því ekki að neita að margt lukkast vel hér. Sem fyrr er hér að finna dásamlegar teikningar sem ekki bara ríma við textann heldur gefa honum vængi. Þá er söguþráðurinn skemmtilega skrítinn og tekur óvæntar beygjur. Ferðalag músanna hér byggist á því að eiginkona eins hornleikarans í Sinfóníuhljómsveitinni er starfandi gluggaþvottakona í Hörpu sem er svo pöntuð uppá jökul til að síga niður í sprungu og endurheimta búnað vísindamanna. Stórskemmtileg og örlítið skuggaleg mynd sýnir téða gluggaþvottakonu hangandi utan í Hörpu og langt fyrir neðan hana er verið að koma flygli inn í húsið. Þetta dregur athygli lesandans að tónlistarhúsinu á nýjan máta; allir þessir gluggar – hvernig er farið að því að halda þeim hreinum?
Myndirnar af Reykjavík eru sömuleiðis afskaplega skemmtilegar og gaman að sjá teikningar Þórarins af höfninni, útsýninu af brúnni í Hljómskálagarðinum, mannlífinu í miðbænum (með túristum og öllu) og auðvitað landinu sjálfu. Fyrir utan að endurspegla og styðja textann bæta myndirnar heilmiklu við hann – skelfingarsvipurinn á hornleikara-föðurnum þegar fjölskyldan flýgur fram hjá gjósandi eldfjallinu, reipið sem liðast niður einn glervegg Hörpunnar meðan pabbinn talar í símann og nokkrum blaðsíðum síðar skilur lesandinn að efst uppi í reipinu var móðirin að þvo gluggana. Þá eru ótalin öll litlu smáatriðin sem gera það að verkum að í hvert sinn sem bókin er endurlesin má finna eitthvað nýtt og skemmtilegt. Aðeins á einum stað rekast texti og myndir lítillega á en það er þegar segir: „Blær fékk að sitja á háhesti á afa alla leið niður í bústaðinn.“ en myndin sýnir barnið á hestbaki. Slíkum atriðum taka ungir lesendur eftir.
Hinn óvænti endir býður uppá að næstu ævintýri Maxa gerist á erlendri grund og það opnar mögulega fyrir samstarf við erlend tónlistarhús – ég sé strax fyrir mér Maximús Músíkus í óperuhúsinu í Sydney eða Scala á Ítalíu!
Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018