Æviágrip
Mikael Torfason er fæddur 8. ágúst 1974 í Reykjavík. Hann ólst upp á ýmsum stöðum í Reykjavík en dvaldi oftast í sveit á sumrin, lauk grunnskólaprófi frá Vogaskóla 1989 og stundaði nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og fjarnám við Verkmenntaskóla Akureyrar 1995-1997. Auk þess hefur hann sótt ýmis námskeið í handritsgerð á vegum Kvikmyndasjóðs Íslands, Nordisk Film og TV Fond og European Script Fund. Hann hefur unnið að þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi og lengi unnið við ritstjórn. Hann var ritstjóri Fókuss, fylgirits DV, árin 1998-2000; ritstjóri DV árin 2003-6; aðalritstjóri tímaritaútgáfu Birtings árin 2006-7; ritstjóri Fréttatímans árið 2012; og aðalritstjóri fréttasviðs 365 árin 2013-14.
Fyrsta skáldsaga Mikaels, Falskur fugl, kom út 1997 og vakti töluverða athygli. Fjórar skáldsögur hafa fylgt í kjölfarið, síðast Vormenn Íslands (2009). Árið 2015 sendi Mikael frá sér endurminningabókina Týnd í paradís. Hann hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit og auk þess leikstýrt einu þeirra, kvikmyndinni Gemsar (2002). Skáldsaga hans Heimsins heimskasti pabbi (2000) hefur komið út í Finnlandi, Danmörku og Þýskalandi, og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2002. Þá var hann tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Samúel (2002). Einþáttungur Mikaels, Hinn fullkomni maður, var settur upp í Borgarleikhúsinu árið 2002; hann hefur síðan skrifað meira fyrir svið, síðast sviðsuppfærslu Borgarleikhússins á Njálu árið 2016.
Heimasíða Mikaels, mikaeltorfason.com.
Forlag: JPV útgáfa.
Um höfund
Sambandsleysi nútímans. Um verk Mikaels Torfasonar
Nú á síðustu árum hafa afþreyingar- og spennubókmenntir loksins fengið uppreisn æru hér á landi með skrifum höfunda á borð við Árna Þórarinsson, Arnald Indriðason og Stellu Blómkvist. Saga þessarar bókmenntategundar er orðin nokkuð löng. Edgar Allan Poe (1809-1849) er til dæmis talinn faðir leynilögreglusögunnar. Raunar hafa spennusögur verið skrifaðar hér á landi alla tuttugustu öldina, þó svo þær hafi ekki notið mikillar virðingar framan af. Þrátt fyrir það hafa slíkar bókmenntir verið mjög vinsælar. Eftir því sem liðið hefur á sögu þeirra hér og erlendis hafa svo komið fram höfundar sem blanda afþreyingarbókmenntum saman við annars konar bókmenntaform. Rithöfundurinn Paul Auster skrifar ekki afþreyingarbókmenntir, en notar sér einkaspæjaraformið í New York þríleiknum sem samanstendur af bókunum Glerborgin (City of Glass, 1985), Draugar (Ghosts, 1986) og Lokað herbergi (The Locked Room, 1986) sem allar hafa komið í íslenskum þýðingum hjá bókaútgáfunni Bjarti.
Í fyrstu skáldsögu Mikaels Torfasonar, Falskur Fugl (1997) eru einkenni spennusagna til staðar. Aðalpersóna hennar Arnaldur er 16 ára eiturlyfjasali sem smám saman verður ofbeldishneigðari eftir því sem á söguna líður. Hann ber mann og annan, gerir síðan tilraun til manndráps og loks verður hann morðingi. Í lok sögunnar situr hann í fangelsi. Í afþreyingarbókmenntum og -kvikmyndum eru slíkar persónur afar algengar. Þeim er annað hvort fylgt eftir frá sjónarhóli þeirra sjálfra eða þá þeirra sem elta. Í Fölskum Fugli er sjónarhornið hjá Arnaldi sjálfum:
Ég miðaði byssunni á hann. Bróðir Álgeirs nauðgara, lifandi. Af hverju bróðir minn? hugsaði ég með mér og fékk um leið brillíant hugmynd og hætti við að skjóta hann. Ég gekk að peningakassanum og tæmdi hann í vasana. Fann síðan Zippóbensín og úðaði yfir folahelvítið þar sem hann lá og reyndi að ná valdi yfir líkama sínum. Tár byrjuðu að leka úr augunum á mér. Ég grét ekki, tárfelldi bara. Bensínið fór yfir hann allan. Í augun, upp í munninn, yfir öll fötin og í hárið á honum. (149-150)
Í kjölfar þessa kveikir Arnaldur í fórnarlambinu og myndbandasjoppunni sem hann er staddur í. Þegar hitinn er orðinn of mikill forðar hann sér út og stendur þá gengt lögregluher sem bíður hans. Arnaldur reynir að láta lögregluna drepa sig með því að skjóta að henni, en þess í stað er hann handsamaður. Þetta atriði minnir um margt á enda Butch Cassidy and the Sundance Kid (George Roy Hill, 1969) þar sem aðalpersónur þeirrar myndar hafa verið króaðar af, tvær á móti her, en ryðjast samt út skjótandi á óvininn, til þess að deyja í bardaga fremur en að nást. Enda virðist Arnaldur sjá sig í hlutverkum sem hann hefur upplifað á hvíta tjaldinu eða sjónvarpsskjá. Fleiri myndir koma upp í hugann, til dæmis morðóða parið úr Natural Born Killers (Oliver Stone, 1994) þar sem þau ferðast um, stundandi sína uppáhaldsiðju, að drepa fólk sem þeim líkar ekki við. Arnaldur hefur ekkert meiri ástæðu til þess að drepa þetta fórnarlamb en aðalpersónurnar í Natural Born Killers hafa fyrir flestum sínum drápum. Ástæðan virðist eingöngu vera sú að lögreglan er að ná honum og hann hefur engu að tapa lengur. Það að fórnarlambið gerði grín að bróður hans væri varla dauðasök annars.
Næsta skáldsaga Mikaels, Saga af stúlku (1998), ber líka nokkur einkenni afþreyingarbókmennta, þá aðallega leynilögreglu- eða einkaspæjarasagna. Í henni reynir persónan Mikki að komast að því hvað komið hefur fyrir aðalpersónu bókarinnar, Auði Ögn Arnardóttur sem er sautján ára, með því að taka viðtöl við vini hennar og vandamenn.
Þrátt fyrir að Mikael noti sér margt úr formi spennusagna er um að ræða bræðing úr fleiru. Til dæmis er hægt að finna tengingar við kvikmyndina Kids (Larry Clark, 1995) í Fölskum Fugli. Kids fjallar um miðstéttarunglinga sem eiga sér þau áhugamál helst að stunda kynlíf og eiturlyfjaneyslu. Arnaldur gengur fyrir því sama og persónurnar í Kids. Hjá honum snýst allt um dóp, kynlíf og ofbeldi. Í þessum verkum eru unglingar sýndir í öðru ljósi en í flestum unglingamyndum og -bókmenntum. Fyrst við erum að ræða um tengingar á milli Kids og verka Mikaels þá verður að minnast á kvikmynd hans Gemsa (Mikael Torfason, 2002) sem ber nokkur sömu einkenni og sú fyrrnefnda. Báðar hafa nokkur einkenni heimildarmynda, sagan í Gemsum er til dæmis alltaf rofin með viðtölum við persónurnar. Hún tekur yfir einn dag og kvöld þegar persónurnar koma saman í partíi. Viðtölin eru tekin einhvern tímann eftir partíið. Eins og í Fölskum Fugli þá snýst sagan mikið um kynlíf, ofbeldi, áfengi og dóp.
Hægt er að sjá viss einkenni unglingabókmennta í Fölskum Fugli og Sögu af stúlku, sem blandast saman við afþreyingarbókmenntir og fleiri form. Falskur Fugl fjallar meðal annars um samband Arnaldar við Möggu, þau ná ekki alveg nógu vel saman og eru að byrja og hætta saman alla söguna út í gegn. Auður og foreldrar hannar í Sögu af stúlku eiga í samskiptavanda sem er algengur í unglingabókmenntum. Hún þolir ekki mömmu sína og getur varla talað við pabba sinn. Arnaldur er í nákvæmlega sömu stöðu, nema það er pabbi hans sem hann þolir ekki og hann getur varla talað við mömmu sína. Þessi samskiptavandi byrjar hjá Auði árið sem hún fermist og uppreisn Arnaldar hefst með því að neita að fermast. Vandinn byrjar því við upphaf unglingsáranna, en í bakgrunni eru góðar fjölskylduminningar frá barnæsku. Í Gemsum má sjá sama samskiptavanda hjá Dodda (Andri Ómarsson) og Kristínu (Halla Vilhjálmsdóttir) við foreldra sína. Mikael er að vinna með stef sem víða má finna í unglingabókmenntum, en þó persónurnar séu 16 til 17 ára eru þetta síður en svo hefðbundnar unglingabókmenntir.
Arnaldur í Fölskum Fugli hefur ekki alltaf verið ofbeldishneigður eiturlyfjasali, því áður var hann yngri sonurinn í ósköp venjulegri fjölskyldu. Það er ekki fyrr en bróðir hans fremur sjálfsmorð eftir að hafa verið nauðgað, að fjölskyldan fer að sundrast og þar með líf Arnaldar. Hann einangrast frá foreldrum sínum og lendir inn í þeim vítahring sem verður honum að falli. Hér erum við komin að vissu þema sem kemur aftur og aftur fyrir í þeim þremur skáldsögum sem Mikael hefur sent frá sér, það er að segja sundrung fjölskyldunnar og einangrun ungmennanna. Arnaldur býr enn hjá báðum foreldrum sínum, en það er mjög lítið samband á milli fjölskyldumeðlima. Í raun virðast tengsl þeirra vera lítil sem engin önnur en að hittast annað slagið í þessu húsi sem á að kallast heimili þeirra. Mamma Arnaldar reynir af veikum mætti að halda sambandi við hann, en Arnaldur og pabbi hans eru hættir að reyna.
Sama er svo á seyði hjá Auði í Sögu af stúlku, sem býr með pabba sínum, konu hans og þroskaheftum bróður sínum. Þau búa að vísu saman í sátt og samlyndi, en það er nokkurs konar þagnarveggur á milli Auðar og annarra í fjölskyldunni. Hún hefur lokað sig af, eins og beinlínis er sagt í sögunni: „Það var ári eftir að Auður fermdist og lokaði sig inni í þessari skel“.(12) Það er því á svipuðum tímapunkti í lífi Auðar og Arnaldar sem tengslin fara að rofna. Aðalpersónan í þriðju skáldsögu Mikaels, Heimsins heimskasti pabbi (2000), er Marteinn. Hann er 28 ára, býr með konu sinni Elísabetu og þremur dætrum. Þrátt fyrir það er hann einangraður frá öðrum í fjölskyldunni, ekki bara foreldrum sínum, heldur líka konu og börnum.
Sundrung fjölskyldunnar er ekki alltaf eins og hefur ekki alltaf sömu áhrif. Foreldrar Arnaldar halda áfram að búa saman, en foreldrar Auðar og Marteins skilja. Sundrungin sem verður í fjölskyldum Arnaldar og Auðar hefur samt ólík áhrif á þau. Arnaldur fer á eiturlyfjatripp og ræðst á heiminn, en Auður lokar sig af. Eftir því sem líður á sögu hennar verður skel hennar æ þykkari allt þar til hún virðist ekki ná sambandi við neitt annað en bréf sem hún fær frá Rúnari. Manni sem hún hefur aldrei hitt en hefur tekið upp á því að senda henni bréf. Hún finnur samkennd í skrifum þessa manns og telur að hann sé sá eini í heiminum sem geti skilið sig.
Arnaldi finnst enginn skilja sig nema Höddi besti vinur sinn. Það er nokkur upphafning á sambandi á milli bestu vina í verkum Mikaels, sérstaklega er þetta áberandi í Fölskum Fugli, en hana er líka að finna í Heimsins heimskasti pabbi. Aðalpersónan í þeirri bók er Marteinn, sem er 28 ára, þriggja barna faðir og því í talsvert annarri stöðu en Arnaldur. Marteinn er elsta aðalpersóna skáldsagna Mikaels til þessa, en samband hans við besta vin sinn Bigga er engu að síður svipað sambandi Arnaldar við Hödda í Fölskum Fugli. Vinirnir taka aðalpersónunum bara eins og þær eru, án þess að reyna að breyta þeim. Biggi lýsir sambandi þeirra Marteins á einum stað í Heimsins heimskasti pabbi svona:
Þegar maður á vini ber maður það mikla virðingu fyrir þeim að maður stendur með þeim sama hvað þeir eru að spá. Ég er ekki mamma hans Matta. Ég er vinur hans og ef hann vill vera einhvers staðar annars staðar en á spítala þá er það hans mál. (132)
Vinskapurinn er það eina sem stendur óhaggað, flest annað sundrast eða er á einhvern hátt skemmt í verkum Mikaels. Arnaldur og Marteinn sjá sig stundum fyrir sér í öðrum hlutverkum en þeir eru í. Arnaldur sér sjálfan sig sem indíánann Falska Fugl og Hödda sem vopnabróður sinn í bardaga við kúreka sem hafa drepið fjölskyldu hans. Marteinn syrgir hins vegar þá staðreynd að hann sé ekki hermaður. Á einum stað í Heimsins heimskasti pabbi segir: „Allavega á maður bágt með að trúa á að sannleikann sé að finna nokkurs staðar annars staðar en í ofbeldinu“ (36) Reiðin út í samfélagið er það mikil að fátt stendur eftir nema ofbeldið og eina sambandið sem er raunverulegt er á milli vopnabræðra. Auður á sér enga vopnabræður og það er kannski ein ástæða þess að bréf Rúnars hafa jafn mikil áhrif á hana og raun ber vitni.
Skáldsögur Mikaels eru fullar af ofbeldi og stíllinn er hrár í samræmi við það. Stíllinn á Gemsum er líka hrár sem sjá má til dæmis af myndatökunni sem byggir á því að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir því að haldið sé á myndavélinni og því sé myndin ekki alveg stöðug. Þetta gefur í skyn að um sé að ræða heimildarmynd. Mikael er ekkert að reyna að fela ofbeldið sem hann er að fjalla um. Ofbeldið virðist gegnsýra allt í því samfélagi sem hann fjallar um. Það birtist meðal annars í því að nauðganir, kynferðisleg misnotkun og heimilisofbeldi eru síendurtekin stef í skáldsögum Mikaels. Sama má segja um Gemsa að frátöldu heimilisofbeldinu. Þegar aðalpersónur berja frá sér virðast það að nokkru leyti vera eðlileg viðbrögð við nútímasamfélagi sem fer illa með börnin sín.
Ofbeldishneigðin virðist vera tilraun persóna til þess að ná valdi yfir lífi sínu og annarra, því það sem hefur skipt sköpum í lífi þeirra hefur verið af völdum annarra. Bróðir Arnaldar drepur sig eftir að hafa verið nauðgað, en nauðgarinn sleppur. Þetta veldur því að fjölskyldumeðlimir Arnaldar fjarlægjast hverjir aðra. Auður fæddist strákur, en vegna þvagfærasýkingar er henni breytt í stelpu. Marteinn er stómasjúklingur sem í barnæsku hefur orðið fyrir því að foreldrar hans skildu, mamma hans bilaðist en pabbi hans gifti sig nokkrum sinnum. Geðveiki og drykkjuskapur foreldra er líka mjög algengt þema í þessum skáldsögum. Allt þetta virðist valda því að persónurnar missa tökin á lífi sínu og svo algerlega að í öllum sögunum missa þær vald á líkama sínum, sem birtist meðal annars í því að þær verða veikar, líða útaf eða æla.
Kynlífsiðkanir sýna líka nokkuð vel ofbeldi, stjórnleysi og sambandsleysi milli persóna. Samband Arnaldar við Möggu virðist til dæmis fyrst og fremst byggjast á því að hún vill fá að vera með honum, hann sefur hjá henni og hrindir henni svo frá sér. Þegar henni er svo nauðgað eru fyrstu viðbrögð hans að misþyrma nauðgaranum, í stað þess að tala við hana. Skömmu síðar fer hann, ber fósturpabba Möggu og reynir að fá hana til þess að flýja með sér, en þá er sambandinu lokið af hennar hálfu. Þegar Auður sefur hjá Ragnari í Sögu af stúlku hefur lýsingin yfir sér nauðgunarblæ. Marteinn í Heimsins heimskasti pabbi er hættur að geta sofið hjá konunni sinni sem er eitt dæmi þess hvað þau ná illa saman, en áður átti hann í sambandi við Söru og eftir því sem hann segir var hann undir lokin farinn að nauðga henni. Í Gemsum er Doddi kynferðislega áreittur og Kristínu er nauðgað. Ofbeldið virðist því vera byggt inn í allt í þeim heimi sem Mikael skrifar um í sínum fyrstu þremur skáldsögum og einnig hans fyrstu kvikmynd.
Skáldsögur Mikaels hafa hingað til snúist um ungt fólk, sérstaklega unga karlmenn, og vanda þeirra í heimi sem þeir sköpuðu ekki. Heimi þar sem fólk hefur lítið af föstu landi undir fótum. Fjölskyldur sem ættu að standa saman en geta það ekki vegna þess að þær hafa sundrast eða fjarlægst vegna ofbeldis, dauða, áfengisneyslu, geðveiki eða kynferðislegrar misnotkunar. Undir lok Sögu af stúlku og Heimsins heimskasta pabba er þó að finna vonarglætu, því Auður og Marteinn virðast hafa fundið grunn til þess að byggja framtíðina á. Persónur Gemsa virðast undir lokin vera að fara sitt í hverja áttina. Arnaldur í Fölskum Fugli virðist hins vegar endanlega vera búinn að missa tökin á tilverunni í lok sinnar sögu.
© Hákon Gunnarsson
Greinar
Um einstök verk
Falskur fugl
Þórður Helgason: „Ljótt ef satt er“
Frjáls verslun, 58. árg., 10. tbl. 1997, s. 78-79
Heimsins heimskasti pabbi
Terje Holtet Larsen: „Den rasende og den lavmælte = The irate and the calm“
Nordisk litteratur 2002, s. 54-58
Saga af stúlku
Soffía Auður Birgisdóttir: „Hvenær er stúlka stúlka?“ Um Sögu af stúlku eftir Mikael Torfason.
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 3. tbl. 1999, s. 61 – 73.
Verðlaun
Tilnefningar
2002 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Samúel
2002 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Heimsins heimskasti pabbi
2002 – Nordiska Filmpriset – besta mynd Norðurlanda: Gemsar
2002 – Kodak Nordic Vision Award: Gemsar (fyrir kvikmyndatöku sem Jakob Ingimundarson sá um)
Bréf til mömmu
Lesa meiraSyndafallið
Lesa meiraNjála
Lesa meiraTýnd í Paradís
Lesa meiraSíðustu dagar Kjarvals
Lesa meiraHarmsaga
Lesa meiraFalskur fugl
Lesa meiraHarmsaga
Lesa meiraVormenn Íslands
Lesa meira