Um þýðinguna
The Memoirs of a Survivor eftir Doris Lessing í þýðingu Hjartar.
Sagan lýsir lífi unglingsstúlku í þjóðfélagi þar sem flest er gengið úr skorðum; símasamband er rofið, strætisvagnar hættir að ganga, vatn er að skornum skammti og loft skaðlegt vegna mengunar - framtíðarsýn sem í ljósi kjarnorkuógnarinnar snertir hvern einasta nútímamann.
Úr bókinni
Barnið var skilið svona eftir hjá mér. Ég var í eldhúsinu, og þegar ég heyrði eitthvert hljóð, fór ég inn í dagstofuna og sá karlmann og hálfstálpaða stúlku standa þar. Ég þekkti hvorugt þeirra og gekk til móts við þau í þeim tilgangi að leiðrétta misskilning. Mér flaug í hug, að ég hlyti að hafa skilið gangdyrnar eftir opnar. Þau sneru sér að mér. Ég man, hve ég furðaði mig mikið, og það þegar í stað, á björtu, hörkulegu, óttablöndnu brosinu á andliti stúlkunnar.
Maðurinn - miðaldra, venjulega klæddur, á allan hátt ofur hversdagslegur - sagði: “Þetta er barnið.” Hann var á förum. Hann hafði lagt höndina á öxl hennar, hafði brosað og kinkað kolli til hennar, sneri sér frá henni.
Ég sagði: “En þetta hlýtur ...”
“Nei, þetta er enginn misskilningur. Þú berð ábyrgð á henni.” Hann var kominn út að dyrum.
“En bíddu aðeins...”
“Hún heitir Emilía Cartright. Taktu hana að þér.”
Og hann var farinn.
(s. 17)