Beint í efni

Múrinn

Múrinn
Höfundur
Sif Sigmarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ungmennabækur

um bókina

Í borginni innan múrsins getur sannleikurinn kostað fólk lífið.

„Hversu oft hafði hún ekki óskað þess að hún hefði fæðst nokkrum kynslóðum fyrr, þegar fólk gat farið þangað sem það vildi, gert það sem það vildi, skapað sér þá framtíð sem það vildi; þegar fólk klæddist skræpóttum fötum því það langaði til þess og lifði ekki eftir einkunnarorðunum „öryggi umfram allt“. Þegar það var enginn múr.“

Borgin Dónol er í heljargreipum einvaldsins Zheng og lífvarðasveita hans. Freyja elst þar upp hjá ömmu sinni og veit ekki betur en að þær séu ósköp venjulegir íbúar en þegar hinir Utanaðkomandi taka skyndilega að birtast innan borgarmúrsins fer tilvera hennar á hvolf. Hverjir eru hinir Utanaðkomandi? Og hvað vilja þeir Freyju?

Múrinn er fyrsta bókin í sagnabálkinum Freyju sögu, ævintýralegum spennutrylli sem gerist í harðneskjulegri veröld þar sem hinir vægðarlausustu lifa af.

 

úr bókinni

Þau urðu þess fljótt vör að eitthvað var öðruvísi við þetta kvöld en önnur. Myrkur var skollið á þegar þau lögðu af stað í leiðangur heim til veggjasmiðsins. En samt lá straumur fólks um göturnar. 

Freyja setti upp hettuna á renndri íþróttapeysu sem Baldur hafði lánað henni og vonaði að enginn myndi þekkja hana af myndinni úr Dagblaðinu.

Í miðbænum fengu þau skýringu á mannfjöldanum. Á Hólslækjartorgi, fyrir framan það sem nú voru rústir Bókasafnsin, hafði hópur borgarbúa safnast saman. Mannþröngin var jafnþétt og á morgnana á markaðnum. Allt þetta fólk í myrkrinu var skrýtin sjón, forboðin, röng. Þarna hlutu að vera mætt nokkur hundurð manns og enn lá stríður straumur inn á torgið. Allir á einum stað. Eftir klukkan sex. Þetta var harðbannað.

"Ég veit um aðra leið," sagði Baldur þar sem þau stóðu á jaðri torgsins og virtu fyrir sér úfið mannhafið sem bylgjaðist ein og vatnsflötur sem golan gárar. Um það fóru að fljóta slagorð:

"Enga miskunn - ristum þá á hol!"

"Ekki meiri linkind - höfuð af bol!"

"Zheng Zheng, vernda oss frá illu!"

"Zheng, Zheng, þú ert vort skjól!"

Freyja, Baldur, Höður og Nanna smeygðu sér inn þrönga götu sem lá samhliða torginu og bak við Bókasafnið. Stysta leiðin heim til veggjasmiðsins var yfir torgið. En Freyju var ekki óhætt innan um allt þetta fólk.

Freyja rak augun í plakat sem hékk á ljósastaur sem slökkt var á. Hún þurfti ekki lýsingu til að þekkja þann sem auglýst var eftir. Þetta var mynd af henni. Og tilkynning um þúsund aura fundarlaun.

"Og hingað inn," sagði Baldur með nefið oafan í korti af Dónol sem hann hafði fengið að láni - eða réttara sagt tekið í leyfisleysi - af Dagblaðinu.

Hann hafði ekki fyrr gengið fyrir hornið en hann stökk til baka og í veg fyrir þau hin. "Snúið við, snúið við," hvíslaði hann af svo miklum ofsa að munnvatn frussaðist út úr honum. "Lífvarðasveitirnar!"

Krókurinn yrði langur en þau kæmust að húsi veggjasmiðsins ef þau kræktu hinn hringinn kringum torgið. Þau læddust hljóðlega inn dimmt og þröngt húsasund en í sama mund og augun aðlöguðust mykrinu sem skapaðist í þrengslunum birutst tveir lífvarðasveitarmenn við hinn enda götunnar.

Freyja, Baldur, Höður og Nanna þustu til baka.

"Fljót," skipaði Baldur og þaut inn í mannhafið á torginu. Það er öruggara að við látum okkur hverfa í fjöldann. Lífvarðasveitirnar eru greinlega úti um allt í kvöld."

Freyja reyndi að láta lítið fyrir sér fara þar sem þau brutu sér leið gegnum þvöguna og dró hettuna niður í augu. Hún heyrði samtöl allt í kringum sig:

"Það verður að grípa til aðgerða."

"Já, það verður að gera eitthvað í þessu."

"Algjörlega."

"Þetta versnar bara og versnar. Síðastliðna nótt myrtu þeir fimm manns auk þess að kveikja í Bókasafninu."

(s. 189-191)

 

 

 

 

Fleira eftir sama höfund

La fille qui jouait avec le feu

Lesa meira

Das dunkle Flüstern der Schneeflocken

Lesa meira

Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu

Lesa meira

I am traitor

Lesa meira

Ég er svikari

Lesa meira

The sharp edge of a snowflake

Lesa meira

Moi, Edda, reine des faux plans

Lesa meira

Sjúklega súr saga

Lesa meira