Beint í efni

Ný skáldsaga eftir Sesselju Pálsdóttur gefin út hjá Amazon

Pitching Diamonds, ný skáldsaga eftir Sellu Páls (Sesselju Pálsdóttur) var að koma út á ensku hjá Amazon. Sella verður í Eymundsson í Austurstræti miðvikudaginn 10. október kl. 17 þar sem hún les brot úr bókinni á ensku og áritar fyrir þá sem vilja. Skáldsagan fæst nú í bókabúðum Eymundsson í Austurstræti, Kringlunni og Leifsstöð. Hægt er að panta bókina á vefsíðum Amazon í Bandaríkjunum og Evrópu á rafrænu formi fyrir spjaldtölvur. Pitching Diamonds (Demöntum kastað) er gamansöm spennusaga sem gerist bæði í New York og á Íslandi og fjallar um mæðgur og samband þeirra í skjóli leyndarmála og meðvirkni. Dóttirin reynir að komast að því hver raunverulegur faðir hennar er, en leiðin að sannleikanum tekur oft óvænta stefnu. Margir litríkir persónuleikar samtvinnast lífi mæðgnanna eins og samkynhneigður stjúpfaðir, framagjarn kærasti, heimsfræg balletstjarna, íslenskir bændur, dæmdur smyglari, vígreifir Úsbekar, eirðarlaus njósnari og demantakaupmaður.     [caption id="attachment_2687" align="alignright" width="240" caption="Höfundur Pitching Diamonds, Sella Páls."][/caption] Sella Páls (Sesselja Pálsdóttir) er fædd og uppalin í Reykjavík, en fluttist ung til Bandaríkjanna. Þar bjó hún víðsvegar en lengst í New York. Hún er nýflutt heim til Íslands eftir ævintýralegt líf erlendis. Hún stofnaði og átti veitingastaðinn Palsson's í New York á annan áratug og var framleiðandi söngleiksins Forbidden Broadway í New York, Boston, Washington og Los Angeles. Einnig stofnaði hún og rak SeniorShops.com, sem var vinsæl netverslun um áraskeið. Hún samdi söngleikinn Come Dance with Me með Agli Ólafssyni, hefur skrifað nokkur leikrit og kvikmyndahandrit og gert heimildarmynd um Sigurð Þorsteinsson skipstjóra. Sella skrifar nú Hiding Diamonds, sem er framhaldssaga af Pitching Diamonds auk þess vinnur hún að tveimur íslenskum leikritum, Tilgangur Geirþrúðar og Laxnessleikur .