Beint í efni

Ofurhetjan

Ofurhetjan
Höfundur
Hjalti Halldórsson
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Ofurhetjur eru áberandi í dægurmenningunni um þessar mundir. Risarnir Marvel og DC keppast við að dæla út kvikmyndum og þáttum um hinar ýmsu hetjur, sem nota ofurkrafta sína til að berjast við illmenni og leita að réttlæti. Oft eiga þær erfiða fortíð sem litar tilveru þeirra og sem er kveikjan að baráttu þeirra fyrir betri heimi. Hetjurnar eru margskonar og búa yfir mismunandi kröftum en eiga það þó allar sameiginlegt að vera þrátt fyrir allt manneskjur inn við beinið. Þær eru breyskar eins og við hin, gera mistök og eru oft á tíðum ansi sjálfhverfar. Kannski er það einmitt þetta samspil mennsku og ofurmennsku sem gerir þær svona heillandi. Ofurhetjan eftir Hjalta Halldórsson sækir innblástur í ofurhetjusögur og kallast að mörgu leyti á við þær.

Gunnlaugur Illugason, eða Gulli eins og hann er alltaf kallaður, er ungur maður með stóra drauma. Hann stefnir á að verða heimsfrægur, en á bara eftir að finna út úr því hvernig hann ætlar að slá í gegn. Gulli hefur prófað ýmislegt í leit sinni að frama, svo sem handbolta, körfubolta, fimleika, blak, skák, parkour, leiklist, dans, ýmis hljóðfæri og fleira og fleira, en ekkert virðist henta honum alveg nógu vel. Þegar sagan hefst er Gulli að reyna fyrir sér í fótbolta og gengur ágætlega þangað til hann klúðrar hornasendingu í lok æfingar og er í kjölfarið tekinn fyrir af eineltisseggnum Krumma, sem stjórnar öllum harðri hendi og enginn vill fá upp á móti sér. Eftir þessa frekar glötuðu æfingu fer Gulli heim til Helgu vinkonu sinnar til að fá hugmyndir og pepp um hvað hann geti prófað næst, en það er amma Helgu sem kemur með hugmynd sem vekur áhuga hans. Hún leggur til að hann stofni YouTube-rás og setji inn myndbönd um eitthvað einstakt og áhugavert. Gulli ákveður að slá til og fær frábæra hugmynd. Hann ætlar að nýta leikarahæfileika sína og tala inn á ofurhetjumyndbönd, um leið og hann er búinn að fá Helgu með sér í lið til að klippa saman efni og vinna tæknivinnuna, því ólíkt Gulla sjálfum er hún alger tæknisnillingur. Þau ákveða að birta myndbandið undir dulnefni til að byrja með og það slær strax í gegn. Gulli er alsæll með árangurinn, alveg þangað til Krummi tætir það í sig fyrir framan alla.

Gulli áttar sig á því að hann þarf að ganga skrefinu lengra til að ná athygli áhorfenda og til að tryggja að Krummi geti ekki eyðilagt glæstan framtíðarferil hans sem YouToube-stjörnu. Lausnin berst honum alveg óvænt þegar hann fær fyrir algjöra tilviljun ljóð upp í hendurnar sem kemur orðum að öllu sem hann vill segja um eineltisseggi og yfirgang. Hann ákveður að búa til annað myndband þar sem hann flytur ljóðið í ofurhetjugervi, án aðstoðar Helgu sem virðist eitthvað annars hugar. Myndbandið vekur mikla athygli, langt út fyrir það sem Gulli hefði getað ímyndað sér. Frægðin er handan við hornið en eitthvað er ekki alveg eins og það á að vera. Helga er fjarverandi úr skólanum og engar skýringar að fá á því hvar hún er. Enginn er heima hjá henni og Gulli veit ekki hvað hann á að halda.

Sagan gerist á rétt um tveimur vikum og framvindan er nokkuð hröð, það gerist ansi margt í lífi Gulla á þessum stutta tíma. Þegar sagan hefst er hann búinn að búa í Reykjavík í um ár, en hann flutti ásamt foreldrum sínum í bæinn eftir að hafa orðið fyrir alvarlegu einelti í gamla skólanum sínum. Gulli og Helga verða strax miklir vinir, þrátt fyrir að vera á yfirborðinu algerar andstæður og hann er í raun frekar hissa á því sjálfur hvað þeim semur vel því Gulli er hvatvís og ör en Helga yfirveguð og frekar lokuð. Það kemur hins vegar á daginn að þau eiga meira sameiginlegt en Gulli áttar sig á, því þau deila reynslu af því að takast á við yfirgangssaman eineltissegg. Pabbi Helgu er stórlax í viðskiptalífinu, er alltaf í vinnunni og þau Helga búa ásamt ömmu hennar í risastóru, glæsilegu húsi. Gulli öfundar Helgu af allsnægtunum og ver miklum tíma heima hjá henni, en þrátt fyrir að allt líti vel út á yfirborðinu er heimilislíf Helgu langt frá því að vera auðvelt því pabbi hennar er skapstór og erfiður og tekur það út á Helgu.

Frásögnin er í fyrstu persónu Gulla og sagan hverfist þar af leiðandi að mestu leyti um hann. Hann er þó nokkuð upptekinn af sjálfum sér og sínum eigin vandamálum og fyrir vikið veður hann oft áfram og gleymir að huga að vinum sínum og fjölskyldu, sem hann man hreinlega ekki alltaf eftir að séu til. Aðrar persónur sögunnar hverfa svolítið í skuggann af Gulla, sem er svo niðursokkinn í hefndaraðgerðir gagnvart Krumma að vandamál Helgu fara fyrir ofan garð og neðan hjá honum og þegar hann tekur eftir því að hún er ekki eins og hún á að sér að vera gleymir hann að fylgja því eftir. Umfjöllunin um heimilisaðstæður Helgu er reyndar á köflum svolítið óljós, þar sem sjónarhornið tekur algerlega mið af Gulla sem er með hugann við allt annað og það þarf að lesa á milli línanna til að átta sig á því hvað það gæti verið sem er að angra hana.

Ofurhetjur eru rauður þráður í gegnum söguna og frásögninni er skipt í fimm hluta, sem bera allir titla sem vísa til ofurhetjusagna: „Óvinurinn“, „Upphafssagan“, „Frægð“, „Ris og fall“ og „Uppgjör“. Í upphafi hvers kafla er auk þess stuttur formáli þar sem innihald kaflans framundan er tengt ofurhetjuþemanu. Gulli finnur sterka samsömun með ofurhetjum, lítilmagnanum sem er beittur ranglæti og sem nær fram réttlæti í dulargervi:

pælingin er ekki að flytja nein ljúf ljóð um vor og fuglasöng á þessari youtube-rás. Nei, þar ætla ég mér að ná mér niðri á hrokafullum fávitum eins og Krumma. Hann er eins og naðra og til að ná mér niðri á honum verð ég að vera það líka. Hratt og örugglega eins og eiturslanga mun ég bíta frá mér. Það smellpassar líka inn í ofurhetjupælinguna. Bruce Wayne óttaðist leðurblökur en breytti sér svo í leðurblökumanninn. Breytti sér í það sem hann óttaðist mest. (62-63)

Gulli vill taka málin í sínar hendur og ganga frá óvininum, í þessu tilfelli Krumma, og er kominn vel á veg með það í myndbandinu þar sem hann rappar ljóðið um eineltisseggina. Röksemdarfærsla hans er þó ekki alveg í takt við göfuglyndið sem ofurhetjur eru alla jafna þekktar fyrir í leit sinni að réttlæti, en hann er svo einbeittur í áformum sínum að hann er kominn með hálfgerða rörsýn. Radek skólabróðir Gulla reynir að koma vitinu fyrir hann:

„Gulli, það verða alltaf til fífl í heiminum. Það er ekki hægt að berja þau öll. Þótt ég fíli ofurhetjusögur,“ segir hann og bendir á Þór á bolnum sínum, „þá leysast vandamálin í raunveruleikanum sjaldan eins auðveldlega og þar.“
„Nei, en það er ekki hægt að láta hann komast upp með að vera svona … svona … svona mikið fífl,“ segi ég æstur en svolítið ringlaður.
„Nei, en það er líka hægt að hunsa fífl og bíða eftir að þau þroskist. Krummi er augljóslega með meiriháttar minnimáttarkennd,“ segir Radek eins og hann sé sálfræðiprófessor. (98)

Það tekur Gulla nokkurn tíma að átta sig á því að hefnd er kannski ekki rétta leiðin til að öðlast bætta líðan og takast á við týpur eins og Krumma, að slík lausn geri hann engu skárri sjálfan. Pabbi Gulla fer reglulega með speki um mikilvægi þess að spyrja og hlusta, að gefa fólki tíma og færi á því að segja frá því hvernig þeim líður. Smám saman síast þetta inn hjá Gulla og hann áttar sig á því í hverju það felst í raun og veru að vera hetja, það er að segja að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig, standa með sjálfum sér og vinum sínum og vera til staðar fyrir þá sem manni er annt um.

Sagan er nokkuð fyndin framanaf, þegar Gulli lýsir sjálfum sér og misjafnlega vel lukkuðum tilraunum sínum til að slá í gegn. Eftir því sem líður verður tónninn hins vegar alvarlegri og spenna færist auk þess í frásögnina þegar Gulli áttar sig á því hvað er í gangi hjá Helgu og ákveður að reyna að bjarga henni. Eineltið sem Gulli verður fyrir, bæði í gamla skólanum sínum og af hálfu Krumma er sannfærandi og gefur ágætis mynd af því hvernig slík mál geta þróast en hins vegar nær ofbeldið og yfirgangurinn sem Helga verður fyrir af hendi pabba síns ekki alveg að komast til skila á sama hátt.

Gulli tekur út töluverðan þroska í sögunni og tekst að byrja að vinna sig út úr slæmum afleiðingum sem eineltið hefur haft á sjálfstraust hans og tilfinningalíf. Boðskapurinn er skýr og sagan veitir ágætis innsýn í hugarheim stráks sem reynir í fyrstu að takast á við málin einn síns liðs en áttar sig smám saman á því að það sést ekki alltaf á yfirborðinu hverjum líður illa, allir eru að ganga í gegnum eitthvað og ofbeldi leysir engan vanda.
 

María Bjarkadóttir, desember 2020