Úr Önnur líf
Árni greip ljósmyndina sem lá efst í pappakassanum. Hún sýndi ekkert ofbeldi. Í bakgrunni sá Árni kollega sína í röðum, eins nálægt því og íslenskt lögreglulið komst að vera grátt fyrir járnum. Í miðpunkti logaði eldurinn framanvið Alþingishúsið glatt og fjöldi fólks dansaði í bjarma hans, allan hringinn. Dansaði, sönglaði, barði bumbur og trumbur og potta og pönnur. Yst til hægri sá hann glitta í dökkhærðan lúða með aulalegt bros á meinlausum vörum og þekkti þar sjálfan sig. Vinstramegin við bálköstinn var hinsvegar svartklædd kona með hendur á lofti og eld í augum. Hvort sem það var hennar eigin eldur eða endurkast af bálinu sem skein úr augum hennar var erfitt að dæma um, en þau skutu að minnsta kosti svo öflugum gneistum að þeir skiluðu sér alla leið á útprentaða ljósmynd.
Kannski, hugsaði Árni, er þetta meira áberandi út af grímunni. Augun voru það eina sem sást af andliti dansandi konunnar, allt annað var hulið kolsvartri skíðagrímu. En kona var það; bæði svört peysan og svartar buxurnar voru of aðskornar til að leyfa nokkurn vafa þar um. Árni fór hjá sér þegar hann horfði á myndina, aulalegt glottið á honum sjálfum átti sér alltof augljósa skýringu og reyndar mundi hann óþægilega vel hvað hann hafði hugsað á nokkurnveginn þessu augnabliki, þegar augu hans beindust að þessari dansandi, andlitslausu draumadís.
(bls. 43-44)