Beint í efni

Opið Gunnarshús

Laugardaginn 6. október 2012 verður opið hús í Gunnarshúsi í tilefni þess að Reykjavíkurborg hefur fært húsið Rithöfundasambandinu til gjafar og fyrstu Lestrarhátíðar í Reykjavík, sem nú stendur yfir. Húsið verður opið frá 14.00-16.00. Kaffi á könnunni, spjall og samvera, og eru allir að sjálfsögðu velkomnir.

Gunnarshús við Dyngjuveg 8 var síðasta heimili og vinnustaður Gunnars Gunnarssonar (1889 – 1975) rithöfundar og Franziscu Gunnarsson (1891 – 1976) konu hans. Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1991 fyrir hvatningu frá sonardóttur skáldsins, Franziscu Gunnarsdóttur, og það hefur verið aðsetur Rithöfundasmbands Íslands frá 1997. Í húsinu eru enn að hluta húsgögn frá tíð Gunnars og fjölskyldu þar og það hefur verið varðveitt í sem upprunalegustu mynd. Í húsinu er nú skrifstofa Rithöfundasambands Íslands og funda- og félagsaðstaða rithöfunda. Þá er gestaíbúð í kjallaranum en þar dvelja erlendir rithöfundar og þýðendur í allt að átta vikur í senn. Húsið að Dyngjuvegi 8 var teiknað og byggt á árunum 1950 – 1952. Arkitekt var Hannes Kr. Davíðsson, sem þá var tiltölulega nýkominn frá námi og bar nýja strauma til landsins. Hann lét þarfir og óskir Gunnars og Franziscu ráða innri gerð hússins, sem um margt var óvenjuleg og stakk í stúf við það sem tíðkaðist hérlendis á þessum tíma. Þar má nefna að stiginn milli hæða er léttur og opinn en ekki í lokuðu stigahúsi og hæðirnar tengjast þannig með opi sem ofanljós flæðir um. Sömuleiðis má nefna atriði í ytri gerð hússins sem ekki teljast nýlunda nú en voru það þá, svo sem hvernig mótaförum er leyft að haldast sýnilegum í steypuveggjum utanverðum, hinir stóru óskiptu hverfigluggar og gluggaskipanin sjálf. Meðfylgjandi myndir sem teknar eru inni í húsinu eru úr safni fjölskyldu Gunnars og Franziscu og veitti Gunnar B. Gunnarsson góðfúslegt leyfi til að birta þær hér á vefnum.[gallery link="file" order="DESC" orderby="title"]