Um þýðinguna
The Book of Revelation eftir Rupert Thomson í þýðingu Hermanns.
Ungur hæfileikaríkur dansari, með heiminn að fótum sér, bregður sér út í búð til að kaupa sígarettur fyrir kærustuna sína. Þessi ferð á eftir að kollvarpa hans vonbjörtu tilveru. Honum er rænt af þremur konum sem girnast líkama hans og beita andstyggilegustu brögðum til að koma vilja sínum fram við hann.
Úr Opinberunarbókinni
Þegar ég var kominn hálfa leið niður sundið, þar sem það sveigði lítillega til vinstri, nam ég staðar og leit upp. Einmitt þarna voru blokkirnar fimm hæða háar og virtust hallast hver upp að annarri. Þær byrgðu fyrir nánast allt ljós.
Himinninn hafði skroppið saman í þunna, bláa rák.
Þegar ég leit aftur niður sá ég þær, þrjár verur íklæddar kuflum og með hettur, eins og brot úr draumi sem hefði losnað á einhvern hátt og flotið frjáls inn í daginn. Sýnin kom mér ekki á óvart. Raunar hló ég jafnvel. Ég býst við að ég hafi haldið að verurnar væru á leiðinni á grímuball eða kannski að þetta væri götuleikhús...
Hver sem sannleikurinn var virtust þær ekki sérstaklega á skjön við umhverfið í sundinu. Nei, það sem kom mér á óvart, ef nokkuð, var að þær skyldu þekkja mig. Þær vissu hvað ég hét. Þær sögðust hafa séð mig dansa. Já, margsinnis. Ég var dásamlegur, sögðu þær. Ein af konunum klappaði saman höndunum af gleði yfir þessaritilviljun. Önnur tók utan um handlegginn á mér til að koma ákafa sínum betur til skila.
Þar sem þær stóðu í hnapp í kringum mig og spurðu mig í þaula fann ég skyndilega sting aftan á hægri handleggnum. Ég leit niður og sá í sjónhendingu að nál rann úr æð minni, nál sem bar við myrkan kufl. Ég heyrði sjálfan mig spyrja konurnar hvað þær væru að gera - Hvað eruð þið að gera? - en yfir mig helltist einungis óminni, ég féll aftur á bak, meðan turnar kufla þeirra gnæfðu áfram yfir mér og einnig orðum mínum, skrifuðum á himininn, þessa þröngu ræmu af himni, líkt og skilaboðum dregnum af flugvél.
--
Það er aðeins fimm mínútna gangur frá stúdíóinu aðbúðinni þar sem seld eru dagblöð og sígarettur. Ég hefði átt að komast þangað og til baka aftur á kortéri. En hálftími leið, síðan fjörutíu og fimm mínútur, og enn sást hvorki tangur né tetur af mér.
Ég hafði síðst séð Brigitte þar sem hún stóð við gluggann í matsalnum og studdi hönd á mjöðm. Hversu lengi ætli hún hafi staðið þannig? Og hvað flaug í gegnum huga hennar þar sem hún stóð þarna og starði niður á götuna? Hélt hún að ómerkilegt rifrildi okkar hefði komið mér úr jafnvægi? Hélt hún að ég væri að refsa sér?
Ég ímynda mér að hún hafi að lokum snúið sér undan og teygt báðar hendur upp til að hnýta aftur flauelsborðann sem hélt hárinu frá andlitinu. Sennilega hefur hún muldrað eitthavð við sjálfa sig á frönsku. Fait chier. Merde. Hana hefur vitaskuld enn langað í sígarettuna. Allir taugaendarnir hafa glamrað.
Kannski bað hún Fernöndu að lokum um Marlboro Light og reykti hana við símasjálfsalann á ganginum utan við stúdíóið.
Ég efast um að hún hafi dansað vel þennan dag.
(9-10)