Beint í efni

Ör

Ör
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Mun heimurinn sjá eftir mér? Nei. Mun heimurinn verða fátækari án mín? Nei. Mun heimurinn komast af án mín? Já. Er heimurinn betri nú en þegar ég kom í hann? Nei. Hvað hef ég gert til að bæta hann? Ekkert.

(Ör, bls. 18)

Fimmta skáldsaga Auðar Övu fjallar um Jónas Ebeneser Snæland, fjörtíuogníu ára fráskilinn karlmann sem hefur ákveðið að binda enda á líf sitt. Við lesturinn blasa við spurningar og vangaveltur um stöðu karlmanna og hvaða áhrif hugmyndir okkar um karlmennsku hafa. Bókin segir frá því hvernig Jónas getur ekki fótað sig í lífinu eftir að missa helstu hlutverkin sem skilgreina hann sem manneskju: að vera eiginmaður og fjölskyldufaðir. Sjálfsmynd Jónasar er byggð á hvernig hann getur gagnast öðrum, hvernig hann getur létt konum lífið með hinum ýmsu verkum: rífa upp gólf, parketleggja, veggfóðra, flísaleggja, eiga við pípulagnir, saga greinar og allt annað sem hægt er að nefna. Bókin skiptist í tvo hluta, I. Hold og II. Ör. Í fyrri hlutanum fær lesandinn að kynnast lífi Jónasar á Íslandi og þeim aðstæðum sem verða til þess að hann tekur ákvörðun um að enda líf sitt. Seinni hlutinn er aftur á móti algjörlega frábrugðinn, enda er bókstaflega himinn og haf milli sögusviðanna. Í seinni hluta bókarinnar leggur Jónas af stað í ferðalag sem hann býst ekki við að snúa aftur úr, til ónafngreinds lands sem hefur nýverið gengið í gegnum stríð.

Ör er langt frá því að vera fyrsta tilraun Auðar til að kryfja karlmennskuna. Ef rýnt er í eldri verk Auðar má sjá greinilegan þráð í gegnum verk hennar þar sem hún tekst á við karlmennskuna og mismunandi form hennar, bæði hvernig hún verkar á konur og á sjálfsímyndir karla. Auður reynir hvorki að brjóta upp né rífa niður karlmennskuna, þess í stað dregur hún upp mynd af karlmennskunni eins og hún birtist í raunveruleikanum og undirstrikar um leið margbreytileika hennar. Vissulega má sjá skaðleg áhrif hinnar hefðbundnu karlmennskuhugmyndar, um karlmanninn sem fyrirvinnu og tilfinningalausan klett, í sjálfsvígshugsunum Jónasar en það er alls ekki eina hliðin sem birtist í texta Auðar. Það er ákveðin umhyggja samofin við karlmennsku Jónasar og vilji til að hjálpa öðrum, sem er þó oftast bundinn við konur þar sem karlmenn eiga að sjá um sig og sína. Ekki er hægt að fella persónu Jónasar fullkomlega undir gamaldags skilgreiningar á karlmennsku þar sem hann hefur til að mynda meiri unun af því að elda góðan mat en að veiða. Jónas finnur sig því meira í umönnunarhlið karlmennskunnar sem kann að gleymast, en gefur lítið fyrir hinar átakagjörnu hliðar hennar. Nálgun Auðar er því ekki aðeins bundin við gagnrýni, heldur er hún heiðarleg tilraun til að skilja ólíkar hliðar tilfinningalífs karla.

Hann er á svipinn eins og hann sé að fara að gráta.

Hann gerir hlé á máli sínu á meðan hann er að jafna sig.

– Já, það eru líka karlmenn í heiminum sem þurfa á hjálp að halda. Það þarf að hafa jafnvægi í hlutunum, segir hann.

Og bætir við, þótt sumir geri sér kannski ekki grein fyrir því.

(Ör, bls. 164)

Það liggur enginn vafi á því að ég er töluvert hlutdrægur og á mögulega auðveldara með að koma auga á þess hlið skáldskapar Auðar, verandi sjálfur karlmaður, en það eru óneitanlega mörg skýr dæmi úr fyrri bókum Auðar. Ein eftirminnilegasta lestrarupplifun sem ég hef orðið fyrir var þegar ég las Afleggjarann (2007) í fyrsta skipti í menntaskóla. Fyrir ungan strák var mjög áhrifamikið að komast í tæri við „óhefðbundnu“ karlmennskuna sem Auður lýsir þar. Aðalpersóna bókarinnar, Arnljótur, er skilgreindur út frá því sem gætu talist „kvenlegir eiginleikar“ á borð við barnauppeldi, tungumálakunnáttu, tilfinninganæmi og garðyrkju. Í meðför Auðar renna þessir eiginleikar áreynslulaust saman við hefðbundnar hugmyndir um karlmennsku, sem sýnir þá mögulegu breidd sem býr í henni. Í Undantekningunni (2012) koma einnig fram vangaveltur um karlmennskuna í áhyggjum Maríu af skorti á karlmennskufyrirmyndum fyrir son sinn sem er á leikskólaaldri. María hefur líka áhyggjur af karlmennsku hans og sjálfstæði þar sem tvíburasystir hans er mun þroskaðri og á það til að annast bróður sinn og passa upp á hann. Karlmennska og hugmyndir okkar um hana eru í meðförum Auðar ekki einkamál karla heldur fyrirbæri sem er mótað af samfélaginu, bæði konum og körlum.

Í Ör hefur Auður fært fókusinn af mótunarárunum yfir á það sem mætti kalla uppgjör við lífið. Hvernig á miðaldra karlmaður að halda lífinu áfram eftir að allt það sem undan hefur komið hefur misst merkingu sína og grundvelli tilveru hans hefur verið kippt undan honum? Textinn er ljúfsár og erfitt reynist að horfa upp á hversu tilbúinn Jónas er til að deyja. Vissulega er hægt er að líta á fúsleika Jónasar til að mæta örlögum sínum sem aðdáunarverðan eiginleika, verandi óhræddur við óvissu og tóm dauðans, en um leið er tilfinningaleysi Jónasar gagnvart dauða sínum stuðandi fyrir lesandann. Sjálfsmorðshugsanir Jónasar eru áberandi í fyrri hluta bókarinnar en langt frá því að vera yfirþyrmandi. Þeim fylgir mikill drungi, enda alvarleg ákvörðun, en fegurðin í texta Auðar ásamt húmornum léttir upplifunina. Þessi léttleiki gerir lesandanum auðveldara að horfast í augu við vanlíðan Jónasar og býður upp á dýpri skilning á tilvistarlegum erfiðleikum miðaldra karlmanns. Það kann að gleymast en það ávallt mikill húmor í bókum Auðar, afar lúmskur en um leið bráðfyndinn. Hnyttin innskot og skondnir atburðir – eins og þegar Jónas fer á kaffihús með dóttur sinni og pantar sér „hjónabandssælu“ á sama tíma og hann íhugar sjálfsmorð vegna skilnaðar – brjóta upp alvarleika aðstæðna og gera erfiðleika lífsins grátbroslega.

Höfundareinkenni Auðar eru skýr í Ör en það þýðir hins vegar ekki að það sé ekki hægt að koma auga á ýmsar nýjungar í nýjasta verki hennar. Seinni hluti Örs kom mér á óvart þar sem vandamálin og hugmyndir um karlmennskuna eru sett í stærra og alþjóðlegra samhengi. Bækur Auðar hafa áður gerst að hluta erlendis, líkt og til dæmis Afleggjarinn, en það er allt annar bragur yfir Ör. Í Afleggjaranum er erlenda sögusviðið mun frekar til að einangra Arnljót og þar með gefa tilfinningalífi hans meira svigrúm. Þær erlendu persónur sem verða á vegi hans tala lítið um sínar eigin aðstæður eða umhverfi, þess í stað virka þær frekar sem speglar fyrir tilfinningalegan uppvöxt Arnljóts í útlandinu sem – líkt og í Ör – er ekki nefnt berum orðum, aðeins gefið til kynna um það bil hvar það er í heiminum. Í Ör gerist seinni hluti bókarinnar í landi sem hefur nýverið gengið í gegnum styrjöld. Persónurnar sem verða á vegi Jónasar eiga sér ríka og átakanlega sögu. Þær varpa ekki aðeins ljósi á þær raunir sem Jónas er að ganga í gegnum heldur verður lesandanum einnig annt um að kynnast þeim og þeirra aðstæðum. Auður hefur alltaf tekist á við sammannlegar spurningar um lífið og tilveruna en nú setur hún þær í beinna samhengi við mismunandi aðstæður fólks í ólíkum heimshlutum. Umheimurinn og útlönd fær því sjálfstæðari tilvist í Ör en í fyrri bókum Auðar þar sem vandmálin eru sammannleg en birtingarmyndir þeirra eru ólíkar.

Ör er frábær viðbót í höfundarverk Auðar og aðdáendur hennar ættu ekki að verða fyrir neinum vonbrigðum. Það er gífurlega margt jákvætt við bókina sem ég hef ekki náð að fara yfir í þessari stuttu umfjöllun um verkið en eins og í fyrri verkum hennar er textinn í heildina fallegur og hrein unun aflestrar. Umfjöllunarefnið er átakanlegt en Auði tekst að gera tilfinningarnar sem Jónas gengur í gegnum aðgengilegar lesandanum og hvernig hugmyndir karlmennskunnar eiga þátt í sjálfsmynd og líðan hans. Lesandanum er ekki velt upp úr eymdinni sem áfall orsakar heldur er áhersla lögð á að skilja hvað gerist í kjölfar áfalls. Ör koma ekki fram nema við áfall en þau eru einnig merki um að sár hafi gróið. Sár geta gróið vel eða illa en ör táknar að áverki tilheyri fortíðinni og að sá sem örið ber hafi komist í gegnum áfall.

– Vissirðu, segir hann, að sums staðar í heiminum eru ör virðingartákn og sá sem ber stórt og veglegt ör er manneskja sem hefur horfst í augu við villidýrið, tekist á við hræðslu sína og lifað af?

(Ör, bls. 39)

Ör fjallar því ekki aðeins um það hvernig eymdin sprettur fram, heldur líka um hvernig græða skuli sárin sem eymdin veldur. Ör Auðar Övu er einlæg og listilega skrifuð bók sem rígheldur í lesandann með falslausri rýni í sárin sem við hljótum í gegnum lífið og hvernig þau gróa.

Már Másson Maack, nóvember 2016