Mánudaginn 9. september og þriðjudaginn þann 10. gefst Reykvíkingum og gestum borgarinnar einstakt tækifæri til að kynnast rithöfundum hvaðanæva að úr heiminum ásamst íslenskum kollegum þeirra. Þá býður Bókmenntaborgin Reykjavík upp á upplestra utan dagskrár í tengslum við heimsþing PEN og Bókmenntahátíð í Reykjavík.
Þessi bókmenntadagskrá fer fram á 5 stöðum í miðborginni, en þeir eru Loft hostel í Bankastræti, Borgarbókasafnið í Tryggvagötu, Café Haiti við Gömlu höfnina, Alliance francaise í Tryggvagötu og Iða bókakaffi í Zimsen húsinu á Vesturgötu. Fyrri daginn verður dagskráin kl. 18 – 19:30 en á þriðjudeginum frá kl. 20 – 22. Skáldin lesa upp á móðurmáli sínu og/eða á ensku. Enskum þýðingum verður dreift til áhorfenda séu þær tiltækar.
DAGSKRÁ:
MÁNUDAGUR 9. SEPTEMBER
Borgarbókasafn, Tryggvagötu 15 - Café Lingua
Kl. 18 - 19:30
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson (Ísland) hefur gefið út fjölda ljóðabóka og barnabóka, auk þess að starfa sem þýðandi. Bækur hans og ljóð hafa komið út á dönsku, ensku, finnsku, norsku, spænsku og sænsku.
Dagmar Trodler (Þýskaland) gaf út fyrstu bók sína, sögulegu skáldsöguna Die Walgräfin, árið 2000. Síðan hafa komið frá henna sjö skáldsögur. Hún býr og starfar á Íslandi.
Gerður Kristný (Ísland) er höfundur fjölda ljóðabóka, smásagna, skáldsagna og barnabóka. Hún hlaut Barnabókaverðlaunin árið 2003, Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 2004 og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Blóðhófni árið 2010.
Job Degenaar (Holland) er ljóðskáld. Milli áranna 1976 og 2013 hafa komið út eftir hann tólf ljóðabækur, þar á meðal safnbók í Póllandi og nýlega þrítyngd safnbók, á hollensku, þýsku og ensku, í Þýskalandi.
Markéta Hejkalová (Tékkland) er höfundur fjölda skáldsagna (Angels of day and night, Evidence of her life, Magician from Beijing) og fræðibóka (Our home Europe, Short history of Finland). Bækur hennar hafa komið út í enskum, þýskum og rússneskum þýðingum.
Þór Stefánsson (Ísland) er ljóðskáld og þýðandi. Fyrsta ljóðabókin hans kom út árið 1989. Hann hefur einnig gefið út ellefu bækur með þýddum ljóðum, þar á meðal safnrit þýddra ljóða frá Quebec og Belgíu.
IÐA Zimsen, Vesturgötu
Kl. 18 – 19:30
Doris Kareva (Eistland) hefur gefið út ljóðabækur, ritsöfn, ljóðrænan prósa auk þýðinga á klassískum heimsbókmenntum. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir ljóð sín, sem hafa verið þýdd á um tuttugu tungumál.
Giorgio Silfer (Ítalía) er dulnefni rithöfundarins og esperantistans Valerio ARI. Hann hefur unnið að framgangi alþjóðamálsins esperanto og hefur gefið út skáldsögur, ljóðabækur og leikverk á málinu. Hann er á meðal stofnenda esperanto miðstöðvar PEN, sem staðsett er í Sviss.
Margrét Lóa Jónsdóttir (Ísland) er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur. Fyrsta ljóðabókin hennar, Glerúlfar, kom út árið 1985. Síðan hafa komið frá henni sex ljóðabækur og ein skáldsaga.
Michael Guggenheimer (Sviss) er rithöfundur, útgefandi, ljósmyndari og núverandi forseti svissneska PEN. Hann er á meðal stofnenda útibús Amnesty International í Austur-Sviss. Árið 2007 veittu tvíburaborgirnar Goerlitz og Zgorzelec honum heiðursverðlaun fyrir framlag hans til borganna.
Sigurbjörg Þrastardóttir (Ísland) er höfundur sex ljóðabóka, einnar skáldsögu og fjölda leikverka. Ljóð hennar hafa komið út á tólf mismunandi tungumálum og komið út í safnritum, tímaritum og útgáfum bókmenntahátíða víða í Evrópu.
Kynnir er Sigurbjörg Þrastardóttir.
Loft hostel, Bankastræti 7
Kl. 18 - 19:30
Andrej Kadanovich (Hvíta Rússland) er ljóðskáld og barnabókahöfundur. Samhliða eigin skrifum hefur hann einnig starfað sem þýðandi og hafa bækur hans komið út á fjórtán tungumálum. Hann er forseti PEN í Hvíta Rússlandi.
Anton Helgi Jónsson (Ísland) er ljóðskáld. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1974 með ljóðabókinni Undir regnboga. Síðan hefur hann sent frá sér tvær ljóðabækur og birt ljóð í tímaritum og safnritum, auk þess að gefa út skáldsöguna Vinir vors og blóma árið 1982. Hann hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2009.
Joan Frederic Brun (Frakkland) er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur sem talar og skrifar á oksítönsku, rómönsku tungumáli sem talað er í Suður-Frakklandi, Ítalíu, Mónakó og Katalóníu. Hann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og skáldsagna á oksítanskri tungu.
Mátyás Dunajcsik (Ungverjaland) er rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Hann hefur gefið út tvö smásagnasöfn (The Flyer‘s Handbook, 2007 og Balbec Beach, 2012) og unnið til fjölmargra verðlauna í heimalandi sínu.
Þórunn Valdimarsdóttir (Ísland) er rithöfundur og sagnfræðingur. Frá henni hafa komið skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og fræðirit. Bækur hennar hafa verið tilnefndar til fjölda verðlauna, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Kynnir er Þórunn Valdimarsdóttir.
ÞRIÐJUDAGUR 10. SEPTEMBER
Café Haiti, Geirsgötu 7b
Kl. 20 - 22
Andri Snær Magnason (Ísland) er höfundur skáldsagna, barnabóka og fræðibóka. Hann hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bæði skáldsögu og fræðirit. Bækur hans hafa komið út, og verið fluttar á sviði, víða um heim og fengið alþjóðlegar viðurkenningar.
Fathieh Saudi (Jordanía) er rithöfundur og læknir. Hún hefur unnið að mannréttindamálum fyrir ýmis samtök í gegnum árin. Nýjasta verkið hennar er ljóðræna minningabókin
Daughter of the Thames, gefin út árið 2012. Hún hefur tekið þátt í bókmenntaupplestrum víða um heim, meðal annars í London, Frakklandi, Kólumbíu og Níkaragva.
Hanan Awwad (Palestína) er fræðikona og rithöfundur. Hún hefur gefið út fjölda ljóðabóka og prósaverka, auk rita um stjórnmál og bókmenntir. Verk hennar hafa komið út á fjölda tungumála, þar á meðal frönsku, ensku, portúgölsku, spönsku, ítölsku, finnsku og japönsku.
Judith Rodriguez (Ástralía) er ljóðskáld og hefur starfað sem slíkt frá sjöunda áratug síðustu aldar. Hún hefur komið fram á bókmenntahátíðum í Evrópu, Norður-Ameríku og Indlandi. Verk hennar hafa einkum verið þýdd á frönsku og rúmensku. Meðal nýjustu verka hennar er smábókin Manatee og The Hanging of Minnie Thwaites.
Kári Tulinius (Ísland) er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur. Fyrsta skáldsaga hans, Píslarvottar án hæfileika, kom út árið 2009 en hann hefur einkum einbeitt sér að ljóðum í skrifum sínum. Ljóð hans hafa komið út í safnritum og erlendum tímaritum.
Kätlin Kaldmaa (Eistland) er ljóðskáld, þýðandi og bókmenntafræðingur. Hún hefur gefið út fjórar ljóðabækur, tvær barnabækur, sjálfsævisögulegt fræðirit og skáldsöguna No Butterflies in Iceland (2013). Ljóð hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Hún er forseti eistneska PEN.
Þórarinn Eldjárn (Ísland) er einn virtasti rithöfundur Íslendinga. Verk hans hafa hlotið fjölda verðlauna og frá honum hafa komið bækur í öllum mögulegum bókmenntagreinum. Hann hefur einnig starfað sem þýðandi.
Kynnir: Kári Tulinius.
IÐA – Zimsen, Vesturgötu 2a
Kl. 20 - 22
Bjarni Bjarnason (Ísland) er skáldsagna- og smásagnahöfundur og ljóðskáld. Skáldsögur hans hafa verið tilnefnd til margra verðlauna, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 1998 fyrir þriðju skáldsögu sína og árið 2001 fékk hann Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness.
Gustáv Murín (Slovakia) hefur gefið út skáldsögur, fræðirit, smásagnasöfn og ferðasögur. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar, sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Hann er heiðursforseti PEN í Slóvakíu og meðlimur PEN í San Miguel.
Itxaro Borda (Baskaland) er skáldagna- og smásagnahöfundur og ljóðskáld. Hún hefur gefið út níu skáldsögur og níu ljóðabækur. Árið 2002 hlaut hún Euskadi bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsögu sína 100%Basque.
Nicholas Kawinga (Zambía) er leikari, leikstjóri og virt verðlaunaskáld. Ljóð hans hafa verið þýdd á þýsku og hollensku. Hann er núverandi forseti PEN í Zambíu.
Ófeigur Sigurðsson (Ísland) hefur gefið út sex ljóðabækur og tvær skáldsögur. Hann hefur einnig starfað sem þýðandi og flutt útvarpspistla um frönsku rithöfundana Michel Houellebecq og Louis-Ferdinand Céline. Árið 2011 hlaut hann Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins fyrir skáldsögu sína, Skáldsöguna um Jón.
Regula Venske (Þýskaland) er þekktust fyrir glæpasögur sínar, en hún hefur einnig skrifað tilraunakenndan prósatexta, bókmenntagagnrýni og ljóð. Hún hefur hlotið fjölda bókmenntaverðlauna, þar á meðal Oldenburg Jugendbuchpreis og Þýsku glæpasagnaverðlaunin.
Sindri Freysson (Ísland) er skáldsagnahöfundur og ljóðskáld. Fyrsta bókin hans, sem var ljóðabók, kom út árið 1992. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 1998 og árið 2011 hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.
Teresa Cadete (Portúgal) er skáldsagnahöfundur, ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er prófessor við Háskólan í Lissabon, þar sem hún kennir menningarfræði og sagnfræði. Á ritferli sínum hefur hún gefið út sex skáldsögur. Hún er forseti portúgalska PEN.
Kynnir er Sindri Freysson.
Loft hostel, Bankastræti 7
Kl. 20 - 22
Ævar Örn Jósepsson (Ísland) er vinsæll glæpasagnahöfundur. Hann hefur starfað sem sjónvarps-, útvarps og blaðamaður, auk ritstarfa. Bækur hans hafa komið út í þýðingum í Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Þýskalandi.
Fawzia Assaad (Egyptaland) er skáldsagnahöfundur og heimspekingur. Fyrsta skáldsagan hennar kom út árið 1975 og hefur Genfarborg tvisvar sinnum veitt henni verðlaun fyrir skáldskap hennar.
Hallgrímur Helgason (Ísland) er rithöfundur, myndlistarmaður, þýðandi, skopteiknari og pistlahöfundur. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001. Árin 2005 og 2011 hlaut hann tilnefningu til sömu verðlauna, auk Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bækur hans hafa verið þýddar á yfir 15 tungumál og komið víða út í Evrópu.
Margie Orford (Suður-Afríka) er verðlaunaður blaðamaður og rithöfundur. Hún er þekkt víða um heim fyrir glæpasagnaröðina um Clare Hart og hafa bækur hennar verið þýddar á níu tungumál.
Nguyen Hoang Bao Viet (Víetnam) er ljóðskáld og blaðamaður. Hann hefur gefið út ljóðabækur á frönsku og víetnömsku. Árið 1961 hlaut hann Víetnömsku bókmenntaverðlaunin. Hann er meðlimur í samtökum víetnamskra rithöfunda í útlegð og PEN samtökunum í frönskumælandi Sviss.
Ólafur Gunnarsson (Ísland) er á meðal þekktustu sagnamanna Íslands. Skáldsaga hans Tröllakirkja hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunna árið 1992 auk tilnefningar til IMPAC verðlaunanna í Írlandi árið 1996. Hann fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2004, fyrir Öxina og jörðina.
Sarah Lawson (Bandaríkin) er skáldsagnahöfundur, ljóð- og leikskáld. Nýleg verk eftir hana eru ljóðasöfnin All the Tea in China og The Wisteria’s Children og skáldsagan The Bohemian Pirate.
Kynnir er Ævar Örn Jósepsson.
Alliance francaise, Tryggvagötu 8. Dagskrá á frönsku
Kl. 20 - 22
Émile Martel (Quebec) er ljóðskáld og þýðandi. Frá honum hafa komið sextán ljóðabækur, auk fjölda þýðinga úr ensku og spönsku. Hann er forseti PEN í Quebec.
Jean-Luc Moreau (Frakkland) er ljóðskáld. Frá honum hafa komið tíu ljóðabækur, þar á meðal nokkrar fyrir börn. Hann hefur einnig gefið út smásögur, safnrit og þýðingar. Hann er varaforseti PEN í Frakklandi.
Huguette de Broqueville (Belgía) er verðlaunaður rithöfundur og blaðamaður. Hún hefur ritað fjölda blaðagreina og bóka. Hún er forseti belgíska PEN.
Rose-Marie Francois (Belgía) er ljóðskáld, skáldsagnahöfundur og þýðandi. Hún hefur ritað um þrjátíu bækur, sem hafa komið víða út í Evrópu á yfir tólf tungumálum.
Sylvestre Clancier (Frakkland) er ljóðskáld og bókmenntafræðingur. Hann hefur gefið út tólf ljóðabækur, auk þess hafa frá honum komið fræðigreinar og prósaverk.
Þór Stefánsson (Ísland) er ljóðskáld og þýðandi. Fyrsta ljóðabókin hans kom út árið 1989. Hann hefur einnig gefið út ellefu bækur með þýddum ljóðum, þar á meðal safnrit þýddra ljóða frá Quebec og Belgíu.
Kynnir er Sophie Perrotet.