Hinn 9. október mun Norræna húsið vera gestgjafi pólsk-íslenska ljóðlistarverkefnisins ORT. Dagskráin er skipulögð í tengslum við Lestrarhátíð í Reykjavík sem að þessu sinni er helguð Reykjavíkur- og borgarljóðum. Málþing um ljóðaþýðingar í samstarfi ORT, Bókmenntaborgarinnar, Þýðingaseturs Háskóla Íslands og Norræna hússins mun fara fram kl. 10-12. Á dagskránni verða flutt fimm stutt erindi um ljóðaþýðingar, þýðingar í vinnslu og einnig alþjóðleg ljóðaverkefni sem tengjast ljóðum og sérstaklega ljóðum í borg. Frekari upplýsingar um málþingið má nálgast hér. Erindi flytja Jerzy Jarniewicz – ljóðskáld, þýðandi og prófessor í bókmenntafræði, Gauti Kristmannsson – prófessor í þýðingafræði, Magnús Sigurðsson – rithöfundur og þýðandi, Sigurbjörg Þrastardóttir – rithöfundur, Kristín Svava Tómasdóttir – ljóðskáld og Olga Holownia – verkefnisstjóri ORT. Að kvöldi sama dags, kl. 20, verður boðið upp á upplestrardagskrá ORT og Lestrarhátíðar, einnig í Norræna húsinu. Skáldin Bragi Ólafsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Jerzy Jarniewicz og Jacek Dehnel lesa þá upp úr verkum sínum. Skáldin hafa að undanförnu unnið saman að þýðingum, á vegum ORT verkefnisins, og verður afrakstur þeirrar vinnu meðal annars kynntur á dagskránni. Dagskrárnar eru opnar og allir velkomnir.
ORT af orði
